Ferill 600. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1116  —  600. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur
um starfsemi erlendra fólksflutningafyrirtækja.


     1.      Hversu margar erlendar fólksflutningabifreiðar voru skráðar til aksturs í atvinnuskyni hér á landi árin 2016 og það sem af er yfirstandandi ári og fyrir hve marga farþega var hver þeirra ætluð?
    Á árinu 2016 var ein erlend bifreið skráð undir rekstrarleyfi hér á landi. Á árinu 2017 hafa þrjár erlendar fólksflutningabifreiðar verið skráðar til aksturs í atvinnuskyni. Þær voru allar skráðar undir sama rekstarleyfið. Ekki eru til upplýsingar um hversu marga farþega þessar bifreiðar taka. Þegar erlend fólksflutningabifreið hefur verið skráð undir rekstrarleyfi íslensks leyfishafa hér á landi hefur eingöngu verið skylt að framvísa til Samgöngustofu staðfestingu á leyfisskoðun bifreiðarinnar. Upplýsingar um fjölda sæta í viðkomandi bifreið koma ekki þar fram og ekki hefur verið skylt að veita þær upplýsingar.
    Með lögum um fólksflutninga og farmflutninga á landi, nr. 73/2001, og í reglugerð nr. 528/2002 um fólksflutninga var ekki gerð krafa um að rekstrarleyfishafar á Íslandi þyrftu að tilkynna Samgöngustofu um öll þau ökutæki sem notuð voru í rekstri þeirra. Rekstrarleyfishafi réði sjálfur hvort hann skráði ökutækin sem notuð voru í rekstrinum undir rekstrarleyfið. Þetta breyttist með nýrri löggjöf sem sett var á þessu ári.
    Með reglugerð um leyfi til að stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 474/2017, sbr. lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017, sem tóku gildi 1. júní 2017, er gerð krafa um að rekstrarleyfishafar tilkynni til Samgöngustofu öll ökutæki sem notuð eru í rekstri hvers leyfishafa. Mun það leiða til þess að betri upplýsingar fást um fjölda þeirra erlendu ökutækja sem notuð eru í rekstri leyfishafa hér á landi.
    Erlendar hópbifreiðar sem koma hingað til lands og notaðar eru til að flytja farþega tímabundið á grundvelli EES-samningsins eru ekki skráðar hér á landi. Þær fá hins vegar tímabundna akstursheimild hjá tollyfirvöldum við komuna til landsins. Skylt er að sýna fram á það við eftirlit að gefið hafi verið út bandalagsleyfi í heimaríki rekstrarleyfishafa, sbr. lög nr. 28/2017 og reglugerð nr. 474/2017.

     2.      Telur ráðherra þörf á að breyta reglum og vinnulagi varðandi starfsemi erlendra fólksflutningabifreiða hér á landi og greiðslur opinberra gjalda vegna slíkrar starfsemi, t.d. þannig að gerð verði krafa um einhverja fyrirframgreiðslu slíkra gjalda áður en störf hefjast?
    Samkvæmt 4. tölul. 4. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 15/2017, fer fjármála- og efnahagsráðuneyti með þau mál sem þessi liður fyrirspurnarinnar er um.

     3.      Hvaða aðilar hafa eftirlit með starfsemi erlendra fyrirtækja í fólksflutningum sem starfa hér á landi og í hverju er það einkum fólgið?
    Þeir sem hafa helst hlutverki að gegna við eftirlit með starfsemi erlendra fyrirtækja hér á landi eru ríkisskattstjóri, Vinnumálastofnun, tollyfirvöld og lögreglan. Vísað er á viðkomandi stofnanir um nánari tilhögun eftirlitsins.

     4.      Hvaða úrræði eru til að beita innheimtu og viðurlögum hafi erlendur aðili í fólksflutningum ekki greitt opinber gjöld vegna starfsemi sinnar hér á landi og er farinn af landi brott?
    Samkvæmt 4. tölul. 4. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 15/2017, fer fjármála- og efnahagsráðuneyti með þau mál sem þessi liður fyrirspurnarinnar er um.