Ferill 598. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1117  —  598. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Njáli Trausta Friðbertssyni um hæfisbundna leiðsögu.


     1.      Hefur Ísland lagt fram áætlun um hæfisbundna leiðsögu (e. PBN Implementation Plan) sem eykur öryggi og gefur kost á styttri flugleiðum í samræmi við ályktun Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (Resolution A37-11)?
    Hæfisbundin leiðsaga er flugleiðsöguþjónusta sem byggist á kröfum um hæfni fyrir loftför á flugþjónustuleið (e. Air Traffic Services route) í blindaðflugi eða í tilteknu loftrými. Kröfur um hæfni eru tilgreindar sem leiðsöguforskriftir, RNAV-forskrift (Required Navigation) og RNP-forskrift (Required Navigation Performance). Byggt er á nákvæmni, heilleika, með öðrum orðum réttleika (Integrity), samfellu, tiltækanleika, með öðrum orðum aðgengileika (Availability) og virkni sem skilgreind hefur verið sem nauðsynleg fyrir flug innan viðkomandi loftrýmis. Með öðrum orðum eru settar sérstakar reglur um hvernig beri að fljúga til og frá tilteknum flugvöllum og eftir tilteknum flugleiðum með hliðsjón af aðstæðum í viðkomandi loftrými.
    Hæfisbundin leiðsaga snýst um gervihnattaleiðsögu og flugþjónustuleiðir sem hannaðar eru með slíka leiðsögu í huga og birtar í flugmálahandbók. EGNOS (European Geostationary Navigation Overlay Service) eykur nákvæmni slíkrar leiðsögu og getur gefið færi á að lenda við verri veðurskilyrði en ella þar sem aukin nákvæmni getur gert mögulegt að fara lægra á lokastefnu áður en flugbraut er í augsýn.
    Hæfisbundin leiðsaga er bæði miðuð við tiltekna flugvelli með atriðum eins og blindaðflugskorti (Instrument Approach Chart) og staðsetningar miðaðar við þá en nýtist einnig fyrir leiðarflug og staðlaða aðflugs- og brottflugsferla.
    Samgöngustofa hefur unnið að mótun áætlunar um hæfisbundna leiðsögu á Íslandi um nokkurt skeið. Drög að áætluninni eru tilbúin en hún hefur ekki verið lögð fram. Isavia vinnur samkvæmt drögum áætlunarinnar við þróun á leiðsöguþjónustu. Margir þeir ferlar sem kveðið er á um að skuli vera til reiðu hafa verið gerðir og þeir notaðir fyrir tiltekna flugvelli á landinu. Gerð er krafa um að flugmenn fljúgi vélum sínum með ákveðnum hætti þegar lent er á tilteknum flugvöllum eða tekið á loft frá þeim, sem dæmi hvernig vél er látin lækka flugið við lendingu og hvaða leið hún fer. Þá þarf að lenda með ákveðnum hætti við blindflugsskilyrði o.s.frv. Um þessi atriði hafa verið settar reglur, ferlar, sem fara ber eftir til að tryggja öryggi og hagkvæmni. Slíkir ferlar hafa verið gerðir fyrir nokkurn fjölda flugbrauta á Íslandi en áætlun fyrir landið allt hefur ekki verið gefin út.
    Til að gefa yfirsýn yfir það sem fellur undir hæfisbundna leiðsögu má nefna:
          Kort fyrir flugþjónustuleiðir, sem dæmi flugþjónustuleið frá Vaðlaheiði langleiðina að Akrafjalli.
          Staðlaðar aðflugs- og brottflugsleiðir svo sem staðlað kort fyrir aðkomuleiðir í blindflugi (STAR) og staðlað blindbrottflugskort (SID). Sem dæmi RNAV STAR RWY 19 RH 1N sem notað er við hæfisbundna leiðsögu frá Reykholti í Borgarfirði að Akrafjalli. Sem dæmi um staðlað blindbrottflugskort (SID) er BIAR RNAV(RNP) SID RWY 01 ASKUR 1S sem er fyrir brottflug til norðurs frá Akureyrarflugvelli með vinstri beygju til suðvesturs.
          Síðasti flokkurinn er svo blindaðflugskort (Instrument Approach Chart). Sem dæmi um þau má nefna Reykjavik RNAV(GNSS) RWY 19. Það er aðflugskort sem notað er m.a. við flug loftfars frá Akrafjalli til lendingar á Reykjavíkurflugvelli til suðurs.
    Hæfisbundin leiðsaga bætir afkastagetu í loftrými og getur gefið kost á styttingu flugleiða. Hún er þó ekki alltaf forsenda fyrir styttingu flugleiða né sjálfgefið að flugleiðir styttist þó hæfisbundin leiðsaga sé notuð. Stytting á flugleiðum hefur m.a. verið eitt af markmiðum með innleiðingu á stöðluðum aðflugsferlum við Keflavíkurflugvöll, m.a. til að minnka kolefnisspor og hljóðspor. Hæfisbundin leiðsaga stuðlar jafnframt að auknu öryggi þar sem gæði upplýsinga aukast og staðsetning loftfara verður nákvæmari.
    Kröfur Evrópusambandsins í þessum efnum eru settar fram í reglugerð (ESB) nr. 716/2014 frá 27. júní 2014 um fyrstu sameiginlegu áætlunina (Pilot Common Project) til stuðnings framkvæmdar á evrópsku mynsturáætluninni um rekstrarstjórnun flugumferðar. Reglugerðin var tekin upp í EES-samninginn 20. mars 2015 og innleidd hér á landi með reglugerð 884/2015, um breytingu á reglugerð nr. 1126/2014 um skilgreiningu sameiginlegra verkefna, um ákvörðun stjórnunarhátta og um tilgreiningu hvata sem styðja við framkvæmd evrópsku mynsturáætlunarinnar um rekstrarstjórnun flugumferðar.
    Í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 549/2004 frá 10. mars 2004 eru sett rammaákvæði um að koma á samevrópsku loftrými. Í reglugerðinni er m.a. kveðið á um SESAR-áætlunina. Með SESAR-áætluninni er stefnt að því að endurbæta rekstrarstjórnun flugumferðar í Evrópu. Stefnt er að því að árið 2030 verði innan Evrópusambandsins afkastamiklir innviðir á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar sem greiði fyrir öruggri og umhverfisvænni starfsemi í flugi sem og þróun á sviði flugsamgangna. Í reglugerð 716/2014 setur framkvæmdastjórnin fram fyrstu sameiginlegu áætlunina (The Pilot Common Project) til stuðnings evrópskri mynsturáætlun um rekstrarstjórnun flugumferðar.
    Verkefnið nær ekki til flugstjórnarsvæða sem eru á forræði Íslands né til íslenskra flugleiðsöguþjónustuveitenda. Engu að síður er af því mikill hagur að taka þátt í verkefninu og hefur það verið gert hér á landi.

