Ferill 551. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1149  —  551. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Inga Jóhannssyni um eignasafn Seðlabanka Íslands.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margar eignir/kröfur hefur Seðlabanki Íslands selt, beint eða í gegnum dótturfélög, svo sem ESÍ, frá því að honum var falin umsjón þeirra eftir bankahrunið árið 2008, hvert var söluandvirðið í heild og sundurliðað eftir árum, hverjir keyptu og á hvaða kjörum, sundurliðað ár fyrir ár?
     2.      Í hvaða tilvikum var lánað fyrir kaupunum, við hversu hátt lánshlutfall var miðað, hvaða skilyrði voru sett um tryggingar fyrir greiðslu kaupverðs, hver var stefnan um vaxtakjör, var í einhverjum tilvikum vikið frá henni og ef svo er, hvers vegna?
     3.      Hefur Seðlabankinn, beint eða í gegnum dótturfélög, keypt eignir/kröfur eða fengið framseldar með öðrum hætti, svo sem í skiptum fyrir aðrar eignir/kröfur, frá bankahruni, hvaða eignir/kröfur voru það, sundurliðað ár fyrir ár, voru þær skráðar á markaði, hvaða ástæður voru fyrir kaupunum og á hvaða lagaheimild byggði Seðlabankinn eða dótturfélög kaupin?
     4.      Hafa eignir/kröfur verið seldar aftur og ef svo er, hver er munurinn á kaup- og söluverði, hverjir voru kaupendur og seljendur í þeim viðskiptum og hefur Seðlabankinn eða dótturfélög fengið framseldar til sín eignir sem rýrnað hafa í verði eða jafnvel tapast frá því að þeirra var aflað?
     5.      Fyrir hvaða sérfræðiþjónustu, hverjum og hve mikið, hefur Seðlabanki Íslands, beint eða í gegnum dótturfélög, greitt vegna sölu á eignum/kröfum frá og með árinu 2013 til dagsins í dag, var þjónustan auglýst og/eða boðin út, hvernig var staðið að ráðningu á þjónustuaðilum, hver voru sjónarmið til grundvallar ráðningum og hvernig skiptust greiðslur milli aðila?
     6.      Var sala á eignarhlutum/kröfum Seðlabanka Íslands eða dótturfélaga bankans ávallt auglýst, hvernig var staðið að útboði/sölu í þeim tilvikum, við hvaða reglur var miðað, voru viðmiðin sambærileg í öllum tilvikum og ef ekki, hvers vegna?
    Svör óskast sundurliðuð milli Seðlabanka Íslands og dótturfélaga eftir því sem við á.


    Óskað var eftir svari við fyrirspurninni frá Seðlabanka Íslands. Fyrst er fjallað almennt um stofnun ESÍ og tilurð eigna félagsins, en við stofnun þess voru allar eignir sem Seðlabanki Íslands eignaðist við bankahrunið færðar á efnahagsreikning þess. Þá verður fjallað um lögbundið eftirlitshlutverk bankaráðs Seðlabanka Íslands og þagnarskyldu. Að lokum verður hverjum þeirra sex töluliða sem koma fram í fyrirspurninni svarað innan þess ramma sem er heimilt.

I. Almennt um Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf.
Stofnun ESÍ.
    Í kjölfar bankahrunsins á Íslandi haustið 2008 varð Seðlabanki Íslands stór kröfuhafi gagnvart innlendum fjármálafyrirtækjum vegna krafna sem tryggðar voru með veðum af ýmsum toga. Seðlabanka Íslands ber skylda til, líkt og öðrum kröfuhöfum, að vinna úr og fullnusta kröfur sínar með það að leiðarljósi að hámarka endurheimtur og honum ber eins og öðrum opinberum aðilum að sýna ráðdeild við meðferð eigna sinna.
    Bankahrunið hafði í för með sér gríðarlegt tjón fyrir Seðlabanka Íslands vegna veða fyrir lánum sem metin voru traust þegar lánin voru veitt. Setning laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008, hinna svokölluðu neyðarlaga, setti einnig verulegt strik í reikninginn þar sem með þeim voru kröfur vegna innstæðna gerðar að forgangskröfum með þeim afleiðingum að minna varð þá til skipta fyrir almenna kröfuhafa.
