Ferill 613. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1155  —  613. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um tillögu um skipan dómara í Landsrétt.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Tók ráðherra í störfum sínum við gerð tillögu um skipan 15 dómara í Landsrétt mið af niðurstöðu dóms Hæstaréttar í máli nr. 412/2010, íslenska ríkið og Árni M. Mathiesen gegn Guðmundi Kristjánssyni og gagnsök, og ef ekki, á hverju byggðist ákvörðun ráðherra?

    Í störfum ráðherra við gerð tillögu til Alþingis um skipan 15 dómara í Landsrétt var tekið fullt mið af niðurstöðu dóms Hæstaréttar í máli nr. 412/2010 að því marki sem málsatvik og lagaumhverfi voru sambærileg.
    Dómur Hæstaréttar í máli nr. 412/2010 lýtur að málsatvikum sem að verulegu leyti voru frábrugðin þeim sem uppi voru þegar ráðherra gerði fimmtán tillögur að skipan dómara við Landsrétt til Alþingis hinn 29. maí síðastliðinn. Niðurstaða Hæstaréttar í málinu réðst af mati réttarins á stjórnsýslumeðferð og stjórnsýsluákvörðun setts dóms- og kirkjumálaráðherra í því máli. Ráðherrann byggði þar niðurstöðu sína um hvern skyldi skipa sem dómara ekki á niðurstöðu dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti og taldi hana haldna göllum.
    Tillögur ráðherra til Alþingis um skipan fimmtán dómara við Landsrétt byggðust á hinn bóginn á vinnu og áliti dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti og hefur ráðherrann tekið sérstaklega fram að niðurstaða nefndarinnar væri ekki haldin neinum formlegum annmörkum. Staðfest hafði verið að 33 umsækjendur uppfylltu almenn hæfnisskilyrði. Þá taldi ráðherra nauðsynlegt að gera reynslu af dómarastörfum hærra undir höfði en gert var í umsögn dómnefndarinnar. Dómnefndin hafði við mat sitt m.a. í raun dregið úr vægi tiltekinna matsþátta sem lutu að dómstörfum með því að gefa öllum umsækjendum fullt hús stiga fyrir þá. Takmarkað vægi dómstarfa í mati nefndarinnar gerði það í raun að verkum að umsækjendur með langan starfsferil sem héraðsdómarar stóðu fyrir fram mjög höllum fæti í samanburði við aðra umsækjendur sem höfðu fjölbreyttan starfsferil, t.d. á sviði kennslu, stjórnsýslu og lögmennsku. Í þessu samhengi þarf m.a. að hafa í huga takmarkaða möguleika dómara á að afla sér reynslu utan dómstólanna vegna reglna um aukastörf dómara.
    Það sjónarmið ráðherra að auka vægi reynslu af dómstörfum var málefnalegt, enda verið að skipa fimmtán dómara í einu vetfangi til starfa í nýjum dómstól. Þá er einnig fyrirliggjandi að öll óflutt sakamál í Hæstarétti flytjast yfir til Landsréttar strax 1. janúar 2018, þegar hann tekur til starfa. Sjónarmið ráðherra að þessu leyti eiga að fullu leyti stoð í reglum nr. 620/2010, um störf dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti.
    Eftir að dómur Hæstaréttar nr. 412/2010 var kveðinn upp var reglum um skipan dómara í landinu breytt í verulegum atriðum. Að kröfu þingsins var lögum og reglum breytt þannig að þinginu var veitt aðkoma að skipan dómara. Í lögum sem lúta að skipan dómara við Landsrétt var svo sérstaklega kveðið á um að við fyrstu skipan dómara við réttinn kæmi Alþingi að staðfestingu tillögu ráðherra, sbr. ákvæði til bráðabirgða IV í lögum um dómstóla, nr. 50/2016. Alþingi hafði því ákvörðunarvald um það hvaða dómaraefni yrðu lögð til við forseta Íslands, ekki dómsmálaráðherra.