     2.      Telur ráðherra viðunandi að við landið séu hnökrar á dreifisvæði EGNOS-leiðréttingakerfisins, sem takmarkar m.a. möguleika á þróun flugleiðsögu, og ef svo er ekki, hvernig hyggst ráðherra bæta úr því?
    EGNOS (European Geostationary Navigation Overlay Service) er leiðsögukerfi sem byggist á gervihnattabúnaði, m.a. Galileo-kerfi Evrópusambandsins og GPS-kerfi Bandaríkjamanna. EGNOS-kerfið er notað til að auka nákvæmni þeirra staðsetningarupplýsinga sem hægt er að fá frá GPS-kerfinu bandaríska. EGNOS er svokallað space based augmentation system sem leiðréttir merkin frá gervihnöttunum til að tryggja nákvæmni í staðsetningu. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig hægt var að nema merkin sem komu frá EGNOS-kerfinu í janúar 2017. Eins og myndin sýnir var hægt að tryggja 99,6% aðgengileika (tiltækileika) leiðréttingarinnar á austasta hluta landsins. Á vestasta hluta landsins var hægt að tryggja 97,5% aðgengileika (tiltækileika).






Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Það sem þessi aðgengileiki merkir er að flugferlar sem byggjast á EGNOS-leiðréttingu verða þá nothæfir í t.d. 97,5% af tímanum á Vestfjörðum og 99,6% á Austfjörðum. Þegar EGNOS-kerfið er ekki aðgengilegt á ákveðnum flugvelli verða flugmenn að byggja á gervihnattaleiðsögu án EGNOS-leiðréttingar, flugleiðsögu sem byggð er á ILS (Instrument Landing System) eða þá flugleiðsöguvitum. Instrument Landing System er kerfi sem byggist á því að tæki á jörðu niðri senda frá sér geisla sem flugmenn síðan fylgja. Gangi hvorugt verða flugmenn að treysta á varaflugvelli. Flugöryggi er ætíð tryggt þar sem búnaður um borð í loftfarinu lætur vita ef gæði gervihnattamerkisins og EGNOS-leiðréttingamerkisins eru ekki fullnægjandi. Þegar svo ber við notar flugmaður aðra flugferla. Að auki hefur veitandi flugleiðsöguþjónustu eftirlit með gæðum merkisins. Það er þó ljóst að sé EGNOS-staðsetningarmerki aðgengilegt verða meiri líkur á að hægt sé að nota tiltekinn flugvöll í slæmu veðri.
    Isavia ohf. er undirverktaki hjá fyrirtækinu sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins valdi til að sjá um rekstur EGNOS-kerfisins fyrir hennar hönd. Fyrirtækið, The European Satellite Services Provider, eða ESSAP SAS, er franskt fyrirtæki í einkaeigu. Til þess að aðgengileiki EGNOS-kerfisins aukist hér á landi þarf að bæta við jarðstöðvum, sennilega á Grænlandi. Það hefur ekki komist á dagskrá Evrópusambandsins sem á og rekur EGNOS-kerfið að bæta aðgengileika þess hér á landi. Ýta þyrfti við slíkum úrbótahugmyndum á pólitískum vettvangi í milliríkjasamstarfi Íslands við Evrópusambandið eða aðildarríki þess.