    Til að tryggja bankanum viðunandi eiginfjárstöðu var gripið til þess ráðs að ríkissjóður leysti til sín, um áramótin 2008–2009, kröfur vegna veðlána og daglána sem tryggðar voru með verðbréfum útgefnum af Landsbanka Íslands hf., Kaupþingi banka hf. og Glitni banka hf., og veðtryggðum verðbréfum og kröfuréttindum sem fjármálafyrirtækin Askar Capital hf., Saga Capital hf., Straumur–Burðarás fjárfestingabanki hf. og VBS fjárfestingarbanki hf. höfðu sett Seðlabanka Íslands að veði. Samkomulag Seðlabanka Íslands og ríkissjóðs er dagsett 12. janúar 2009 en yfirtökudagur miðaðist við 31. desember 2008. Fjármálaráðuneytið veitti síðan bankanum umboð með bréfi, dags. 29. janúar 2009, til að annast umsýslu og veita ríkissjóði ráðgjöf um meðferð þessara krafna sem og krafna ríkissjóðs vegna verðbréfalánaviðskipta Lánasýslu ríkisins við fjármálafyrirtæki.
    Í árslok 2009 var umsýsla og úrvinnsla krafna og fullnustueigna orðið afar umfangsmikið verkefni í starfsemi Seðlabanka Íslands sem féll illa að þáverandi skipulagi og starfi bankans. Þá var talið mikilvægt að aðgreina eignir sem tilkomnar voru vegna bankahrunsins í sérstökum efnahagsreikningi. Brýnt var að fundið yrði viðunandi framtíðarskipulag á úrvinnslu og stýringu þessara eigna og þar með komið á nauðsynlegri aðgreiningu milli verkefna bankans sem kröfuhafa í þrotabú hinna föllnu fjármálafyrirtækja annars vegar og svo hefðbundinna verkefna bankans hins vegar. Með þetta í huga var ákveðið að stofna sérstakt eignarhaldsfélag, þ.e. ESÍ, utan um kröfur, veð og fullnustueignir Seðlabanka Íslands og annað félag, Sölvhól ehf., sem einungis hefði það hlutverk að vinna úr eignunum með það að markmiði að hámarka virði þeirra og koma þeim í verð þegar markaðsaðstæður leyfðu með samþykki stjórnar ESÍ.
    Í febrúar 2010 var samkomulagið frá 12. janúar 2009 tekið upp með þeim hætti að eignir, sem ríkissjóður hafði leyst til sín áramótin 2008–2009 voru framseldar bankanum að nýju. Jafnframt var undirritað samkomulag um kaup bankans af ríkissjóði á kröfum á fjármálafyrirtæki sem tekin höfðu verið til slitameðferðar, vegna verðbréfalánaviðskipta þeirra við Lánasýslu ríkisins.
    Í upphafi árs 2013 var rekstur Sölvhóls ehf. sameinaður ESÍ og félagið lagt niður í kjölfarið. Með því að færa umsýslu krafna og fullnustueigna í sérstakt félag skapaðist ákveðin fjarlægð frá hefðbundinni starfsemi Seðlabanka Íslands og þar með var dregið úr hættu á að þessi viðfangsefni rækjust á önnur verkefni bankans auk þess sem svigrúm fékkst til að auka verðgildi eignanna. Öllum eignum Seðlabanka Íslands sem rekja má til bankahrunsins var komið fyrir á efnahagsreikningi ESÍ. Örfáar eignir hafa síðan verið færðar aftur til bankans. Í lok árs 2013 var skuldabréf, útgefið af Arion banka hf., fært til bankans og í september 2016 voru m.a. skuldabréf og hlutabréf sem Kaupþing ehf., Glitnir HoldCo ehf. og LBI ehf. höfðu gefið út í sambandi við nauðasamninga sína færð til bankans. Þessar eignatilfærslur voru hluti af skuldauppgjöri ESÍ gagnvart Seðlabanka Íslands og féllu undir gjaldeyriseignir utan forða á efnahagsreikningi. Skuldabréfið sem útgefið var af Arion banka hf. var greitt með erlendum gjaldeyri og var það hluti af stöðugleikaskilyrðum og rann inn í forðann. Hlutur Seðlabanka Íslands í Kaupþingi ehf., Glitni HoldCo ehf. og LBI ehf. var seldur á haustmánuðum 2016 fyrir erlendan gjaldeyri sem einnig rann í forðann.
