Ferill 588. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1121  —  588. mál.
Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Halldóru Mogensen um viðbótarkostnað vegna breytinga á almannatryggingum.


     1.      Hver yrði árlegur viðbótarkostnaður ríkissjóðs við almannatryggingakerfið ef uppbót á lífeyri vegna framfærslu skv. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð yrði felld inn í tekjutryggingu skv. 22. gr. laga um almannatryggingar þannig að hætt yrði að skerða uppbótina „krónu á móti krónu“ vegna annarra tekna lífeyrisþega? Óskað er eftir svari miðað við óbreytta tekjutryggingu.
    Fjárhæð uppbótar á lífeyri vegna framfærslu er mjög mismunandi eftir því hversu háa aldurstengda örorkuuppbót örorkulífeyrisþegar fá skv. 21. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007. Sú fjárhæð ræðst annars vegar af því hversu gamlir örorkulífeyrisþegar voru þegar þeir voru fyrst metnir til 75% örorku og hins vegar af því hvort þeir fá greidda heimilisuppbót skv. 8. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, eða ekki. Þannig getur fjárhæð sérstakrar uppbótar vegna framfærslu örorkulífeyrisþega verið á bilinu 4.953–58.986 kr. á mánuði eftir því hversu gamlir örorkulífeyrisþegar voru þegar þeir voru fyrst metnir til 75% örorku og hvort þeir fá greidda heimilisuppbót eða ekki. Því vaknar sú spurning hvaða fjárhæð eigi að bæta við tekjutryggingu samhliða því að leggja niður sérstaka uppbót til framfærslu. Ef viðbótin við tekjutrygginguna yrði lægri en 58.986 kr. á mánuði fengi hluti tekjulágra örorkulífeyrisþega lægri greiðslur eftir breytinguna, en ef viðbótin yrði 58.986 kr. á mánuði fengju allir aðrir en tekjulausir örorkulífeyrisþegar sem fá heimilisuppbót og voru fyrst metnir til örorku á aldrinum 60–66 ára hærri greiðslur eftir breytinguna.
    Ef miðað er við að viðbót við tekjutryggingu yrði 58.986 kr. á mánuði yrði hækkun tekjutryggingar 58.986 kr. hjá öllum örorkulífeyrisþegum sem nú hafa of háar tekjur til að fá greidda sérstaka uppbót vegna framfærslu. Hækkunin til þeirra sem nú fá greidda sérstaka uppbót vegna framfærslu yrði 58.596 kr. að frádreginni þeirri fjárhæð sem þeir fá nú greidda í sérstaka uppbót vegna framfærslu. Þeir sem fengju mesta hækkun í þeim hópi eru þeir sem eru tekjulausir, fá ekki greidda heimilisuppbót og voru fyrst metnir til örorku 24 ára eða yngri.
    Kostnaður við þessa breytingu er áætlaður 11.438 millj. kr. á ári.

     2.      Hver yrði viðbótarkostnaður ríkissjóðs við almannatryggingakerfið ef sett yrði í lög um félagslega aðstoð bráðabirgðaákvæði þess efnis að þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 9. gr. skuli frá 1. janúar 2017 teljast til tekna við útreikning sérstakrar framfærsluppbótar 60% allra tekna, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki eru taldar fram hér á landi?
    Kostnaður við þessa breytingu er áætlaður um 14.500 millj. kr. á ári ef ákvæðið næði bæði til bóta almannatrygginga og annarra tekna lífeyrisþega. Ef breytingin fælist aftur á móti í því að 100% bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar teldust til tekna við útreikning sérstakrar framfærsluuppbótar en 60% annarra tekna lífeyrisþega er kostnaðurinn áætlaður um 900 millj. kr. á ári.

     3.      Hver yrði áætlaður viðbótarkostnaður ríkissjóðs við almannatryggingar ef frá 1. janúar 2018 giltu sömu útreikningsreglur um sérstakra framfærsluuppbót og gilda um tekjutryggingu?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er fjárhæð uppbótar á lífeyri vegna framfærslu mjög mismunandi eftir aðstæðum lífeyrisþega.
    Ef miðað er við að í stað sérstakrar framfærsluuppbótar komi bótaflokkur sem verði óskertur 58.986 kr. á mánuði og verði með öll sömu frítekjumörk og sama skerðingarhlutfall og tekjutrygging er áætlaður viðbótarkostnaður 6.557 millj. kr. á ári.