Ferill 621. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1145  —  621. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur um dvöl á geðdeild og bið eftir búsetuúrræðum.


     1.      Hver er meðalbiðtími þeirra sem dvelja á geðsviði Landspítalans og bíða búsetuúrræða? Í hvaða sveitarfélagi eiga viðkomandi einstaklingar lögheimili?
    Ekki eru til upplýsingar um hversu lengi allir einstaklingar sem dvelja á geðsviði Landspítala bíða eftir búsetuúrræði. Einungis eru til upplýsingar um þá sem hafa lokið meðferð en geta ekki útskrifast sökum húsnæðisleysis og eru að bíða eftir búsetuúrræði. Þessi listi er tekinn saman mánaðarlega út frá þeim gögnum sem berast frá starfsfólki geðdeilda.
    Á geðsviði Landspítalans var staðan sú í byrjun ágúst 2017 að sex innlagðir sjúklingar biðu eftir búsetuúrræði í Reykjavík, tveir þeirra höfðu beðið lengur en í sex mánuði, tveir höfðu beðið í 3–6 mánuði og tveir í minna en þrjá mánuði.
    Til samanburðar má nefna að 31. janúar 2017 biðu átta sjúklingar geðsviðs Landspítala eftir búsetuúrræði í Reykjavík. Þar af höfðu fimm sjúklingar beðið lengur en í sex mánuði, tveir í 3–6 mánuði og einn í minna en þrjá mánuði.

     2.      Hver er lengsta samfellda dvöl einstaklings sem nú dvelur á geðsviði og bíður búsetuúrræðis?
    Lengsta samfellda dvöl einstaklings sem nú dvelur á geðsviði Landspítala og bíður búsetuúrræðis er tæplega tvö og hálft ár. Viðkomandi hefur beðið eftir viðeigandi búsetuúrræði frá því í maí 2017. Einn sjúklingur hefur legið á réttargeðdeild frá því í lok árs 2009 og beðið eftir viðeigandi búsetuúrræði í fimm ár.

     3.      Er einhver vinna í gangi milli ríkis og sveitarfélaga til að leysa úr þeim vanda sem skapast þegar einstaklingar hafa lokið meðferð á geðsviði en dvelja þar lengur vegna skorts á búsetuúrræðum?
    Talsverður skortur hefur verið á sértækum búsetuúrræðum innan sveitarfélaganna og hefur það komið í veg fyrir að hægt sé að útskrifa sjúklinga að meðferð lokinni. Sú staða er afar flókin og getur haft þau áhrif að lífsgæði skerðast og í verstu tilfellunum getur endurhæfing og þar með bati einstaklings gengið til baka. Góð samvinna hefur verið á milli geðsviðs Landspítala og velferðarsviðs Reykjavíkur þegar kemur að því að leysa búsetuvanda sjúklinga geðsviðs. Fulltrúar hittast reglulega og fara yfir stöðu mála og sérhæfður starfsmaður geðdeilda situr fundi úthlutunarnefndar fyrir sértæk búsetuúrræði á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

     4.      Sér ráðherra fyrir sér að leysast muni úr búsetuvanda þessara einstaklinga á næstu mánuðum?
    Búsetuúrræði fyrir einstaklinga sem ekki geta sjálfir útvegað sér þak yfir höfuðið eða þurfa á sértækum úrræðum að halda eru á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992. Upplýsingar liggja fyrir um að sveitarfélög eru að vinna að því að fjölga íbúðum fyrir tekju- og eignalítið fólk og fyrir fólk í þörf fyrir sértækt húsnæði. Vonir standa til þess að búsetuvandi einstaklinga sem hafa lokið meðferð á geðsviði Landspítala muni leysast á næstunni í ljósi þeirrar vinnu sem nú á sér stað hjá sveitarfélögum og þess góða samstarfs sem er á milli geðsviðs Landspítala og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.