    Heimild fyrir stofnun félagsins er í 1. mgr. 17. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, varðandi banka- og verðbréfaviðskipti sem eru af öðrum toga en hefðbundin viðskipti bankans, og sem samrýmast hlutverki hans. Frá upphafi var ljóst að starfsemi félagsins væri ekki til frambúðar heldur væri um að ræða sérstakt tímabundið skipulag vegna utanumhalds, úrvinnslu og stýringar á þeim eignum sem Seðlabanki Íslands sat uppi með í kjölfar bankahrunsins. Þegar kröfur hafa verið innheimtar og eignir seldar, og þegar félagið hefur lokið hlutverki sínu, verður því slitið og hagnaður eða tap af starfsemi þess rennur til Seðlabanka Íslands. Þess ber að geta að svipað fyrirkomulag hefur tíðkast hjá öðrum þjóðum við sams konar aðstæður og má þar t.d. nefna Securum í Svíþjóð, NAMA á Írlandi og Resolution Trust og Maiden Lane í Bandaríkjunum.

Dótturfélögin Hilda ehf. og SPB ehf.
    Saga Capital hf. stofnaði félagið Hildu ehf. á árinu 2009 vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar. Við endurskipulagninguna voru eignir færðar frá Saga Capital til Hildu ásamt kröfum ríkissjóðs á hendur Saga Capital sem voru tilkomnar vegna veðlána Seðlabanka Íslands og verðbréfalána Lánasýslu ríkisins til Saga Capital. ESÍ eignaðist þessar kröfur í upphafi árs 2010.
    Á miðju ári 2011 var ljóst að eignir Hildu dygðu ekki fyrir skuldum við ESÍ og var allt hlutafé Hildu fært niður að fullu og aukið aftur með þeim hætti að ESÍ breytti hluta af skuldum Hildu í hlutafé og tók félagið yfir. Við fall SPRON voru allar eignir þess færðar yfir í Dróma hf., þ.m.t. lánasafn sem sett hafði verið Seðlabanka Íslands að veði.
    Í lok árs 2011 samþykkti slitastjórn SPRON uppgjör og fullnustu á veðkröfu ESÍ (sem síðar var framseld til Hildu). Þar með varð Hilda eigandi að kröfum á einstaklinga og lögaðila. Undir lok árs 2013 var tilkynnt að samningar hefðu náðst á milli ESÍ/Hildu, Dróma og Arion banka hf. um yfirtöku ESÍ/Hildu á ákveðnum eignum og skuldum Dróma og uppgjöri á kröfu Arion banka á Dróma, m.a. með einstaklingslánum Dróma og Hildu. Hilda eignaðist fyrirtækjalán og fullnustueignir Dróma en einstaklingslán félagsins urðu eign Arion banka. Í þessum samningum fólst m.a. að ekki reyndi á ábyrgð ríkissjóðs auk þess sem samningarnir flýttu fyrir lokum á slitameðferð SPRON, sbr. umfjöllun í meðfylgjandi fréttatilkynningu.
    SPB ehf., áður Sparisjóðabankinn hf., lauk slitaferli sínu með nauðasamningum og var búið afhent til kröfuhafa þess í júní 2016. ESÍ var stærsti kröfuhafi félagsins og er nú eini hluthafi þess. Í félaginu eru aðallega kröfur á lögaðila, auk landspilda.

Slitaferli.
    Slitaferli Hildu og SPB hófst í maí 2017 með innköllun krafna en kröfulýsingarfresti, sem var tveir mánuðir, lauk í júlí sl. Stefnt er að því að ljúka slitum félaganna á næstu mánuðum. Einnig er ætlunin að hefja slitaferli ESÍ á haustmánuðum og stefnt að því að ljúka því fyrir lok árs.
