Ferill 610. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1104  —  610. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur um leiðsögumenn.


     1.      Telur ráðherra að lögvernda beri starfsheiti leiðsögumanna þannig að tryggt verði að það noti einungis þeir sem hafa lokið viðurkenndu leiðsögumannsnámi, t.d. í samræmi við staðal um menntun leiðsögumanna IST EN 15565:2008, eða aflað sér réttar til að bera starfsheitið með öðrum viðurkenndum hætti, svo sem raunfærnimati?
    Lögverndun starfsheitis leiðsögumanna hefur um nokkurt skeið verið til umfjöllunar í ráðuneytinu. Félag leiðsögumanna hefur talið löggildingu eða lögverndun á starfi eða starfsheiti félagsmanna sinna mikilvæga og litið á hana sem mikilvægt náttúruverndar-, gæða- og neytendamál.
    Á 145. löggjafarþingi 2015–2016 var lagt fram frumvarp til laga um leiðsögumenn ferðamanna (28. mál, áður lagt fram á 144. löggjafarþingi, flm. Ásmundur Friðriksson o.fl.). Í frumvarpinu, sem ekki náði fram að ganga, var kveðið á um að starfsheiti leiðsögumanna yrði lögverndað þannig að aðeins þeir sem fengið hafa leyfi frá Ferðamálastofu hafi rétt til þess að kalla sig leiðsögumenn ferðamanna. Samkvæmt frumvarpinu átti það ekki að takmarka rétt annarra til leiðsagnar í ferðum. Nokkrar umsagnir bárust um frumvarpið, m.a. frá Ferðamálastofu, Samtökum ferðaþjónustunnar og Ferðamálaráði. Í þeim kom fram að þótt vissulega væri mikil og vaxandi þörf á faglegum leiðsögumönnum eftir því sem ferðaþjónustan vex og kröfur um gæði aukast væri löggilding starfsheitisins enn ótímabær. Efni frumvarpsins þyrfti að fara í ítarlega skoðun og breið sátt að nást um framkvæmdina meðal atvinnulífs, leiðsögumanna og stjórnvalda áður en til samþykktar kæmi. Í umsögnunum var lögð áhersla á mikilvægi samræmingar náms leiðsögumanna og tengingu þess við kröfur um nútímaferðaþjónustu, t.d. varðandi öryggi.
    Á grunni Vegvísis í ferðaþjónustu hefur verið unnið að því að auka hæfni og gæði í ferðaþjónustu. Ýmislegt hefur nú þegar áunnist, svo sem stofnun Hæfniseturs ferðaþjónustunnar þar sem unnið er að því að koma á uppbyggingu þrepaskipts starfsnáms og styttri námsbrauta til að auka hæfni í ferðaþjónustu. Í undirbúningi er endurskoðun á lögum um skipan ferðamála en við hana gæti gefist færi á að fara yfir málefni leiðsögumanna sérstaklega, auk annarra þátta sem tengjast öryggis- og gæðamálum.
    Í lögverndun starfsheita felst að einstaklingur þarf leyfi í samræmi við fyrirmæli frá stjórnvöldum til að sinna ákveðnum störfum eða nota ákveðið starfsheiti en lögverndun starfsheita hér á landi er mun meiri en í nágrannaríkjunum. Hefur Viðskiptaráð áætlað að lögverndun nái yfir um 60 þúsund störf á Íslandi miðað við árið 2015 sem jafngildir um þriðjungi allra starfa á Íslandi. Það er mat ráðherra að almennt séð eigi lögverndun starfsheita við í greinum þar sem hún skilar sannarlega ávinningi. Lögverndun starfa er síðan annar þáttur þar sem einstaklingar mega ekki starfa í viðkomandi grein nema hafa til þess tiltekin réttindi, t.d. læknar og flugmenn, en þar eiga almannaheillasjónarmið við.
    Hafa ber í huga að lögverndun starfsheitis leiðsögumanna mundi leiða til þess að ófaglærðir einstaklingar, sumir með áratugalanga reynslu í leiðsögn, þyrftu leyfi frá stjórnvöldum til að geta titlað sig leiðsögumenn og álitaefni hvort slíkur ávinningur lögverndunar á starfsheiti leiðsögumanna vegi upp þann samfélagslega kostnað sem af slíkri löggjöf mundi hljótast. Þannig ætti löggjöf um lögverndun starfsheita að miðast við að skerða ekki atvinnufrelsi nema sýnt hafi verið fram á ávinning þeirrar lögverndunar.
    Skoða mætti hvort hægt væri að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með lögverndun starfsréttinda með öðrum hætti, svo sem á grunni gæðakerfisins Vakans. Þetta væri t.d. hægt að gera með samningum við fyrirtæki í ferðaþjónustu um að þau noti faglærða leiðsögumenn og kynningum og auglýsingum þar sem hvatt er til að notaðir séu faglærðir leiðsögumenn. Þá mætti einnig hugsa sér að þeir sem hafa haft leiðsögu ferðamanna hérlendis að aðalstarfi í tiltekinn tíma geti aflað sér réttinda enda sýni þeir með hæfnisprófi að þeir búi yfir þeirri þekkingu og færni sem þarf til að ljúka leiðsögunámi. Þannig kemur til greina að skoða leiðir til að ná markmiðum löggildingar með öðrum leiðum. Þó ber alltaf að hafa þekkingu að meginstefi í störfum þeirra sem taka að sér leiðsögn til að tryggja sem jákvæðasta og besta upplifun ferðamanna hverju sinni.
    Að framansögðu virtu er það mat ráðherra að ekki sé á þessu stigi rétt að lögvernda starf leiðsögumanna.

