Ferill 550. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1129  —  550. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Iðunni Garðarsdóttur um rannsóknir á vændiskaupum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvert er viðhorf ráðherra til þess að dregið hefur úr rannsóknum lögreglu á vændiskaupum undanfarin ár vegna skorts á fé og mannafla?
     2.      Hyggst ráðherra tryggja með auknum fjárframlögum að lögregla geti sinnt rannsóknum á vændiskaupum í samræmi við 1. og 2. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940?

    Aukið fé var veitt til löggæslu í fjárlögum fyrir árið 2017 og eins og fram kemur í fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 er stefnt að því að tryggja enn meira fé til löggæslumála. Fjárheimildir lögregluembætta hækkuðu einnig sem nemur 4,7 milljörðum kr. á árabilinu 2014–2017, eða um 34%. Verulegur hluti uppsafnaðs rekstrarhalla embættanna var einnig felldur niður. Þá hafa verið gerðar umfangsmiklar umbætur á rekstrargrundvelli lögregluembætta með skipulagsbreytingum til að styrkja rekstrarumgjörð lögreglunnar með stærri einingum og ná þannig meiri sveigjanleika í rekstri og starfsemi.
    Ráðherra eftirlætur lögreglunni að forgangsraða rannsóknastarfsemi sinni með tilliti til fjármuna, mannafla og þarfa samfélagsins hverju sinni. Ekki er unnt að fullyrða eins og fram kemur í fyrirspurn, þar sem fullnægjandi tölfræði liggur ekki fyrir, að umfang rannsókna á vændiskaupum hafi dregist saman eða ráðist eingöngu af fjárveitingum eða mannafla. Hins vegar er ljóst að hvort tveggja, auk fullnægjandi tölfræði, er mjög mikilvægt til þess að sinna rannsóknastarfsemi á öllum sviðum, en það er í höndum lögreglunnar að forgangsraða hverju sinni.