Ferill 626. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 1142  —  626. mál.
Leiðréttur texti.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur um blandaðar bardagaíþróttir.


     1.      Hyggst ráðherra leyfisskylda blandaðar bardagaíþróttir með eftirliti opinberra aðila?
    Í fyrirspurn er spurt hvort ráðherra hyggist koma á leyfisveitingum fyrir blandaðar bardagaíþróttir. Í upphafi ber að geta þess að slíkar íþróttir ganga ýmist undir yfirheitinu blandaðar bardagaíþróttir eða bardagalistir. Þá er rétt að geta þess að útgáfa starfsleyfa fyrir íþróttamannvirki eða líkamsræktarstöðvar er í höndum heilbrigðisnefnda sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar í samræmi við lög um hollustu og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Umhverfisstofnun gefur út samræmd starfsleyfisskilyrði sem eru lögð til grundvallar starfsleyfum sem heilbrigðisnefndir gefa út. Að öðru leyti er starfsemin ekki háð eftirliti opinberra aðila. Ráðuneytið hlutast þannig ekki til um starfsemi félaga um blandaðar bardagalistir. Félög um blandaðar bardagalistir hafa ekki sóst eftir viðurkenningu íþróttarinnar á vettvangi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem er æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu samkvæmt íþróttalögum og fer með erlend samskipti íþróttahreyfingarinnar. Þá er ekki kunnugt um að blandaðar bardagalistir hafi hlotið viðurkenningu sem íþróttagrein á vettvangi íþrótta- og Ólympíusambanda nágrannalandanna. Ef félag um blandaðar bardagalistir sækir um viðurkenningu frá Íþrótta- og Ólympíusambandinu kemur ráðuneytið ekki að því ferli. Ráðuneytið hefur ekki áform um frekari leyfisskyldu fyrir iðkun íþróttagreina en hér hefur verið gerð grein fyrir.

     2.      Hefur einhver vinna farið fram á vegum ráðuneytisins til að leggja mat á framkvæmd og áhrif þess að leyfisskylda blandaðar bardagaíþróttir? Hefur verið lagt mat á hvaða kröfur um öryggi og eftirlit sé mikilvægt að setja?
    Í ljósi þess sem fram kemur í svari við fyrri lið fyrirspurnar háttvirts alþingismanns skal áréttað að ráðuneytið kemur ekki að leyfisveitingum vegna starfrækslu íþróttamannvirkja eða iðkunar einstakra íþróttagreina. Einnig skal nefnt að sérfræðingahópur á vegum Evrópuráðsins vinnur að nánari greiningu á blönduðum bardagalistum og endurskoðun á alþjóðlegum tilmælum Evrópuráðsins (Rec. no. R (99) 11) sem fjallar um bann við bardagakeppnum með frjálsri aðferð og sérstaklega bardögum í lokuðum búrum.