Ferill 614. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1168  —  614. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um tekjur og gjöld Alþingis.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hverjar eru tekjur og gjöld Alþingis og undirstofnana þess? Óskað er eftir að fram komi sundurliðun á bókhaldi Alþingis og undirstofnana þess út frá tekjutegund og gjöldum, flokkuðum eftir kostnaðartegund, kostnaðarstað og kostnaðarbera (viðfangi), með öllum færslum undir hverjum flokki, fyrir síðasta ár og það sem af er þessu ári, ásamt samhliða sundurliðun, að því marki sem upplýsingarnar eru til. Þess er óskað að í svari komi fram bókunardagsetning, númer fylgiskjals, fjárhagsreikningsnúmer, heiti fjárhagsreiknings, deildir, kóti (ásamt viðföngum, að svo miklu leyti sem hægt er, til að upplýsingar að baki færslum séu greinanlegar), upphæð og tegund mótreiknings.

    Í greinargerð með fyrirspurninni segir:
    „Með fyrirspurn þessari er óskað eftir upplýsingum úr bókhaldi Alþingis. Mikilvægt er að upplýsingarnar sem fram koma í svari forseta Alþingis taki til allra þátta sem hér er spurt um, að því marki sem tæknilega er mögulegt, og að þær séu settar upp á þann hátt að auðveldlega sé hægt að greina þær. Þess skal þó gætt að virt séu lög um persónuvernd og að ekki komi fram persónugreinanlegar upplýsingar.“
    Þingmaðurinn hafði áður lagt fram fyrirspurn, ásamt Birni Leví Gunnarssyni, á þskj. 889 (576. mál) um áþekkt efni:
    „Hverjar eru tekjur og gjöld Alþingis og þeirra stofnana sem heyra undir málefnasvið þess og hver er áætluð þróun útgjalda samkvæmt fjármálaáætlun 2018–2022? Óskað er eftir sundurliðun eftir málefnasviðum og hagrænni flokkun, sundurliðað í launakostnað og rekstrarkostnað, skipt eftir lögbundnum verkefnum, þ.m.t. tímabundnum verkefnum, yfirstandandi og fyrirhuguðum, og öðrum kostnaðarliðum.“
    Fyrirspurnir þessar hafa verið til athugunar saman á skrifstofu þingsins.
    Svör við fyrirspurnum þessum yrðu mikil að vöxtum ef fullnægjandi ættu að teljast, þ.e. í raun bókhald Alþingis með númeruðum fylgiskjölum. Slíkt umfang svara rúmast þó ekki innan ákvæða þingskapa (57. gr.) um fyrirspurnir og svör við þeim.
    Tekjur og gjöld Alþingis hafa verið ákveðin í fjárlögum hverju sinni og niðurstöður hvers árs birtar í ríkisreikningi. Allar greiðslur eru samkvæmt lögum, reglum forsætisnefndar eða vinnureglum skrifstofunnar (sem eru birtar á vef) og eftir fylgiskjölum. Áætlun um þróun tekna og útgjalda Alþingis og undirstofnana þess kemur fram í fjármálaáætlun og hefur forseti eða skrifstofan engar aðrar upplýsingar að styðjast við að því leyti.
    Ríkisendurskoðun hefur vakið athygli forseta og skrifstofu þingsins á að í fjármála- og efnahagsráðuneyti er nú verið að undirbúa birtingu sambærilegra upplýsinga og beðið er um í fyrirspurnunum. Vegna þess að ekki má birta persónugreinanlegar upplýsingar í þeim listum og gögnum sem fyrirhugað er að birta hefur enn ekki tekist að leysa tæknilega og vélrænt hvernig hægt verði að láta upplýsingakerfin einangra persónugreinanlegar upplýsingar. Birting slíkra upplýsinga hefur því tafist frá því sem áformað var. Enn er ekki ljóst hvenær af því verður.
    Alþingi og undirstofnanir þess eru með sama hætti vanbúnar til að láta frá sér fara færslur sem ekki bera persónugreinanlegar upplýsingar. Þegar úr þessu hefur verið leyst með almennum hætti á að vera hægt að birta þessar upplýsingar fyrir Alþingi og undirstofnanir þess. Þess má einnig geta að í forsætisnefnd Alþingis hefur verið rætt um aukinn aðgang að bókhaldi, greiðslum og reikningum þingsins. Er þess að vænta að forsætisnefnd taki afstöðu til þessa fljótlega.
    Það er vilji forseta að gagnsæi ríki um fjármál Alþingis og undirstofnana þess, Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns, enda byggt á skýrum reglum um alla meðferð fjármuna þessara stofnana.
    Svör við fyrirspurninni (og fsp. á þskj. 889) geta í ljósi þessa ekki orðið jafnítarleg og beðið er um. Hér á eftir er í fylgiskjölum reynt að varpa eins miklu ljósi á tekjur, gjöld og bókhald þingsins og stofnana þess og unnt er í stuttu máli og með þeim takmörkunum sem virða ber.
    Ber að líta svo á að svarið við fyrirspurn þessari eigi líka við fyrirspurn á þskj. 889.


Fylgiskjal I.


www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s1168-f_I.pdf


Fylgiskjal II.


www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s1168-f_II.pdf