Ferill 562. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1111  —  562. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Inga Jóhannssyni um sölu á landi Vífilsstaða.


     1.      Stendur Reykjavíkurborg til boða að kaupa land Keldna, Keldnaholts og Úlfarsfells á sömu kjörum og með sömu fyrirvörum og Garðabær keypti land Vífilsstaða á?
    Viðræður hafa verið við Reykjavíkurborg með hléum um langt skeið vegna áhuga borgarinnar á landi ríkisins við Keldur og Keldnaholt. Afstaða ríkisins hefur lengi verið sú að það sé reiðubúið að ganga til samninga við borgina um sölu á umræddum landsvæðum enda henta þessi svæði að mati ríkisins mjög vel til uppbyggingar jafnt íbúðabyggðar sem atvinnusvæða. Ríkið hefur ítrekað lagt til að gerður yrði svokallaður ábataskiptasamningur um landsvæði ríkisins á svæðinu þar sem ábata af sölu á byggingarrétti yrði skipt milli ríkis og sveitarfélags.
    Ríkið er og hefur verið reiðubúið í viðræður við Reykjavíkurborg um sambærilega nálgun á slíkum kaupum á umræddum svæðum. Minna má á sölu ríkisins á landi af flugvallarsvæðinu árið 2013 þar sem gert er ráð fyrir ábataskiptum af sölu lóða.

     2.      Býðst Kópavogsbæ að kaupa land á Vatnsendahæð á sömu kjörum og Garðabær keypti land Vífilsstaða á?
    Borist hefur ósk frá Kópavogsbæ um kaup á því sem eftir stendur af landi ríkisins á Vatnsendahæð. Þegar ríkið seldi Kópavogsbæ u.þ.b. 150 ha. land ríkisins á Vatnsendahæð og Rjúpnahæð á árinu 2002 hélt ríkið eftir 7,5 ha. landspildu sem það hafði keypt á árinu 1929 vegna útvarpsstöðvar. Á umræddu svæði eru enn aðalsendar RÚV fyrir Rás 1 og Rás 2 á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að byggja þarf upp nýjan sendistað áður en hægt er að taka þá senda sem þar eru fyrir undir einhvers konar uppbyggingu. Sala landsins, ef til hennar kæmi, yrði því að gerast í samráði við RÚV.
    Af framangreindum sökum hefur ekki verið tekin afstaða til umræddrar beiðni Kópavogsbæjar og ekki hægt að fullyrða að slík sala sé tímabær.

     3.      Hversu stórt var landsvæði Vífilsstaða sem ráðuneytið leysti til sín í árslok 2014 og hafði til þess tíma verið á forræði Landspítala og hvert var verð hvers hektara á því landi?
    Ráðuneytið hvorki leysti til sín landsvæði Vífilsstaða né greiddi kaupverð vegna landsins.
Umrætt landsvæði hafði verið í eigu ríkissjóðs um langt skeið en umráðaðili landsins var Landspítali. Fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem fer með fasteignir ríkissjóðs, ákvað hins vegar á þessum tíma að golfvallarsvæðið norðan Vífilsstaðavegar yrði fært í umsýslu Ríkiseigna sem almennt fer með eignir ríkissjóðs, sérstaklega þær eignir sem ekki eru sérstaklega nýttar undir hefðbundna starfsemi ríkisaðila og eru jafnvel leigðar einkaaðila eins og í þessu tilviki.

     4.      Hvers vegna var ekki gerður fyrirvari í kaupsamningi ríkisins við Garðabæ um mögulega nýtingu hluta hins selda lands undir heilbrigðisþjónustu í framtíðinni?
    Ekki liggja fyrir staðfestar áætlanir um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu eða sjúkrahúss á landi ríkisins í Garðabæ. Lauslegar hugmyndir hafa verið reifaðar um nýtingu á landi Vífilsstaða til slíkrar uppbyggingar í framtíðinni en slíkt staðarval virðist að mestu byggjast á eignarhaldi landsins og þeirri staðreynd að landið hafði verið í umsjón LSH vegna Vífilsstaðaspítala.
    Það liggur aftur á móti fyrir ákvörðun ríkisstjórnar og Alþingis um að lokið verði við byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík í samræmi við þær áætlanir sem unnið hefur verið eftir á annan áratug. Gera má ráð fyrir að bygging annars nýs spítala á höfuðborgarsvæðinu taki að sama skapi einhverja áratugi að raungerast. Líklegt er að spítalabyggingar á Hringbrautarsvæði muni halda áfram að byggjast upp næstu áratugi.
    Verði byggður annar nýr spítali frá grunni er ljóst að ákvörðun um staðarval hans í framtíðinni mun þurfa að byggjast á greiningu sem tekur mið af þeirri borgarmynd og skipulagi sem þá verður til staðar. Slíkt staðarval mun þurfa að byggjast á greiningu á bestu og hagkvæmustu staðsetningu óháð eignarhaldi landsins. Í lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, er jafnframt beinlínis gert ráð fyrir að sveitarfélög leggi til lóðir undir slík mannvirki án greiðslu.