    Seðlabanki Íslands mun hefja vinnu við gerð skýrslu í kjölfar slita félaganna í upphafi næsta árs þar sem varpað verður heildarmynd á starfsemi ESÍ og dótturfélaga þess og tekið verður saman hvert endanlegt tjón bankans verður af veðlánastarfsemi hans. Ljóst er að það verður minna en búist var við í upphafi. Þessari skýrslu verður skilað til bankaráðs Seðlabanka Íslands eigi síðar en í lok árs 2018. Skýrslan mun veita viðamikið yfirlit um starfsemi félagsins. Þá mun beinn kostnaður hins opinbera af bankahruninu liggja endanlega fyrir eftir því sem best verður lagt mat á. 1

II. Bankaráð Seðlabanka Íslands og þagnarskylda.
Lögbundið eftirlit bankaráðs sem kosið er af Alþingi.
    Að því er varðar starfsemi ESÍ og dótturfélaga þess vísar Seðlabanki Íslands til þess að bankaráð Seðlabanka Íslands, sem kosið er af Alþingi samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 36/2001, hefur eftirlit með því að bankinn starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda, sbr. 28. gr. sömu laga. Þá segir í n. lið 28. gr. sömu laga að bankaráð hafi eftirlit með eignum og rekstri bankans. Eftirlit Alþingis felst þannig í því að þingið kýs sjö mann bankaráð sem hefur aðgang að upplýsingum um starfsemi hans sem ekki eru opinberar.
    Bankaráð hefur sinnt lögbundnu hlutverki sínu með ítrekaðri umfjöllun á fundum sínum um starfsemi ESÍ frá stofnun félagsins. Með vísan til eftirlitshlutverks síns hefur bankaráð jafnframt fengið afhentar upplýsingar og sérstakar úttektir á starfsemi ESÍ og dótturfélaga þess, bæði frá starfsmönnum ESÍ, innri endurskoðanda bankans og endurskoðanda félagsins (Deloitte ehf.), sbr. 33. gr. laga nr. 36/2001. Þar hafa bankaráðsmenn fengið aðgang að nákvæmum upplýsingum, þ.m.t. varðandi sölu einstakra eigna, kaupendur og söluþóknun til utanaðkomandi sérfræðinga.

Þagnarskylda.
    ESÍ, Hilda og önnur félög í eigu Seðlabanka Íslands eru hluti af bankanum og málefni þeirra eru því málefni bankans. Seðlabanki Íslands hefur almennt litið svo á að starfsemi félaga í hans eigu og réttarstaða þeirra aðila sem eiga í lögskiptum við slík félög falli innan þess lagaramma sem gildir um starfsemi bankans, þar með talið en þó ekki eingöngu lög nr. 36/2001.
    Rík þagnarskylda hvílir á starfsmönnum Seðlabanka Íslands, þ.m.t. bankaráðsmönnum, um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt, sbr. nánar 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001. Þessu til viðbótar kemur til skoðunar almennt ákvæði um bankaleynd samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga auk hefðbundinna trúnaðarákvæða í samningum milli bankans og félaga í eigu hans við viðskiptamenn sína.
    Stór hluti þeirra upplýsinga sem fyrirspurnin beinist að eru bæði þess eðlis og efnis að þær varða hagi viðskiptamanna ESÍ og dótturfélaga þess (og þar með Seðlabanka Íslands) og ekki síður málefni bankans sjálfs. Þar af leiðandi teljast þær ekki til opinberra upplýsinga og um þær ríkir þagnarskylda.

