Ferill 554. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1163  —  554. mál.
Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Daníel E. Arnarssyni um málefni hinsegin fólks.


     1.      Hefur nefnd um málefni hinsegin fólks, sem skipuð var samkvæmt ályktun Alþingis nr. 7/143, lokið störfum og lagt fram tillögur eða lokaskýrslu? Ef svo er ekki, hvenær eru verklok nefndarinnar áformuð?
    Nefndin hefur ekki lokið störfum en í ráðuneytinu er unnið að framkvæmdaáætlun um málefni hinsegin fólks sem byggð er á vinnu nefndarinnar. Vonir standa til að hægt sé að leggja fram framkvæmdaáætlunina á næsta vorþingi.

     2.      Hefur ráðherra skýringu á því hvers vegna Ísland hefur dregist aftur úr öðrum löndum varðandi lagalegan rétt hinsegin fólks, sbr. nýtt regnbogakort sem gefið er út af ILGA Europe? Hyggst ráðherra bregðast við og beita sér fyrir bættri stöðu hinsegin fólks?
    Réttindabarátta hinsegin fólks hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og má sérstaklega nefna réttindabaráttu trans- og intersex-einstaklinga. Ísland hefur ekki fylgt eftir þeirri þróun sem hefur átt sér stað meðal þeirra ríkja sem Ísland ber sig helst saman við. Þá þróun undirstrikar úttekt ILGA Evrópu en samkvæmt síðustu úttekt fékk Ísland 47 stig af 100. Meðal ábendinga um úrbætur sem komu frá ILGA Evrópu er að skýrt verði kveðið á um í lögum að læknisfræðileg inngrip á intersex-börnum verði bönnuð nema um nauðsynlegar aðgerðir sé að ræða, að löggjöf um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda verði endurskoðuð til þess að tryggja að ferillinn byggist á sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga og að íslensk stjórnvöld innleiði löggjöf sem banni mismunun á vinnumarkaði á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar og kyneinkenna. Ráðherra hefur fullan hug á því að beita sér fyrir bættri stöðu hinsegin fólks á Íslandi í samræmi við ábendingar ILGA Evrópu. Má þar nefna að unnið er að framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks þar sem hugað er sérstaklega að sjálfsákvörðunarrétti í samræmi við kynvitund. Þá hefur ráðherra lagt fram frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði (435. mál) óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund og gekk frumvarpið til allsherjar- og menntamálanefndar 25. apríl en ekki náðist að ljúka nefndarvinnu fyrir þinglok. Frumvarpið hefur átt langan aðdraganda og var unnið í nánu samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins þar sem samkomulag náðist um framangreindar orðskýringar. Árið 2014 fór frumvarpið í opið umsagnarferli og verður lagt aftur fram á 147. löggjafarþingi.
    Ljóst er að málefni hinsegin fólks eru í mikilli þróun um þessar mundir en frumvarpið nær ekki að fullu utan um þá þróun sem hefur átt sér stað í þeim málaflokki, t.d. eru kyneinkenni ekki ein af þeim mismunarbreytum sem þar eru upptaldar. Aftur á móti er ljóst að möguleiki er á að fjalla ítarlegar um málið á Alþingi og gera breytingar á frumvarpinu kjósi þingmenn það.
    Þá ber að geta þess að jafnréttishugtakið hefur á síðustu árum þróast í þá átt að vera skilgreint í víðtækari merkingu en áður þannig að hugtakið nái yfir fleiri þætti en kynjajafnrétti. Sú þróun hefur enn ekki endurspeglast í íslensku lagaumhverfi en vonir standa til að svo verði og má í því sambandi nefna aðgerð í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum um að gerð verð á úttekt á jafnréttislögum og stjórnsýslu jafnréttismála. Kannað verður hvort markmið núgildandi laga séu í samræmi við alþjóðlega þróun og þær breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi. Það er von ráðherra að með úttekt á jafnréttislögum komi fram tillögur um víðari skilgreiningu á jafnrétti en í gildandi lögum, enda er jafnrétti grunnstoð í sanngjörnu og réttlátu samfélagi.

