Ferill 586. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1124  —  586. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Kolbeini Óttarssyni Proppé um lagningu háspennulínu á vatnsverndarsvæðum höfuðborgarsvæðisins.


     1.      Telur ráðherra, í ljósi þess að í Áhættumati vegna vatnsverndar fyrir Sandskeiðslínu 1 og tengivirki á Sandskeiði, sem verkfræðistofan EFLA gerði fyrir Landsnet og birt var í febrúarbyrjun 2017, er bent á hættu á mengun vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins meðan á framkvæmdum við Sandskeiðslínu 1 og tengivirki stendur, að færa skuli áformaða háspennulínu fjær vatnsbólunum?
    Í áhættumati verkfræðistofunnar EFLU vegna vatnsverndar fyrir Sandskeiðslínu 1 og tengivirki á Sandskeiði kemur fram að vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins við Fossvallaklif, Gvendarbrunna og Jaðar, Vatnsendakrika, Myllulæk, Mygludali og Kaldárbotna stafar mest hætta af olíumengun meðan á framkvæmdum stendur við línulögnina. Svæðið einkennist af lekum berggrunni og lítilli dýpt niður á grunnvatn þannig að olíumengun gæti borist til vatnstökusvæða á tiltölulega stuttum tíma. Slík mengun gæti orðið vegna óhappa, þ.e. ef tæki velta eða rekast á og búnaður gefur sig, eða vegna þess að olía seytlar úr tækjum. Í skýrslunni er lagt mat á áhættu út frá stærð óhappa og líkum á tilteknum óhöppum. Fram kemur að með fyrirbyggjandi aðgerðum og verklagi, sem lýst er í skýrslunni, megi draga svo úr líkum á mengunarslysum að hverfandi líkur séu á mengunarslysi vegna framkvæmdanna. Í ljósi þessa mætti ráðast í gerð Sandskeiðslínu 1 og tengivirki á Sandskeiði, að því gefnu að gripið sé til viðeigandi fyrirbyggjandi aðgerða og verklags.

     2.      Hvernig telur ráðherra að haga beri eftirliti með framkvæmdum, skilyrðum um magn og meðferð mengandi efna á vatnsverndarsvæðunum og öðrum mengunarvarnarráðstöfunum ef af lagningu Sandskeiðslínu 1 verður um þær slóðir sem nú er gert ráð fyrir?
    Hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd, sem í þessu tilviki er heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, hefur samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og reglugerðum settum samkvæmt þeim eftirlit með umræddri starfsemi og gefur út starfsleyfi fyrir starfsemina. Í starfsleyfi er m.a. kveðið á um mengunarvarnir vegna olíunotkunar, innra eftirlit, áhættumat og að starfsleyfishafi beri ábyrgð á því að framkvæmdin stofni ekki öryggi vatnsverndar á svæðinu í hættu. Eftirlitið felst m.a. í reglubundinni skoðun á vettvangi, yfirferð gagna, úttektum á verkáætlunum, samskiptum og viðræðum við fulltrúa starfsleyfishafa. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerðar nr. 786/1999, um mengunarvarnaeftirlit, og heilbrigðissamþykktar nr. 555/2015, um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnaumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar, Seltjarnarnesbæjar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar og Hafnarfjarðarkaupstaðar.
    Framkvæmdirnar sem hér um ræðir eru háðar leyfi viðkomandi sveitarfélaga. Um eftirlit með þeim hluta framkvæmdarinnar sem háður er framkvæmdaleyfi fer samkvæmt skipulagslögum, nr. 123/2010, og reglugerð um framkvæmdaleyfi, nr. 772/2012, og er það skipulagsfulltrúi þess sveitarfélags sem veitir framkvæmdaleyfið sem hefur í umboði sveitarstjórnar eftirlit með framkvæmdinni og að hún sé í samræmi við útgefið leyfi. Um eftirlit með þeim hluta framkvæmdarinnar sem háður er byggingarleyfi fer samkvæmt lögum um mannvirki, nr. 160/2010, og byggingarreglugerð, nr. 112/2012, og er það byggingarfulltrúi þess sveitarfélags sem veitir byggingarleyfið sem hefur eftirlit með framkvæmdinni.
    Ráðherra telur rétt að verði farið í framkvæmdir verði eftirlitinu hagað í samræmi við það sem sett er fram í starfsleyfi fyrir Landsnet hf. um byggingu háspennulínu, 220/400 kV – Lyklafellslínu 1, sem gefið var út 9. júní 2017, eða nýju sambærilegu starfsleyfi gerist þess þörf.

     3.      Telur ráðherra, í ljósi Hæstaréttardóms í máli nr. 575/2016, þar sem fellt var úr gildi framkvæmdaleyfi og umhverfismat vegna Suðurnesjalínu 2, sem einnig tók til Sandskeiðslínu 1, að gera þurfi nýtt umhverfismat vegna Sandskeiðslínu 1?
    Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 575/2016 var það eingöngu ákvörðun sveitarfélagsins Voga um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 sem felld var úr gildi. Umhverfismat Suðvesturlína var hins vegar ekki fellt úr gildi, en Suðurnesjalína 2 og Sandskeiðslína 1 falla báðar undir það mat samkvæmt áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá 17. september 2009 (þ.e. línuleiðirnar töldust hluti af sömu framkvæmd sem tekin var til umhverfismats). Hins vegar er ljóst að framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins Voga vegna Suðurnesjalínu 2 var fellt úr gildi vegna þess að umhverfisáhrifum jarðstrengs, í samanburði við aðra framkvæmdarkosti, hefði ekki verið lýst á fullnægjandi hátt á þeirri línuleið. Ráðherra fagnar þeirri niðurstöðu Hæstaréttar að ógilda framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins Voga fyrir Suðurnesjalínu 2 í ljósi þess að jarðstrengjaleiðin var ekki skoðuð nægilega vel á því svæði enda telur ráðherra mikilvægt að horfa eigi til lagningar jarðstrengja frekar en loftlína þar sem því er við komið.
    Hins vegar er ólíku saman að jafna þegar horft er til Sandskeiðslínu 1. Í skýrslu EFLU Áhættumati vegna vatnsverndar fyrir Sandskeiðslínu 1 og tengivirki á Sandskeiði er bent á að meiri áhætta sé að leggja jarðstrengi en loftlínur þegar um vatnsverndarsvæði er að ræða líkt og á við um Sandskeiðslínu 1.