     2.      Hvernig telur ráðherra að rétt væri að standa að viðurkenningu leiðsögumannsnáms til leiðsögumannsréttinda og sérgreina innan þess?
    Mikilvægt er að samræma nám leiðsögumanna og tengja það kröfum til nútímaferðaþjónustu, svo sem varðandi öryggi. Með aukinni fjölbreytni í afþreyingu hefur sérhæfing leiðsögustarfsins vaxið og því væri rétt að skoða frekar skilgreiningu undirflokka leiðsagnar eftir eðli ferða þar sem meiri kröfur yrðu gerðar til t.d. fjallaleiðsagnar, hellaskoðunar, jöklaferða og flúðasiglinga en almennrar leiðsagnar. Margir leiðsögumenn sem starfa hér á landi hafa enn fremur sérhæft sig erlendis á sínu sviði með áherslu á öryggismál en hafa ekki gengið í gegnum leiðsögunám hér á landi. Þá mætti vel hugsa sér að þeir sem lokið hafa viðurkenndu leiðsögunámi geti á einhvern hátt aðgreint sig, svo sem með sérstöku auðkenni eða merki.

     3.      Telur ráðherra að með tilliti til öryggissjónarmiða o.fl. skuli gera kröfur um þekkingu leiðsögumanna sem starfa hér á landi á vegum erlendra aðila á náttúru Íslands, veðurfari og staðháttum að forsendu fyrir heimild þeirra til að starfa sem leiðsögumenn hér á landi?
    Það kemur til greina að horfa til þess að gera sérstakar kröfur til þeirra leiðsögumanna sem starfa við t.d. jöklaleiðsögn eða annars konar leiðsögn sem krefst sérstakrar varkárni og þekkingar á veðurfari og staðháttum út frá veðurfari. Víða erlendis hefur verið greint á milli almennra leiðsögumanna, gönguleiðsögumanna og fjallaleiðsögumanna. Slíkt fyrirkomulag mætti einnig skoða hér á landi. Hér verður þó að gæta að jafnræðissjónarmiðum milli þeirra sem starfa fyrir innlenda aðila og erlendra aðila.

     4.      Telur ráðherra rétt að gera sérstakar kröfur til þeirra leiðsögumanna sem annast leiðsögn í þjóðgörðum landsins eða tryggja á annan hátt þekkingu þeirra á náttúru þjóðgarðanna, gildi þeirra og starfsemi?
    Málefni þjóðgarða heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið en að mati ráðherra kemur til greina að horfa til þess að gera sérstakar kröfur til þeirra leiðsögumanna sem annast leiðsögn í þjóðgörðum. Hér væri hægt að ganga lengra varðandi hæfni og þekkingu, svo sem á gildi, starfsemi og náttúrufari þjóðgarðanna, en vegna leiðsögumanna almennt.