     3.      Hyggst ráðherra, í ljósi þess að það er einkum skortur á víðtækri jafnréttislöggjöf sem verður til þess að Íslandi vegnar ekki betur á regnbogakortinu en raun er, beita sér fyrir gerð löggjafar þar sem lagt er bann við mismunun á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar og kyneinkenna?
    Eins og áður segir hefur ráðherra lagt fram frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund og gekk frumvarpið til allsherjar- og menntamálanefndar 25. apríl en ekki náðist að ljúka nefndarvinnu fyrir þinglok. Vísast að öðru leyti til svars við 2. lið.

     4.      Hefur verið hafin vinna við nýja löggjöf um transfólk?
    Lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda, nr. 57/2012, falla undir verksvið heilbrigðisráðherra. Í ljósi þess að ör þróun hefur verið á þessu sviði síðan lögin tóku gildi árið 2012 má ætla að endurskoðunar sé þörf. Í tillögum um framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks er gert ráð fyrir aðgerðum sem munu fela í sér úrbætur fyrir transfólk.

     5.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að transfólk geti með auðveldum hætti breytt kynskráningu sinni hjá þjóðskrá?
    Ráðherra styður tillögur þess efnis að transfólk geti með einföldum hætti breytt kynskráningu sinni og nafni í þjóðskrá en Þjóðskrá Íslands heyrir undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Meðal þeirra aðgerða sem lagðar hafa verið til af hálfu nefndar um málefni hinsegin fólks er að einstaklingur geti breytt nafni og kyni sínu til samræmis við kynvitund án kvaðar um að Þjóðskrá Íslands hafi borist tilkynning um samhliða leiðréttingu kyns viðkomandi.

     6.      Hefur ráðherra látið kanna möguleika á því að einstaklingar geti skráð kyn sitt með öðrum hætti heldur en hin hefðbundna kynjatvíhyggja gerir ráð fyrir, t.d. með X?
    Almannaskráning, þar á meðal Þjóðskrá Íslands, heyra undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og hefur félags- og jafnréttismálaráðherra því ekki látið kanna sérstaklega möguleika þess að einstaklingar geti skráð kyn sitt með öðrum hætti en þeim sem tíðkast hefur.

     7.      Telur ráðherra að sú staðreynd að framlög til Samtakanna .78 hafa lækkað að raunvirði undanfarin sex ár skýri það að Ísland dregst aftur úr í samanburði regnbogakortsins og telur ráðherra rétt að bæta Samtökunum .78 lækkun framlaga undanfarin ár?
    Samtökin '78 hafa frá árinu 2011 fengið samanlagt 39,9 millj. kr. Eftirfarandi tafla sýnir uppreiknað raunvirði styrkjanna. Til grundvallar útreikningunum eru notuð birt gildi vísitölu framfærslukostnaðar og vísitölu neysluverðs hvers árs í desember hjá Hagstofu Íslands að undanskildu árinu í ár.

Ár Styrkur Raunvirði
2011 5.200.000 5.200.000
2012 4.700.000 5.418.551
2013 4.699.930 5.642.889
2014 6.200.000 5.689.546
2015 6.000.000 5.804.183
2016 7.111.580 5.914.069
2017 6.000.000 5.981.746
Samtals 39.911.580 39.650.984

    Í ljósi þess að framlög til Samtakanna '78 virðast ekki hafa dregist saman að raunvirði síðustu sex árin er ekki hægt að sjá að orsakasamband sé milli framlaga til Samtakanna '78 og þess að Ísland sé að dragast aftur úr í evrópskum samanburði.

     8.      Hver er afstaða ráðherra til þess að Samtökin .78 hljóti framlag á fjárlögum hvers árs í ljósi hins fjölþætta og mikilvæga starfs sem fram fer á þeirra vegum?
    Frá árinu 2012 hafa verið veittir styrkir til félagasamtaka á sviði félags- og heilbrigðismála og er auglýst árlega eftir umsóknum. Veittir eru styrkir til afmarkaðra verkefna sem miða að því að veita einstaklingum eða hópum stuðning, fræðslu og ráðgjöf og falla verkefni Samtakanna '78 vel að þessum áherslum. Stefna stjórnvalda hefur verið að veita frekar verkefnastyrki í stað þess að félagasamtök séu á föstum fjárlögum og styður ráðherra þá áherslu.