     3.      Hefur verið fylgt eftir áætlun um leiðsögu og upplýsingakerfi, sem starfshópur um uppbyggingu, rekstur og notkun leiðsögukerfa lagði fram árið 2007, eða áætlunin endurskoðuð? Ef svo er ekki, hvers vegna?
    EGNOS er fyrsta samevrópska leiðsögukerfið. EGNOS er samstarfsverkefni ESA (European Space Agency), framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Eurocontrol sem er flugleiðsögustofnun Evrópu. EGNOS er fyrsta verkefni Evrópusambandsins á sviði hnattræns leiðsögukerfis, eða Global Navigation Satellite Systems (GNSS). Galileo er einmitt leiðsögukerfi sem verið er að þróa í Evrópu. EGNOS mun nýta upplýsingar frá því kerfi til að gefa staðsetningarmerki. Galileo-kerfið verður hægt að nota með bæði bandaríska GPS-kerfinu og GLONASS sem er sambærilegt kerfi í eigu Rússa. EGNOS-kerfið nýtir GPS-leiðsögukerfið þannig að það verður nothæft til leiðsögu við erfiðar aðstæður svo sem í flugi og siglingar við erfiðar aðstæður.
    EGNOS-kerfið samanstendur af þremur gervihnöttum og kerfi jarðstöðva. Merki eru send sem gefa til kynna nákvæmni þeirra merkja sem GPS-kerfið sendir frá sér. Á þeim grunni geta notendur síðan ákvarðað eigin staðsetningu með nákvæmni upp á 1,5 m. Þjónustan hefur verið rekin síðan 1. október 2009 og er opin öllum sem hafa þar til gerð móttökutæki.
    Hinn 13. október 2016 samþykkti Alþingi þingsályktun um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu. Samþykktin var á þessa leið: Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að sækja um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu að undangenginni nánari skoðun á skuldbindingum samfara aðild.
    Íslensk stjórnvöld eru að kanna kosti og galla aðildar og samstarfs við stofnunina. Ljóst er að aðild mun kalla á fjárframlög af Íslands hálfu. Slíkt þarf að vega á móti ávinningi sem hljótast mun af þátttöku en hann verður væntanlega fyrst og fremst í formi þátttöku í þróunarverkefnum á vegum stofnunarinnar. Þá hefur Isavia bent á mikilvægi þess að setja tryggingu á EGNOS-þjónustu á Íslandi sem forsendu fyrir aðild að Geimvísindastofnun Evrópu. Niðurstaða liggur ekki fyrir. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra styður að aðild Íslands að stofnuninni verði könnuð til hlítar, m.a. með hliðsjón af þeim ávinningi sem af því getur hlotist í leiðsöguþjónustu og gæðum staðsetningarmerkja. Geimvísindastofnun Evrópu er einn eigenda evrópska Galileo-leiðsögukerfisins og EGNOS-kerfisins. Aðild að stofnuninni er því mikilvæg til að tryggja hagsmuni Íslands þegar kemur að staðsetningarmerkjum sem verða sífellt mikilvægari í samgöngum, sem og öðrum þáttum. Jafnframt kann þátttaka í rannsóknarverkefnum og rannsóknarsjóðum innan stofnunarinnar að nýtast íslenskum aðilum og vísindasamfélaginu.
    Gerðir Evrópusambandsins um Galileo hafa verið teknar inn í EES-samninginn með fyrirvara um að þátttöku Íslands í verkefnum verði frestað þar til sameiginlega nefndin ákveður annað.

     4.      Hefur verið fylgt eftir áætlun um leiðsögu og upplýsingakerfi, sem starfshópur um uppbyggingu, rekstur og notkun leiðsögukerfa lagði fram árið 2007, eða áætlunin endurskoðuð? Ef svo er ekki, hvers vegna?
    Sú áætlun um hæfisbundna leiðsögu fyrir Ísland sem unnið hefur verið að byggist að hluta til á áætlun um leiðsögu og upplýsingakerfi frá árinu 2007. Henni hefur ekki verið fylgt eftir í heild sinni.