Ferill 625. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1118  —  625. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um öryggi á flugvöllum o.fl.


     1.      Hvaða reglur gilda hér á landi um öryggi á alþjóðaflugvöllum með tilliti til nálægðar við heilbrigðisstofnun eða sjúkrahús og er sú þjónusta sem heilbrigðisstofnun eða sjúkrahús þarf að geta veitt skilgreind í þeim reglum?
    Samgöngustofa gefur út rekstrarleyfi til reksturs alþjóðaflugvalla og hefur eftirlit með því að flugvellirnir uppfylli Evrópukröfur og kröfur og tilmæli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um öruggan rekstur flugvalla. Um þessi atriði gildir reglugerð framkvæmdastjórnar (ESB) nr. 139/2014 um kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugvelli samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008. Þá gilda jafnframt kröfur sem settar eru fram í viðaukum nr. 14 og 19 við stofnsamning Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.
    Í þessum reglum, kröfum og tilmælum er að finna kröfu um að í neyðaráætlun flugvalla sé samræming við næsta eða næstu sjúkrahús um að taka við sjúklingum eftir flugslys. Kröfurnar eiga einnig við um sjúkraflutninga, að á flugvelli eigi að vera hægt að veita fyrstu hjálp og að þar sé hægt að veita skjól eftir flugslys þar til hægt sé að flytja slasaða á sjúkrahús.
    Í viðauka 9 við stofnsamning Alþjóðaflugmálastofnunarinnar er að finna reglur um flugvirkt sem eru samræmdar aðgerðir opinberra aðila og annarra sem koma að afgreiðslu eða þjónustu við loftför, farþega, farangur og farm á flugvöllum til þess að einfalda formsatriði og greiða fyrir afgreiðslu þeirra. Er þar að finna sambærilegar reglur við þær sem að framan er lýst um að aðstöðu fyrir fyrstu hjálp sé að finna á alþjóðaflugvöllum og um áætlun um flutninga sjúklinga á sjúkrahús í alvarlegri tilvikum.
    Í gildandi neyðaráætlun Keflavíkurflugvallar kemur fram að markmið áætlana er að tryggja þolendum flugslyss nauðsynlega aðstoð á sem skemmstum tíma. Stjórnkerfi og verkefni viðbragðsaðila taka mið af þessu markmiði.
    Að öðru leyti koma ekki fram í reglum kröfur þau atriði sem spurt er um.

     2.      Uppfyllir Keflavíkurflugvöllur kröfur um nálægð alþjóðaflugvallar við heilbrigðisstofnun eða sjúkrahús?
    Sjá svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     3.      Hvernig er háttað eftirliti með því að starfsemi Keflavíkurflugvallar uppfylli öryggiskröfur samkvæmt íslenskri löggjöf og alþjóðlegum reglum sem gilda hér á landi?
    Líkt og fram er komið gefur Samgöngustofa út rekstrarleyfi til reksturs Keflavíkurflugvallar og hefur eftirlit með því að flugvöllurinn uppfylli Evrópukröfur sem og kröfur og tilmæli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um öruggan rekstur flugvalla. Þær reglur byggjast á flugöryggisgrunni, þ.e. hvernig og með hvaða hætti flugvöllur skuli rekinn þannig að lendingar og flugtök og starfsemi í tengslum við flugstarfsemina sem fer fram á flugvöllum sé örugg.