Ferill 453. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1106  —  453. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Kötlu Hólm Þórhildardóttur um biðlista barna eftir greiningu.


     1.      Er ráðherra sammála þeim ummælum félags- og jafnréttismálaráðherra, í umræðum á Alþingi 6. mars sl. um biðlista eftir greiningu, að færa þurfi frumgreiningu á sálrænum og félagslegum erfiðleikum barna inn í menntakerfið?
    Í lögum um leikskóla, nr. 90/2008, og lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, er ábyrgð á skólaþjónustu og stoðkerfi leik- og grunnskóla skilgreind hjá sveitarfélögum. Sveitarfélögum ber að tryggja að skólaþjónusta sé veitt í skólunum, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan þeirra. Í lögunum er kveðið á um að frá upphafi skólagöngu nemenda sé unnið í anda snemmtækrar íhlutunar og með forvarnastarfi, skimunum og athugunum á nemendum til að tryggja þeim kennslu og námsaðstoð við hæfi. Lagaskylda sveitarfélaga og skóla hvað þetta varðar er nánar skilgreind í sameiginlegri reglugerð nr. 584/2010 um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum.
    Lög um leik- og grunnskóla og sameiginleg reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga kveða samkvæmt þessu skýrt á um skyldur sveitarfélaga og skóla og rétt barna til skólaþjónustu. Þegar hins vegar kemur að sérhæfðari greiningum og meðferð færist ábyrgð til heilbrigðiskerfisins. Þannig hefur verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga verið ákveðin í lögum og reglugerðum.
    Í þeim umræðum á Alþingi, sem fyrirspurn þessi vísar til, var m.a. rætt um biðlista eftir greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins þar sem bið eftir sérhæfðri greiningu er löng. Sérstaklega skal bent á að árið 2013 lét mennta- og menningarmálaráðuneytið kanna stöðu biðlista greininga á vegum skólaþjónustu sveitarfélaga í leik- og grunnskólum. Niðurstöður voru á þá leið að af 55 sveitarfélögum sem svöruðu, sögðu sjö þeirra að enginn biðtími væri, 17 sveitarfélög sögðu biðtíma vera 1–3 vikur, 24 sveitarfélög 1–3 mánuðir og sjö sögðu hann vera 4–6 mánuði.
    Samkvæmt því sem rakið hefur verið hér fyrr fer greining á sálrænum og félagslegum erfiðleikum nemenda nú þegar fram í leik- og grunnskólum.

     2.      Ef svo er, stendur til að auka fjárveitingar til grunnskóla til að ráða sálfræðinga í alla skóla landsins sem geta sinnt skimunum skv. 2. mgr. 40. gr. laga um grunnskóla?
    Sveitarfélög bera ábyrgð á rekstri og kostnaði grunnskóla, annast ráðningar á starfsfólki skólanna og til skólaþjónustu sveitarfélaga og er það því í hendi einstakra sveitarfélaga hvort auka eigi fjárveitingar til skóla umfram það sem nú er gert.

     3.      Stendur til að mennta- og menningarmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið taki höndum saman og finni framtíðarlausn á þeim vanda sem biðlistar eftir greiningu eru?
    Í tilefni þessarar fyrirspurnar vill mennta- og menningarmálaráðuneytið benda á nýja úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi, á leik- grunn- og framhaldsskólastigi sem unnin var af Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir. Hinn 2. mars 2017 var ráðuneytinu afhent lokaskýrsla með niðurstöðum úttektarinnar. Samhliða skrifuðu mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Skólameistarafélag Íslands og Heimili og skóli undir samstarfsyfirlýsingu um eftirfylgni með niðurstöðum skýrslunnar. Aðilar að samstarfsyfirlýsingunni munu leitast við að fylgja eftir því markmiði úttektarinnar að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.
    Cor Meijer, framkvæmdastjóri Evrópumiðstöðvarinnar, sagði við afhendingu skýrslunnar að Ísland stæði mjög sterkt hvað varðar löggjöf og stefnumótun um menntun án aðgreiningar og í samræmi við alþjóðlega sáttmála. Hlutfallslega færri nemendur væru í sérskólum og sérúrræðum í skólum á Íslandi en víðast í Evrópu. Hins vegar væru formlegar greiningar á sérþörfum nemenda á Íslandi langt yfir meðallagi. Hann telur að menntakerfið í heild sé almennt vel fjármagnað en að endurhugsa þurfi úthlutun fjármagnsins þannig að það styðji betur við stefnuna um menntun án aðgreiningar. Það komi fram í úttektinni að þetta skiptir höfuðmáli þegar horft er til umbóta í menntakerfinu þegar til lengri tíma er litið.
    Í kjölfar úttektarinnar var stofnaður stýrihópur með fulltrúum þeirra aðila sem nefndir voru hér fyrr. Hópurinn mun gera aðgerðaáætlun sem grundvallast á tillögum í skýrslu Evrópumiðstöðvarinnar. Hópurinn mun skila fyrstu tillögum til ráðherra síðar í sumar.
    Í þeirri vinnu sem er fram undan verður mikilvægt að skoða núverandi fjármögnunaraðferðir og vægi greininga á nemendum í því sambandi. Hvort slík vinna leiði til breytinga á núverandi verkaskiptingu hvað varðar annars vegar hlutverk sveitarfélaga í greiningu og ráðgjöf og hins vegar hlutverk ríkisins í sérhæfðari greiningu og meðferð verður tíminn að leiða í ljós. En sameiginlegt markmið allra hlýtur þó að vera að vinna að þeim nauðsynlegu breytingum sem þarf að gera til að hagsmunir nemenda séu hafðir að leiðarljósi fyrst og fremst þannig að allir nemendur fái jöfn tækifæri til menntunar í samfélagi án aðgreiningar. Í því sambandi er mikilvægt að endurhugsa vægi greininga á nemendum og í stað þess efla skólasamfélagið almennt, m.a. með viðeigandi skólaþjónustu og faglegri starfsþróun.