III. Nánari svör við fyrirspurn.
    Hér að neðan er að finna nánari svör við fyrirspurninni. Vegna fyrirspurnarinnar hefur Seðlabanki Íslands jafnframt tekið saman fylgiskjöl með svari þessu, en meðal þeirra eru yfirlit yfir efnahags- og rekstrarreikning félagsins frá árinu 2010 til loka árs 2016 auk yfirlits yfir sjóðsstreymi fyrir sama tímabil. 2
    1.     Starfsemi ESÍ og dótturfélaga þess, utan Hildu, hefur að litlu leyti snúist um eignasölu en að mestu leyti um innheimtu útistandandi krafna, aðallega á slitabú og endurreistar fjármálastofnanir. Frá stofnun ESÍ hefur félagið þó gert fimm stóra samninga um sölur á verulegum eignum sem greint hefur verið opinberlega frá. Þessir samningar skýra m.a. lækkun eigna á efnahagsreikningi félagsins. Í fyrsta lagi sölu á hlutabréfum í danska bankanum FIH til hóps fjárfesta sem samanstóð af dönsku lífeyrissjóðunum ATP og PFA, sænska tryggingafyrirtækinu Folksam og fyrirtækinu CPDyvig (sjá meðfylgjandi tilkynningu, dags. 19. september 2010). Seðlabanki Íslands vinnur nú að skýrslu um veitingu neyðarláns til Kaupþings og endurheimtur þess. Þar verður m.a. fjallað ítarlega um söluna á FIH. Ráðgert er að skýrslan verði kynnt bankaráði fyrir áramót. Í öðru lagi sölu á hlutabréfum í Sjóvá – Almennum tryggingum hf. til fagfjárfestasjóðsins SF1 (sjá meðfylgjandi tilkynningar, dags. 28. júlí 2011 og 30. ágúst 2011). Í þriðja lagi samkomulag á milli ESÍ/Hildu, Dróma og Arion banka sem greint var frá hér að framan, en í því tilfelli voru lánasöfn í eigu Hildu notuð til að gera upp kröfur Arion banka á Dróma (sjá meðfylgjandi tilkynningu, dags. 30. desember 2013). Í fjórða lagi sölu (í tvennu lagi) á samningsbundnum sértryggðum skuldabréfum útgefnum af Arion banka hf. til Íbúðalánasjóðs (sjá meðfylgjandi tilkynningar, dags. 23. október 2015 og 4. mars. 2016). Í fimmta lagi sölu á veðtryggðu skuldabréfi útgefnu af Íslandsbanka hf. til Íbúðalánasjóðs (sjá meðfylgjandi tilkynningu, dags. 19. september 2016).
             Til að varpa frekara ljósi á þetta eru í fylgiskjali I yfirlit sem sýna þróun efnahags- og rekstrarreiknings ESÍ auk sjóðsstreymis frá stofnun félagsins og til ársloka 2016. Þar kemur fram að uppsafnaður hagnaður ESÍ á tímabilinu 2010 til ársloka 2016 nemur 74.453 millj. kr. og án vaxta og gengismunar af láni frá Seðlabankanum nemur hagnaðurinn 125.192 millj. kr. Í yfirliti efnahagsreiknings kemur fram að félagið var stofnað í árslok 2009 með eignir upp á 490.615 millj. kr. sem eru fjármagnaðar með láni frá Seðlabanka Íslands upp á 490.614 millj. kr. auk 1 millj. kr. í hlutafé. Í árslok 2016 var þessi efnahagsreikningur kominn niður í 42.729 millj. kr. og þar af eru 35.965 millj. kr. í handbæru fé og lánið frá bankanum er uppgreitt. Í sjóðsstreymisyfirlitinu sést síðan ár fyrir ár undir liðnum fjárfestingarhreyfingar hvernig hinir ýmsu eignaflokkar eru seldir og innheimtir samtals að fjárhæð 547.255 millj. kr. og þeim fjármunum að mestu leyti varið til að greiða Seðlabanka Íslands upp fjármögnunarlánið og greiða arð að auki.
    2.     ESÍ hefur ekki lánað fyrir kaupum þegar eignir félagsins hafa verið seldar að frátalinni sölu á FIH bankanum, sbr. nánari umfjöllun í meðfylgjandi fréttatilkynningu. Í tilviki Hildu eru einstaka dæmi um að veitt hafi verið lán við sölu þeirra fasteigna sem félagið eignaðist með samkomulagi milli ESÍ/Hildu, Dróma og Arion banka, sbr. framangreint. Með samkomulaginu yfirtók Hilda um 550 fastanúmer fasteigna frá Dróma til að vinna úr, þ.e. að koma í verð. Í slíkum tilvikum hafa lán verið veitt á markaðskjörum og með veði í viðkomandi fasteign, enda má starfsemi félaganna ekki verða til þess að rýra virði eignasafnsins.

