Ferill 539. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1113  —  539. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy um fiskmarkaði.


     1.      Hyggst ráðherra styðja með einhverjum hætti við uppbyggingu fiskmarkaða í brothættum byggðum? Ef svo er, hvernig?
    Mikilvægt er að horft sé heildstætt á þann vanda sem steðjar að brothættum byggðum og þeim stuðningsúrræðum sem beita má. Sértækur stuðningur við uppbyggingu fiskmarkaða í slíkum byggðum yrði því að skoðast sem hluti af heildstæðum aðgerðum.

     2.      Hyggst ráðherra leggja fram lagafrumvarp um að lágmarkshlutfall nýtingarréttar landaðs afla verði seldur á fiskmarkaði? Ef svo er, hvenær?
     3.      Hvaða efnahagslegu áhrif hefði það ef allur fiskur yrði seldur á fiskmarkaði?
     4.      Hyggst ráðherra leggja fram lagafrumvarp um aðskilnað veiða og vinnslu og takmarka þar með lóðrétta samþættingu útgerðar og fiskvinnslu?

    Um þau hugsanlegu efnahagslegu áhrif sem yrðu ef allur fiskur yrði að seljast á fiskmarkaði sem og hvort ráðherra hyggist leggja fram lagafrumvarp um aðskilnað veiða og vinnslu má benda á ítarlega skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá árinu 2011, Fjárhagslegur aðskilnaður fiskveiða og vinnslu: Kostir og gallar, en þar segir í niðurstöðukafla:
    „Fyrirtæki velja það skipulagsform sem hámarkar hagnað þeirra að teknu tilliti til virðis eiginleika vörunnar sem þau framleiða og viðskiptakostnaðar. Lóðrétting samþætting er, undir ákveðnum kringumstæðum, besta skipulagsform fyrirtækis vegna þess að hún leiðir til betri rekstrarafkomu en aðskilinn rekstur. Sjávarútvegsfyrirtæki, sérstaklega þau sem einbeita sér að framleiðslu á afurðum þar sem ferskleiki er mikilvægur eiginleiki, geta haft margvíslegan ávinning af því að samþætta veiðar og vinnslu og jafnvel fleiri hlekki virðiskeðjunnar. Fyrirtæki geta þá haft betra eftirlit með gæðum afurða sinna og tryggt þannig að þær uppfylli væntingar kaupenda. Auk þess geta fyrirtæki þá tryggt betra samræmi á milli veiða og vinnslu og þar með að framboð afurða falli betur að kröfum markaðarins. Meiri líkur eru á að útgerð og vinnsla séu á sömu hendi ef miklar sveiflur eru t.d. í úthlutuðu aflamarki hvers árs en þar sem heildarafli er stöðugur á milli ára. Útgerðir sem ekki hafa örugga kaupendur að vöru sinni eru ólíklegri til að ráðast í fjárfestingar. Slíkt hið sama gildir um fiskvinnslur sem ekki hafa öruggan aðgang að hráefni. Samþætt fyrirtæki er því líklegra til að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar.“
    Einnig segir í þeim sama kafla:
    „Fyrirtæki sem rekur bæði útgerð og vinnslu mun eingöngu horfa til þess ávinnings sem það hefur af því að selja afla á markaði og bera hann saman við þann ávinning sem það hefur af því að nýta hráefnið til eigin vinnslu. Í áliti samkeppnisráðs nr. 6/1996 er aftur á móti bent á þann mun sem er á aðstöðu fiskvinnslustöðva án útgerðar og þeirra stöðva sem starfa í tengslum við útgerð til þess að afla sér hráefni. Þessi munur skapi síðarnefndu aðilunum ákveðið forskot, en stafi hins vegar ekki af samkeppnislegri mismunun í skilningi samkeppnislaga. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að verð í beinum viðskiptum útgerðar við fiskvinnslu sé lægra en það sem fæst á markaði. Eftir sem áður er ekki hægt að líta fram hjá því að sú uppgjörsregla sem nú er í gildi felur í sér víxlun á hagnaði á milli útgerðar og fiskvinnslu hjá samþættu fyrirtæki. Vel mætti ímynda sér að þeirri uppgjörsreglu yrði breytt þannig að sjómenn væru jafnvel settir hvort heldur væri um að ræða beina sölu til fiskverkenda eða sölu á fiskmarkað. Þessu fyrirkomulagi væri að sjálfsögðu hægt að breyta án þess að krefjast fjárhagslegs aðskilnaðar.“
    Það er niðurstaða skýrsluhöfunda um þróun í fyrirkomulagi rekstrar sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi á árunum fyrir 2011 að:
    „Þróun undanfarinna ára hefur í stórum dráttum verið tvenns konar. Annars vegar í átt að færri og stærri fyrirtækjum sem oft og tíðum eru lóðrétt samþætt, og hins vegar til smærri og sérhæfðari, sjálfstæðra fyrirtækja. Í stað þess að leggja áherslu á magn, hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki lagt enn meira upp úr því að framleiða gæðavöru. Til þess að sem best verð fáist fyrir afurðirnar er nauðsynlegt að gott samstarf sé á milli fyrirtækja innan virðiskeðjunnar og að miðlun upplýsinga upp og niður keðjuna sé sem best. Því markmiði má annað hvort ná með lóðréttri samþættingu eða náinni samvinnu milli fyrirtækja.“
    Þó vægi sjávarafurða í útflutningi frá Íslandi hafi farið minnkandi undanfarna áratugi vegna vaxtar annarra atvinnugreina er greinin þó enn burðarás í atvinnulífi landsins. Ljóst er að breytingar á starfsumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja sem fælust í aðskilnaði veiða og vinnslu eða kröfu um að allur fiskur fari á fiskmarkað myndu þrengja möguleika fyrirtækjanna á að hafa vald á allri virðiskeðjunni, frá veiðum á markað, og skerða samkeppnishæfni íslenskra sjávarafurða á erlendum mörkuðum. Vert er að taka fram að talið er að yfir 95% af lönduðum afla íslenskra skipa endi á erlendum mörkuðu í formi ýmissa sjávarafurða. Íslenskar sjávarafurðir eru þar ekki aðeins í samkeppni við sjávarafurðir frá öðrum löndum, heldur alla aðra matvöru þar sem stór og öflug alþjóðafyrirtæki ráða miklum hluta markaðarins.
    Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um samningu lagafrumvarps um lágmarkshlutfall landaðs afla sem skuli seldur á fiskmarkaði, né um aðskilnað veiða og vinnslu. Þó er ekki loku fyrir það skotið að af því verði á síðari stigum, enda hafi þá farið fram greinargóð skoðun á öllum forsendum sem eindregið bendi til þess að breytingar í þá veru myndu verða til góðs. En líkt og áður er getið hafa fræðilegar úttektir leitt fram rök fyrir því að róttækar breytingar á núverandi fyrirkomulagi gætu haft neikvæðar afleiðingar fyrir rekstrarlega stöðu greinarinnar í heild.
    Ráðherra leggur jafnframt áherslu á að þverpólitísk nefnd, sem hefur verið falið það hlutverk að móta tillögur að framtíðarfyrirkomulagi gjaldtöku í sjávarútvegi, fái svigrúm til þess að ljúka þeirri vinnu. Vonir standa til þess að um það tiltekna mál náist víðtæk sátt, en ráðgert er að nefndin skili tillögum sínum til ráðherra í árslok.