Ferill 555. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1132  —  555. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ástu Guðrúnu Helgadóttur um móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.


    Við vinnslu svarsins var óskað eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun.

     1.      Hvar eru áætlanir á vegi staddar um að setja á fót móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, sbr. 27. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016?
    Með nýrri reglugerð um útlendinga, nr. 540/2017, sem tók gildi 19. júní sl. var Útlendingastofnun falið skv. 24. gr. að starfrækja miðstöð sem skal vera fyrsta greiningar- og móttökuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í júní auglýsti Útlendingastofnun laust til umsóknar starf sviðsstjóra móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd.
    Útlendingastofnun er samkvæmt reglugerðinni einnig heimilt að gera þjónustusamninga við sveitarfélög eða aðra aðila, m.a. um rekstur þessa úrræðis. Fyrsta móttaka umsækjenda um alþjóðlega vernd fer nú fram hjá Útlendingastofnun í Bæjarhrauni 4 og 16–18 í Hafnarfirði.
    Dómsmálaráðuneytið og Útlendingastofnun hafa í samstarfi við fleiri aðila unnið að greiningu vegna búsetuúrræða fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þá fer einnig fram þarfagreining á stærð móttökumiðstöðvar og hvaða þjónustu skuli veita þar ásamt áætlun um fjármögnun. Þeirri vinnu er ekki lokið.

     2.      Hversu marga þjónustusamninga hefur ráðuneytið gert vegna móttökumiðstöðva fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og við hverja?
    Dómsmálaráðuneytið hefur ekki gert þjónustusamninga vegna móttökumiðstöðva fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Útlendingastofnun hefur gert þjónustusamninga við Hafnarfjarðarkaupstað, Reykjanesbæ og Reykjavíkurborg á grundvelli samþykkis dómsmálaráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis um umönnun allt að 285 umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þessir samningar eru þó ekki hluti af rekstri móttökumiðstöðvar. Þá hefur Útlendingastofnun samið um leigu á húsnæði auk ýmissa þjónustusamninga, svo sem vegna mötuneyta, þrifa og öryggisgæslu.
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. hefur Útlendingastofnun verið falið með reglugerð að starfrækja móttökumiðstöð og er stofnuninni heimilt samkvæmt sama ákvæði að gera þjónustusamninga við sveitarfélög eða aðra aðila, m.a. um rekstur þess úrræðis.