    3.     Seðlabanki Íslands ítrekar að ESÍ og dótturfélög þess eru félög um fullnustu eigna. Í því felst að félögin hafa þurft að ganga að tryggingum, umbreyta þeim og ráðast í ýmsar aðgerðir til varnar hagsmunum sínum. Þetta felur óhjákvæmilega í sér umsýslu og úrvinnslu eigna sem miðar að því að hámarka virði trygginga og lágmarka tap Seðlabanka Íslands af hruninu. Þá leiðir það beinlínis af heimildum Seðlabanka Íslands til viðskipta, gegn framlögðum tryggingum, sbr. 1. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001, að bankanum er heimilt að stýra og að endingu koma í verð fullnustueignum/tryggingum sem kunna að falla til bankans. Seðlabanki Íslands þarf ekki sérstakar heimildir til þess að takmarka tjón sitt í tilvikum þar sem hann þarf að koma í verð eignum sem lagðar hafa verið fram til tryggingar í viðskiptum bankans. Skiptir í því sambandi ekki máli hvers eðlis eignin er, enda er grundvallaratriðið hið sama í öllum tilvikum: að löggjafinn hefur gert ráð fyrir slíku fyrst hann veitir bankanum lögbundnar heimildir til útlána gegn tryggingum.
    4.     Eignum sem ESÍ og dótturfélög þess eignuðust í kjölfar hrunsins hefur að mestu leyti verið umbreytt í reiðufé, enda er meginmarkmið félaganna að selja þær, sbr. framangreint. Um virði eigna Seðlabankans er almennt upplýst í ársreikningi, sem staðfestur er af bankaráði, og geta einstakir bankaráðsmenn gert athugasemdir þar að lútandi, en ársreikningurinn er loks staðfestur af ráðherra, allt skv. 33. gr. laga nr. 36/2001. Að lokum má nefna að upplýsingar um kaupendur og seljendur einstakra eigna getur Seðlabanki Íslands ekki látið af hendi með vísan til sjónarmiða um þagnarskyldu, sbr. framangreint.
    5.     Vegna úrvinnslu og stýringar þeirra eigna sem stafa frá bankahruninu hafa bæði ESÍ og dótturfélög þess aflað sér þjónustu utanaðkomandi sérfræðinga. Fjármálafyrirtækjum, og eftir atvikum lögmannsstofum, hefur verið greidd þóknun vegna sölu á markaðsverðbréfum, skuldabréfum og hlutabréfum auk þess sem fasteignasölum hefur verið greidd þóknun vegna sölu fasteigna. Þjónustan hefur ekki verið boðin út. Eins og áður kom fram eru ESÍ og dótturfélög þess félög um fullnustu eigna, þar sem meginsjónarmiðið er að hámarka virði eigna, hvort sem það er við ákvörðun á úrvinnslu tiltekinna eigna eða til grundvallar samningum við utanaðkomandi sérfræðinga. Upplýsingar um hvaða sérfræðinga hefur verið leitað til, hversu mikið þeir hafa fengið greitt fyrir sérfræðiþjónustu sína og skilmála ráðningarsamninga að öðru leyti getur Seðlabanki Íslands ekki veitt með vísan til sjónarmiða um þagnarskyldu, sbr. framangreint.
    6.     Almennt hafa ESÍ og dótturfélög þess auglýst þær eignir til sölu sem stafa frá bankahruninu. Hér má þó benda á að sala skuldabréfa til Íbúðalánasjóðs sem fjallað var um í 1. tölul. var niðurstaða beinna viðræðna sjóðsins og ESÍ að undangengnu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið og var sá háttur hafður á í ljósi umfangs viðskiptanna og hagsmuna beggja aðila. Þá hefur þess einnig verið gætt að persónugreinanlegar upplýsingar verði ekki opinberar. Fyrirkomulag við sölu eigna hefur eðli máls samkvæmt verið mismunandi eftir þeim eignum sem til sölu hafa verið hverju sinni. Þótt fyrirkomulag við sölu á eignasöfnum sé mismunandi hafa starfsmenn bankans, ESÍ og dótturfélaga þess leitast við að auglýsa útfærsluna hverju sinni og hafa söluferlin opin, m.a. með tilliti til jafnræðisjónarmiða. Við úrvinnslu eigna hefur meginmarkmiðið þó, eftir sem áður, verið að hámarka endurheimtur eigna og þannig takmarka það tjón sem bankahrunið mun á endanum valda Seðlabanka Íslands.