     5.      Hvernig og hvenær var haft samráð við Landspítalann áður en að sölu kom?
    Vísað er til svars við 3. og 7. tölul. fyrirspurnarinnar.

     6.      Hvert telur ráðherrann að geti orðið markaðsvirði þessa sama landsvæðis Vífilsstaða að liðnum þeim 40 árum sem ábatasamningurinn gildir?
    Markaðsvirði landsvæðis fer eftir því skipulagi þess. Miðað við óbreytt skipulag til framtíðar verður markaðsverð þess áfram lítið miðað við stærð landsins.
    Verði landið allt eða stórir hlutar þess hins vegar teknir undir byggð mun markaðsverð þess verða verulegt og fljótt hlaupa á milljörðum króna. Skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögum þannig að ráðuneytið getur ekki fullyrt um það hvernig skipulag svæðisins verði að 40 árum liðnum. Ljóst er hins vegar að með fyrirliggjandi ábatasamningi hefur sveitarfélagið ríkan hvata til þess að skipuleggja svæðið með eins hagkvæmum og góðum hætti og unnt er.

     7.      Hvaða samráð hafði ráðherra við heilbrigðisráðherra áður en gengið var frá sölu Vífilsstaðalands til Garðabæjar?
    Fjármála- og efnahagsráðherra kynnti bæði heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra mál þetta þegar ásættanleg niðurstaða hafði náðst í samningaviðræðum ráðuneytisins við sveitarfélagið. Ráðherrarnir þekktu málið báðir vegna heimildarákvæðis í fjárlögum.

     8.      Hvenær var sala Vífilsstaðalands rædd í núverandi ríkisstjórn og samþykkt þar?
    Ekki var talin þörf á því að bera mál þetta formlega upp í ríkisstjórn enda fer fjármála- og
efnahagsráðherra með eignir ríkisins og fullnægjandi lagaheimildir lágu fyrir. Má þar vitna bæði til áðurnefndrar heimildar í fjárlögum og 35. gr. jarðalaga. Málið var kynnt almenningi með frétt á vef ráðuneytisins 6. apríl sl., en samningur um söluna var undirritaður 20. apríl eða hálfum mánuði síðar.

     9.      Hvaða landsvæði á höfuðborgarsvæðinu, annað en land Vífilsstaða, telur ráðherrann að komi til greina fyrir framtíðaruppbyggingu fyrir heilbrigðisþjónustu að 20–40 árum liðnum?
Af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur ekki átt sér stað sérstök greining á framtíðaruppbyggingu fyrir heilbrigðisþjónustu að liðnum 20–40 árum. Ljóst er að slík greining mun þurfa að byggjast á þróun höfuðborgarinnar í framtíðinni, sbr. svar við 4. tölul. Ráðuneytið er ekki í vafa um að heppileg lóð mun finnast á höfuðborgarsvæðinu í framtíðinni þegar og ef ákvörðun verður tekin um byggingu slíks mannvirkis.

     10.      Leitaðist ráðuneytið eftir að fá sem hæst verð fyrir Vífilsstaðalandið?
    Núverandi skipulag svæðisins miðar við að þar sé aðeins byggð að litlu leyti. Markaðsverð slíks lands er mun lægra en verð á skipulögðu byggingarlandi. Ríkisstjórnin hefur, eins og fram hefur komið hér fyrr, átt í samskiptum við fleiri sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu í því skyni að auka framboð á byggingarlóðum. Með því að semja við Garðabæ sem hefur skipulagsvaldið á svæðinu tryggði ríkið sér meiri hluta af framtíðarhagnaði af sölu lóða og jók þannig mjög verðmæti landsins fyrir ríkið á sama tíma og framboð á lóðum er aukið og þannig slegnar tvær flugur í einu höggi.