Ferill 565. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1135  —  565. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni og Birni Leví Gunnarssyni um tekjur og gjöld ráðuneytisins og undirstofnana þess.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hverjar eru tekjur og gjöld ráðuneytisins og þeirra stofnana sem heyra undir málefnasvið ráðherra og hver er áætluð þróun útgjalda samkvæmt fjármálaáætlun 2018–2022? Óskað er eftir sundurliðun eftir málefnasviðum og hagrænni flokkun, sundurliðað í launakostnað og rekstrarkostnað, skipt eftir lögbundnum verkefnum, þ.m.t. tímabundnum verkefnum, yfirstandandi og fyrirhuguðum, og öðrum kostnaðarliðum.

    Með nýlegum lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, markaði Alþingi breytt verklag við stefnumörkun og áætlanagerð um opinber fjármál og beitingu fjárstjórnarvaldsins í því skyni. Í stuttu máli má segja að í því felist að ákvarðanir fjárveitingarvaldsins séu ræddar og teknar í þremur áföngum:
    Í fyrsta áfanganum, í hvert sinn þegar ný ríkisstjórn hefur verið mynduð, er lögð fram fjármálastefna til næstu fimm ára þar sem sett eru fram markmið um afkomu og skuldastöðu hins opinbera og dregnar meginlínur um þróun opinberra fjármála og hagstjórnarleg áhrif þeirra. Í 4. gr. laganna er m.a. tiltekið að markmiðin skulu sett fram sem hlutföll af landsframleiðslu.
    Í öðrum áfanganum er í kjölfar stefnunnar lögð fram fimm ára fjármálaáætlun, sem er endurskoðuð á hverju vori, en þar er fjallað í stórum dráttum um frekari útfærslu á markmiðum fjármálastefnunnar, einkum stefnumörkun um þróun tekna, útgjalda og efnahags hins opinbera. Í 5. gr. laganna er m.a. kveðið á um að í fjármálaáætluninni skuli sett fram áform um þróun skatta og aðra tekjuöflun ríkissjóðs og þróun gjalda, sundurliðað eftir málefnasviðum og hagrænni flokkun og er því ekki gert ráð fyrir frekari sundurgreiningu útgjaldanna í áætluninni samkvæmt lögunum. Í skýringum við það ákvæði segir: „Um er að ræða eitt af lykilatriðum fjármálaáætlunar. Með þessum markmiðum ákveður Alþingi helstu áherslur í ríkisfjármálum, bæði fyrir frumvarp til fjárlaga að hausti og til lengri tíma. Í markmiðum um þróun gjalda birtist forgangsröðun og áherslur eftir málefnasviðum fyrir komandi ár. Þannig ákvarðar Alþingi fjárhagsramma fyrir einstök málefnasvið, sem er svo nánar útfærður fyrir einstaka málaflokka í frumvarpi til fjárlaga“.
    Þriðji áfanginn í umfjöllun og ákvarðanatöku fjárveitingarvaldsins felst síðan í setningu fjárlaga til eins árs í senn þar sem sett er fram nánari sundurliðun á tekjuáætlun fjárlagaársins og skipting fjárheimilda málefnasviða niður á málaflokka og ráðuneyti. Samhliða fjárlagafrumvarpi er lagt fram sérstakt fylgirit þar sem fram kemur áformuð skipting fjárheimilda á einstaka ríkisaðila eða aðra rekstraraðila sem fjármagnaðir eru úr ríkissjóði og á öðrum verkefnum á borð við bótakerfi og framkvæmdir, bæði fyrir komandi fjárlagaár og næstu tvö ár þar á eftir. Þegar fjárlög hafa verið samþykkt er fylgiritið uppfært með tilliti til breytinga sem þingið gerði á fjárlagafrumvarpinu.
    Lög um opinber fjármál setja þannig verklag fyrir framvindu fjármálastjórnar hins opinbera sem hefst á hinu almenna og horfir til lengri tíma og endar á hinu sértæka til skemmri tíma litið. Fyrirliggjandi fjármálaáætlun er sett fram í samræmi við þetta verklag sbr. fyrrnefnda 5. gr. laganna. Umbeðnar upplýsingar samkvæmt fyrirspurninni fela í sér frekari útfærslu á fjárreiðum ráðuneyta, ríkisaðila og verkefna sem fer fram á grundvelli fjármálaáætlunarinnar og mun koma fram í fjárlagafrumvarpi og fylgiriti í september nk. sbr. 5. og 16. gr. laganna. Þó er rétt að benda á að ákvæði laganna um framsetningu fjárlaga kveða ekki á um skiptingu útgjalda eftir því hvort um er að ræða lögbundin verkefni né hvort þau eru tímabundin eins og óskað er eftir í fyrirspurninni. Engu að síður má alla jafna gera ráð fyrir að í umfjöllun um áætlanir í greinargerð með frumvarpinu komi fram viðeigandi fjárhæðir og skýringar um helstu mál af þeim toga.
    Loks er ástæða til að nefna að við umfjöllun um næstu fjármálaáætlun á komandi ári mun liggja fyrir fylgirit með nákvæmri sundurgreiningu útgjalda einstakra rekstraraðila og verkefna fyrir yfirstandandi ár og næstu tvö árin þar á eftir. Þótt ávallt verði einhverjar breytingar á slíkum áætlunum ættu þingmenn við þá umfjöllun að geta haft hliðsjón af þeirri sundurgreiningu á útgjöldum til að leita svara við því sem hér hefur verið spurt um.