Ferill 616. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1156  —  616. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um reglur um kaup erlendra aðila á jörðum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra setja skýrar reglur til þess að koma í veg fyrir kaup erlendra aðila, sem ekki hafa hér lögheimili og fasta búsetu, á landi, m.a. jörðum í eigu ríkisins? Ef svo er, hvert verður megininntak þeirra reglna?

    Ráðherra telur rétt að settar verði fastmótaðri reglur en nú gilda um jarðakaup útlendinga hér á landi. Til stendur að ráðherra leggi fram frumvarp þess efnis á kjörtímabilinu.
    Árið 2016 setti innanríkisráðuneytið viðmiðunarreglur við afgreiðslu umsókna útlendinga um kaup á fasteignum á grundvelli 2. mgr. 1. gr. laga um eignarrétt og afnotarétt á fasteignum, nr. 19/1966, og byggjast þær að mestu leyti á niðurstöðum skýrslu nefndar um endurskoðun á þeim lögum, frá 30. maí 2014. Reglurnar hafa verið lagðar til grundvallar mati ráðuneytisins á því hvort veita eigi samþykki fyrir kaupunum. Mismunandi viðmið eiga við um kaup lands/afnotaréttar eftir því hvort viðkomandi svæði er innan eða utan skipulagðs þéttbýlis. Land utan skipulagðs þéttbýlis lýtur strangari takmörkunum en land sem er innan skipulagðs þéttbýlis.
    Í júní síðastliðnum skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp um endurskoðun eignarhalds á bújörðum. Er starfshópnum ætlað að fara yfir þær takmarkanir sem unnt er að mæla fyrir um í ákvæðum ábúðar- og jarðalaga og að leggja mat á þær takmarkanir sem er að finna í lögum nágrannalanda Íslands, eins og Noregi, Danmörku og einnig á Möltu, og rúmast innan marka 40. gr. EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins. Jafnframt er starfshópnum ætlað að leggja mat á hvaða takmarkanir komi helst til greina hér á landi til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins og gera tillögu til ráðherra um nauðsynlegar breytingar á lögum í samræmi við framangreint. Við skipun starfshópsins var leitað tilnefningar frá Bændasamtökum Íslands, dómsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Ráðuneytisstjóri sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins er formaður starfshópsins. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögum sínum eigi síðar en 15. desember 2017.