Ferill 501. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1100  —  501. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um þróun Gini-stuðulsins.


    Leitað var til Hagstofu Íslands við samningu svars við fyrirspurnini.

     1.      Hvernig þróaðist Gini-stuðullinn á árabilinu 2013–2016 og hvaða áhrif höfðu skattbreytingar á stuðulinn á þessu tímabili?
    Gini stuðull er einn nokkurra mælikvarða á dreifingu tekna eða eigna. Fyrir tekjur miðast hann við ráðstöfunartekjur og hvernig þær dreifast á svo kallaðar neyslueiningar þar sem ráðstöfunartekjum fjölskyldu er deilt niður á fjölda heimilismanna sem þó hafa misjafnt vægi eftir því hvort þeir eru börn eða fullorðnir. Gini-stuðull tekur gildið 0 ef allir hafa sömu ráðstöfunartekjur en gildið 100 ef einn hefur allar tekjur og aðrir ekki neinar. Hagstofa Íslands reiknar og gefur út þrjá mismunandi mælikvarða á tekjudreifingu, Gini-stuðul, fimmtungastuðul og lágtekjumörk. Þeim er öllum sammerkt að vera einfaldir og í raun betur til þess fallnir að bera saman tekjudreifingu milli landa en til að fylgjast með þróuninni yfir tíma. Stofnunin byggir stuðlana á lífskjararannsókn sem er úrtakskönnun. Þeir hafa verið gefnir út fyrir árin 2004–2015 og eru birtir á vef Hagstofunnar með vikmörkum sem hafa numið milli 4 og 6% af stuðlinum sjálfum. Til að meta hvort tiltekin breyting hafi orðið á þessum einfalda mælikvarða á tekjudreifingu þarf að kanna hvort hún sé nægilega mikil til að hún rúmist ekki innan öryggismarkanna.
    Til þess að meta áhrif tiltekinna skattbreytinga á stuðulinn þyrfti að nota svokölluð eindahermilíkön (e. micro-simulation). Ráðuneytið hefur, í samvinnu við velferðarráðuneytið og NOSOSKO, Nordiska socialstatistik kommittén (norræna félagsmálatölfræðinefndin) unnið að undirbúningi slíks líkans sem stjórnvöld gætu notað við mat á áhrifum fyrirhugaðra aðgerða en vinnu við það er ekki lokið.
    Stuðullinn fyrir þau ár sem spurt er um og hann birtur fyrir er eftirfarandi:

Ár Gini-stuðull 95% öryggisbil (+/-)
2013 24 1,1
2014 22,7 0,9
2015 23,6 1,3

    Þessa töflu ber að túlka þannig að stuðullinn, sem fyrir árið 2015 er 23,6, liggur með 95% öryggi á bilinu 22,3 og 24,9. Ekki er hægt að segja til um hvort þær breytingar sem spurt er um í 1. tölulið fyrirspurnarinnar, og raunar í 2. tölul. einnig, hefðu hnikað Gini-stuðlinum marktækt. Þar sem þeir einstaklingar sem greiddu auðlegðarskattinn voru fáir má leiða að því líkur að ólíklegt sé að breyting á auðlegðarskatti hefði haft marktæk áhrif á Gini-stuðulinn.

     2.      Hver hefði þróun Gini-stuðulsins orðið á umræddu árabili ef auðlegðarskattur hefði ekki verið felldur niður?
    Samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra var upphæð og fjöldi þeirra sem greiddu auðlegðarskatt eða viðbótarauðlegðarskatt mestur árið 2013. Þá greiddu 4.778 fjölskyldur annan hvorn þessara skatta eða báða. Tæpur helmingur fjölskyldna greiddi innan við 500.000 kr. í auðlegðarskatta. Hins vegar var helmingur skattanna greiddur af þeim rúmlega 200 fjölskyldum sem mestan skatt greiddu. Áhrif svo fámenns hóps á dreifingu heildartekna eða ráðstöfunartekna eru takmörkuð.

     3.      Hver eru áætluð áhrif fækkunar skattþrepa 1. janúar 2017 á þróun Gini-stuðulsins?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar þyrfti að nota svokölluð eindahermilíkön til að meta áhrif slíkra breytinga á tekjudreifingu.