Ferill 546. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1136  —  546. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Guðjóni S. Brjánssyni um liðskiptaaðgerðir erlendis.


     1.      Hver er heildarupphæðin sem Sjúkratryggingar Íslands greiddu fyrir þá fimm einstaklinga sem fóru í liðskiptaaðgerðir til Svíþjóðar á vegum Klíníkurinnar og fjölmiðlar hafa fjallað um? Svar óskast sundurliðað eftir kostnaðarliðum og með vísan í viðeigandi reglugerðarákvæði.
    Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands var heildarmeðferðarkostnaður vegna liðskiptaaðgerða hjá umræddum fimm einstaklingum um 6.500.000 kr. Samþykkt var fylgd með öllum fimm einstaklingunum en einungis fjórir fylgdarmenn fóru. Heildarferðakostnaður sjúklinga og fylgdarmanna, alls níu einstaklinga, var 1.161.585 kr. Sjúkratryggingum Íslands hafa hvorki borist umsóknir vegna uppihaldskostnaðar sjúklinganna fimm né fylgdarmannanna fjögurra.
    Um var að ræða liðskiptaaðgerð á mjöðm hjá þremur einstaklinganna og var meðferðarkostnaður þeirra 4.100.000 kr. Tveir fóru í liðskiptaaðgerð á hné og var meðferðarkostnaður þeirra 2.350.000 kr.
    Umsóknirnar voru allar samþykktar á grundvelli 1. og 2. mgr. 20. gr. reglugerðar EB nr. 883/2004, sbr. reglugerð nr. 442/2012, um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi:
„20. gr. Ferðalög í þeim tilgangi að fá aðstoð – heimild fyrir viðeigandi læknismeðferð utan búsetuaðildarríkis
    1.     Nema annað sé tekið fram í þessari reglugerð skal tryggður einstaklingur, sem ferðast til annars aðildarríkis í þeim tilgangi að fá aðstoð á meðan á dvölinni stendur, óska heimildar hjá þar til bærri stofnun.
    2.     Tryggður einstaklingur, sem fær heimild hjá þar til bærri stofnun til að fara til annars aðildarríkis í þeim tilgangi að fá þar viðeigandi læknismeðferð, skal fá þá aðstoð, sem er látin í té fyrir hönd þar til bærrar stofnunar, hjá stofnun á dvalarstað í samræmi við ákvæði þeirrar löggjafar sem hún starfar eftir, eins og hann væri tryggður samkvæmt þeirri löggjöf. Heimildin skal veitt ef umrædd meðferð er hluti af þeirri aðstoð sem kveðið er á um í löggjöf aðildarríkisins þar sem viðkomandi er búsettur og hann á ekki kost á slíkri meðferð innan tímamarka sem má réttlæta læknisfræðilega ef mið er tekið af núverandi heilsufarsástandi hans og líklegri framvindu sjúkdómsins.“

     2.      Hvernig fer kostnaðargreining á slíkum aðgerðum fram?
    Sjúkratryggingar Íslands óska eftir kostnaðaráætlun frá fyrirhuguðum veitanda þjónustunnar og er hún síðan borin saman við útgefna reikninga. Sjúkratryggingar Íslands hafa þó ekki heimild til að synja um greiðslu reikninga séu þeir hærri en kostnaðaráætlun, sbr. reglugerðarákvæðið hér að framan. Sjúkratryggingum Íslands er skylt að greiða eins og meðferðin kostar fyrir sjúkratryggðan einstakling í meðferðarlandi.

     3.      Hefur ráðherra áform um að vinna enn frekar að styttingu biðtíma eftir liðskiptaaðgerðum og ef svo er, hvernig eru þau áform?
    Síðan biðlistaátakið hófst árið 2016 hefur á þróunin á heildina litið verið jákvæð. Þeir biðlistar sem hafa verið lengstir, þ.e. biðlistar eftir skurðaðgerðum á augasteinum og liðskiptaaðgerðum á mjöðmum og hnjám, hafa styst. Því er ljóst að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hafa skilað árangri. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir tæplega 5 milljarða kr. framlögum til að stytta biðlista eftir tilteknum aðgerðum á árunum 2017–2022.