Ferill 607. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1120  —  607. mál.
Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Guðrúnu Ágústu Þórdísardóttur um fjölda öryrkja og endurmat örorku.


     1.      Hversu margir einstaklingar undir 18 ára aldri eru með ólæknandi sjúkdóm eða fötlun og hversu margir 18 ára og eldri?
    Sjúkdómsgreiningar viðskiptavina Tryggingastofnunar ríkisins vegna örorku og umönnunargreiðslna eru skráðar samkvæmt alþjóðlegu sjúkdómsflokkunarkerfi, ICD10. Ekki er skráð hverjir eru með ólæknandi sjúkdóm eða fötlun og því er ekki hægt að svara þessum lið fyrirspurnarinnar. Aftur á móti eru samtals 1.937 börn með alvarlega sjúkdóma og/eða fötlun samkvæmt sjúkdómsflokkum I, II og III við umönnunarmat skv. 4. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.

     2.      Hversu oft er framangreindum einstaklingum gert að fá endurmat örorku að meðaltali?
    Alls fá um 18.660 einstaklingar greiddan örorkulífeyri. Þessir einstaklingar eru ýmist metnir til tímabundinnar eða varanlegrar örorku. Um 43% örorkulífeyrisþega eru með varanlegt örorkumat og um 57% með tímabundið örorkumat. Algengast er að þeir sem fá metna tímabundna örorku þurfi að koma í endurmat fjórum sinnum.

     3.      Hversu mörgum einstaklingum er synjað árlega um endurmat þrátt fyrir að öll tilskilin gögn séu til staðar?
    Árið 2016 var 14 einstaklingum synjað um endurmat örorku en 128 einstaklingar óskuðu ekki endurmats. Árið 2015 var 48 einstaklingum synjað um örorkumat og 103 óskuðu ekki endurmats örorku.

     4.      Hversu margra vinnustunda að meðaltali krefst hefðbundið endurmat hjá Tryggingastofnun ríkisins?
    Vinna við endurmat örorku hefur ekki verið metin nákvæmlega af hálfu Tryggingastofnunar. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni koma margir starfsmenn að endurmati, m.a. þjónusturáðgjafar, tryggingafulltrúar og læknar.

     5.      Hvað er gert til þess að veita foreldrum barna sem eru með örorku fræðslu um hvað þurfi að gera við 18 ára aldur til að samfella sé í mati og að ekki verði röskun sem valdi tekjumissi?
    Foreldrum eða umráðamönnum barnanna eru send bréf um að umönnunarmat sé að renna út þegar barn nálgast 18 ára aldur. Öll bréf eru birt á Mínum síðum á vef Tryggingastofnunar sem er öruggt þjónustusvæði fyrir viðskiptavini stofnunarinnar, auk þess sem bréf eru send í pósti.
    Þegar ungmenni verður 18 ára er nýtt upphaf í lífi þess sem hafa verður til hliðsjónar í verkferlum hjá Tryggingastofnun. Einstaklingur verður lögráða við 18 ára aldur og þá getur hann sjálfur t.d. tekið ákvörðun um hvort hann sæki um örorku og ráði sér réttargæslumann. Óhjákvæmilegt er að taka mið af þessum tímamótum í lífi einstaklings í verkferlum Tryggingastofnunar, en reglulega er farið yfir alla verkferla þegar ungmenni verða 18 ára, m.a. í samstarfi við Landssamtökin Þroskahjálp. Nú er hafinn undirbúningur að yfirferð verkferla í samráði við Þroskahjálp og hugsanlega fleiri hagsmunaðila. Þess má einnig geta að Tryggingastofnun hefur haldið kynningar fyrir starfsmenn félagsþjónustu sveitarfélaga og Greiningarstöðvarinnar, auk fræðslu fyrir Þroskahjálp og Sjónarhól.

     6.      Hvaða ábyrgð hvílir á Tryggingastofnun ríkisins að láta einstaklinga vita ef gögn hafa ekki borist innan tilskilins tíma vegna endurmats?
    Tryggingastofnun hefur ríka leiðbeiningarskyldu gagnvart viðskiptavinum sínum skv. V. kafla laga um almannatryggingar, nr. 100/2007. Við endurmat á örorku er bréf sent til viðkomandi einstaklinga þremur mánuðum áður en örorkumat rennur út með upplýsingum um að örorkumatið sé að renna út og hvað þurfi að gera ef óskað er eftir nýju örorkumati. Upplýst er um að skila þurfi inn umsókn og nýju læknisvottorði. Hafi umsókn borist en ekki læknisvottorð, eða öfugt, lætur stofnunin vita af því. Jafnframt er þeim sem ekki hafa sótt um greiðslur í lífeyrissjóði bent á að gera það, sbr. 2. mgr. 52. gr. almannatryggingalaga. Öll bréf eru birt á Mínum síðum á vef stofnunarinnar, auk þess sem þau eru send í pósti. Nú er einnig hægt að senda tölvupóst og SMS-skilaboð til einstaklinga í sama tilgangi.