Ferill 596. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1160  —  596. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Óla Halldórssyni um nýtingarrétt vatnsauðlinda á ríkisjörðum.


     1.      Hvernig var staðið að afhendingu réttinda til að nýta vatnsauðlind Svartár í Bárðardal á ríkisjörðinni Stóru-Tungu, hverjum var þessi nýtingarréttur veittur og hvaða endurgjald kom fyrir nýtingarréttinn?
    Í lok árs 2012 þegar fjármála- og efnahagsráðuneytið hóf viðræður við SSB Orku ehf. um vatnsréttindi ríkisins í Svartá í Bárðardal var SSB Orka þegar komin með gilt rannsóknarleyfi frá Orkustofnun. SSB Orka hafði jafnframt samið við eigendur 50% vatnsréttinda Svartár áður en ríkið kom að málinu en vatnsréttindi jarðarinnar eru í eigu ríkis og einkaaðila til helminga. Ráðuneytið var í þeirri stöðu að SSB Orka var bæði komin með rannsóknarleyfi sem Orkustofnun hafði veitt félaginu hinn 8. nóvember 2011 og hafði þegar samið við sameigendur ríkisins. Lög gera beinlínis ráð fyrir því að samið sé við rannsóknarleyfishafa ef hann ákveður að óska eftir virkjunarleyfi. Náist ekki samningar við landeiganda innan ákveðins tíma er gert ráð fyrir eignarnámsheimild í lögum.
    Þegar ríkið á auðlind í sameign með öðrum aðilum hefur ríkið metið samningsaðstöðu sína sjálfstætt óháð því hvaða samninga rannsóknarleyfishafar hafa undirritað gagnvart sameigendum ríkisins. Óskað var eftir arðsemismati virkjunarinnar við ákvörðun um endurgjald fyrir afnot réttindanna og lagði utanaðkomandi sérfræðingur í auðlindamálum sérstakt mat á vænta arðsemi virkjunarinnar í samráði við ráðuneytið.
    Í nýtingarsamningi vegna vatnsréttinda Svartár í Bárðardal, sem undirritaður var af hálfu ríkisins hinn 24. apríl 2013, var gjaldið reiknað sem hlutfall af tekjum virkjunarinnar og undir sölu á raforku falla hvers kyns afleiddar tekjur af sölu/framleiðslu raforkunnar. Leigugjaldið er eftirfarandi:
    Fyrir fyrstu 5 ár leigutímans að telja frá gangsetningu virkjunar greiðast 2,5% af brúttósöluverði raforku.
    Fyrir næstu 5 ár leigutímans greiðast 5,0% af brúttósöluverði raforku.
    Fyrir næstu 5 ár leigutímans greiðast 6,0% af brúttósöluverði raforku.
    Fyrir næstu 5 ár leigutímans greiðast 7,0% af brúttósöluverði raforku.
    Fyrir næstu 5 ár leigutímans greiðast 8,0% af brúttósöluverði raforku.
    Fyrir næstu 5 ár leigutímans greiðast 9,0% af brúttósöluverði raforku.
    Fyrir síðustu 10 ár leigutímans greiðast 10% af brúttósöluverði raforku.

     2.      Er framangreind ráðstöfun stefnumarkandi að því leyti að til standi að færa nýtingarrétt orkuauðlinda á landsvæðum í almannaeigu til einkaaðila með ámóta hætti og vatnsauðlind Svartár í Bárðardal?
    Ákvörðun um samninga um vatnsauðlindir Svartár í Bárðardal er ekki stefnumarkandi að þessu leyti. Lagaheimildir til gerðar nýtingarsamninga um orkuauðlindir á landi í eigu ríkisins eru ekki einskorðaðar við félög í eigu ríkisins. Áður hefur verið gengið til samninga um nýtingu orkuauðlinda á landsvæðum í eigu ríkisins við einkaaðila.
     3.      Telur ráðherra að rétt og löglega hafi verið staðið því að færa nýtingarrétt á vatnsauðlind Svartár í Bárðardal til einkaaðila og að gerningurinn samræmist siðareglum ráðherra?
    Samkvæmt lögum er það Orkustofnun sem gefur út rannsóknarleyfi sem er grundvöllur fyrir virkjunarleyfi ef rannsóknir sýna að hagkvæmt getur verið að virkja tiltekna auðlind. Slík rannsóknarleyfi eru gefin út til umsækjanda um slík leyfi án sérstaks samþykkis landeiganda. Meginhugsun laganna er að eigandi jarðeigna geti ekki staðið í vegi fyrir nýtingu á auðlindum landsins að þessu leyti ef virkjunarkosturinn er metinn hagkvæmur. Þrátt fyrir að lög takmarki heimild opinberra aðila til að framselja orkuauðlindir með varanlegum hætti er hins vegar beinlínis gert ráð fyrir að heimilt sé að gera samninga um tímabundinn afnotarétt af slíkum réttindum.
    Í 3. mgr. 16. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, segir að ríki sé heimilt að veita tímabundinn afnotarétt að vatnsréttindum til allt að 65 ára í senn. Í 5. mgr. sömu greinar segir að sá ráðherra er fer með samningagerð um endurgjald fyrir nýtingu auðlinda í eigu og á forræði íslenska ríkisins skuli semja um endurgjald (leigu) fyrir afnotarétt undir yfirráðum ríkisins skv. 3. mgr. Fjármála- og efnahagsráðherra fer með ríkisjarðir, land í eigu ríkisins og samninga vegna nýtingar vatns- og jarðhitaréttinda, náma og jarðefna á landi utan þjóðlendna samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
    Að mati ráðherra var því að öllu leyti rétt og löglega staðið að samningum um nýtingarrétt á vatnsauðlind Svartár í Bárðardal.