Fylgiskjöl:
     I.      Efnahags- og rekstrarreikningur auk sjóðsstreymis fyrir ESÍ frá árinu 2010 til ársloka 2016.
         www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s1149-f_I.pdf
     II.      Tilkynning Seðlabanka Íslands um sölu á danska bankanum FIH, dags. 19. september 2010.
         www.sedlabanki.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettasafn/frett/2010/09/19/Sala-%C3%A1-danska-bankanum-FIH-
     III.      Tilkynning um sölu á eignarhlut í Sjóvá – Almennum tryggingum hf., dags. 28. júlí 2011.
         www.sedlabanki.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettasafn/frett/2011/07/28/Sala-%C3%A1-hlut-Eignasafns-Se%C3%B0labanka-%C3%8Dslands-%C3%AD-Sj%C3%B3v%C3%A1-Almennum-tryggingum-hf.-
     IV.      Greinargerð um sölu á eignarhlut ESÍ í Sjóvá – Almennum tryggingum hf., dags. 30. ágúst 2011.
         www.sedlabanki.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettasafn/frett/2011/08/30/Greinarger%C3%B0-um-s%C3%B6lu-%C3%A1-eignarhlut-Eignasafns-Se%C3%B0labanka-%C3%8Dslands-ehf.-%C3%AD-Sj%C3%B3v%C3%A1-Almennum-tryggingum-hf
     V.      Tilkynning Seðlabanka Íslands um samning um uppgjör á milli Dróma, ESÍ og Arion banka, dags. 30. desember 2013.
         www.sedlabanki.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettasafn/frett/2013/12/30/Samningar-um-uppgjor-a-milli-Droma-Eignasafns-Sedlabanka-Islands-og-Arion-banka
     VI.      Tilkynning um samning ÍLS við ESÍ um kaup á sértryggðum skuldabréfum með veði í húsnæðislánum útgefnum af Arion banka hf., dags. 23. október 2015.
         ils.is/um-okkur/frettir/frett/2015/10/23/Ibudalanasjodur-kaupir-skuldabref-fyrir-70-milljarda-og-eykur-jofnud-a-milli-eigna-og-skuldabindinga-sjodsins/
     VII.      Tilkynning um samning ÍLS við ESÍ um kaup á sértryggðum skuldabréfum með veði í húsnæðislánum útgefnum af Arion banka hf., dags. 4. mars 2016.
         ils.is/um-okkur/frettir/frett/2016/03/04/Ibudalanasjodur-kaupir-sertryggd-skuldabref-af-ESI/
     VIII.      Tilkynning um samning ÍLS við ESÍ um kaup á veðtryggðu skuldabréfi útgefnu af Íslandsbanka hf., dags. 19. september 2016.
         newsclient.omxgroup.com/cdsPublic/viewDisclosure.action?disclosureId=725705&lang=en

1    Tölur um kostnað hins opinbera hafa verið talsvert á reiki, en fyrsta mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í kjölfar hrunsins benti til þess að kostnaðurinn næmi rúmlega 44% af landsframleiðslu. Í síðasta mati AGS í júní 2016, í framhaldi af nauðasamningum bankanna, þar sem m.a. var litið til framgangs ESÍ, var það mat sérfræðinga AGS að beinn kostnaður hins opinbera væri enginn heldur næmi afgangur af endurreisninni um 9% af landsframleiðslu (sjá nánar Iceland 2016 Article IV Consultation, IMF Country Report No. 16/179).
2    Ítarlegri upplýsingar má finna í skýringum með ársreikningum félagsins.