Ferill 602. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1098  —  602. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um vinnuferli svars við fyrirspurn.


     1.      Hverjar voru helstu tímasetningar í vinnuferli við samningu og afhendingu svars við fyrirspurn á þingskjali 660 (477. mál) á þessu þingi, þar á meðal á:
                  a.      móttöku ráðherra á fyrirspurninni,
                  b.      helstu áfanga í vinnslu svarsins,
                  c.      móttöku ráðherra á svarinu til endanlegrar samþykktar,
                  d.      sendingu svarsins til forseta Alþingis?

    Vinnsluferli við svör fyrirspurna frá þingmönnum er fastmótað í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þegar fyrirspurn berst felur skrifstofa yfirstjórnar hlutaðeigandi skrifstofu ráðuneytisins að undirbúa svar. Eftir atvikum hefur sú skrifstofa samráð við aðrar skrifstofur um verkefnið. Þegar uppkast að svari hefur verið undirbúið fer það til yfirlestrar hjá skrifstofu yfirstjórnar. Í flestum tilvikum hefur ráðuneytisstjóri lokaorð um að svar fari til hinnar pólitísku yfirstjórnar. Eins og nú er háttað hefur aðstoðarmaður ráðherra samráð við ráðherra um svar ráðuneytisins og fær heimild hans til að ráðuneytið sendi svar til Alþingis.
    Ráðuneytinu barst fyrirspurnin 26. apríl 2017. Sama dag var lögfræðisviði ráðuneytisins, sem fer með málefni lífeyrissjóða, falið að undirbúa svar við fyrirspurninni. Einnig þótti nauðsynlegt að afstaða yrði tekin til þess hvort fyrirspurnin fjallaði um opinbert málefni í skilningi laga um þingsköp Alþingis. Þegar svar við því lá fyrir var kannað hvort ráðuneytið byggi engu að síður yfir upplýsingum sem kynnu að varpa ljósi á álitaefnið. Uppkast að svari var tilbúið 16. maí og var þá sent til ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanns ráðherra. Eftir yfirlestur og heimild frá ráðherra var endanlegt svar sent Alþingi 22. maí 2017.

     2.      Hvaða skýringar eru á löngum tíma sem það tók ráðherra að svara umræddri fyrirspurn í ljósi þess að vinnsla svarsins hefur hvorki kallað á sérstaka gagnaöflun né gagnavinnslu?
    Álag á starfsmenn ráðuneytisins er umtalsvert, sér í lagi þegar nær dregur þingfrestun, og öll svör eru unnin af sérfræðingum samhliða öðrum verkefnum. Sá tími sem tekur að útbúa svör við fyrirspurnum skýrist að talsverðu leyti af stöðu annarra mála sem eru í vinnslu hjá viðkomandi fagskrifstofu og yfirstjórn. Ef sendingardagur er talinn með var svar sent Alþingi 17 virkum dögum eftir móttöku fyrirspurnarinnar.

     3.      Hvernig tryggir ráðherra umsjón með vinnslu svara við fyrirspurnum þingmanna svo að miðað sé við að þeim sé svarað eigi síðar en 15 virkum dögum eftir að þær eru leyfðar, sbr. 6. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis?
    Fjármála- og efnahagsráðherra leggur áherslu á að reynt sé eftir fremsta megni að svara fyrirspurnum þingmanna á eins skömmum tíma og frekast er mögulegt. Af hálfu yfirstjórnar ráðuneytisins er því fylgt eftir að svör séu tilbúin innan tilskilins frests en óskað sé eftir auknum fresti ef verkefnastaðan í ráðuneytinu er með þeim hætti að lengri tíma sé þörf.