Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 4  —  4. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995,
með síðari breytingum (áfengisgjald og áfengiskaupafríðindi).


Frá fjármála- og efnahagsráðherra.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað „106,80 kr.“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: 119,85 kr.
     b.      Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Áfengisgjald skal lagt á í samræmi við upplýsingar um vínandamagn sem tilgreindar eru á umbúðum vöru.
             Telji tollstjóri eða ríkisskattstjóri að upplýsingar á umbúðum séu rangar er þeim heimilt að mæla vínandamagn eða fela það öðrum viðurkenndum aðila og miðast álagning áfengisgjalds þá við niðurstöðu þeirra mælinga. Kostnaður við mælingar skal greiddur af framleiðanda eða innflytjanda vörunnar hafi vínandamagn verið ranglega tilgreint.

2. gr.

    Orðin „og aðila sem ríkisstjórn ákveður“ í 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna falla brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2018. Þó öðlast 2. gr. gildi 1. október 2017.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Tillögur þess standa í beinum tengslum við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018 og hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í frumvarpinu er lagt til að áfengisgjald á léttvín og bjór verði samræmt enda er það almenn stefna skattyfirvalda að gæta samræmis í skattlagningu keimlíkra vörutegunda, þar á meðal áfengis.
    Tilefni nýrra málsgreina í 3. gr. laganna, þar sem lagt er til að áfengisgjald verði reiknað út frá þeim upplýsingum sem fram koma á umbúðum áfengrar vöru, má rekja til niðurstöðu yfirskattanefndar í úrskurði nr. 116/2015.
    Þá er það tilefni afnáms áfengiskaupafríðinda þeirra aðila sem ríkisstjórn ákveður að á grundvelli þessarar heimildar hafa m.a. nokkrar af æðstu stofnunum ríkisins um árabil verið undanskildar greiðslu á andvirði áfengisgjalds vegna áfengiskaupa, en slík áfengiskaupafríðindi fela í sér ívilnun sem jafna má til fjárstyrks úr ríkissjóði eða skattastyrks. Markvisst hefur verið unnið að því á undanförnum árum að útrýma skattastyrkjum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Fyrirhugað er að samræma áfengisgjald á léttvín og bjór þar sem áfengisgjald á léttvín er hækkað úr 106,8 kr. á hvern sentilítra í 119,85 kr. á sentilítra og yrði þar með jafnhátt áfengisgjaldi á bjór eftir 2,2% verðlagsuppfærslu á síðarnefnda gjaldinu. Sem fyrr segir er það almenn stefna skattyfirvalda að gæta samræmis í skattlagningu keimlíkra vörutegunda, þar á meðal áfengis. Mishátt gjald á hverja einingu af vínanda í áfengum drykkjum sem eiga í samkeppni innbyrðis, eins og léttvín og bjór, þykir því ekki heppilegt. Samræmingin ætti einnig að einfalda alla umsýslu fyrir söluaðila.
    Einnig er fyrirhugað að áfengisgjald verði miðað við þær upplýsingar sem fram koma á umbúðum hinnar áfengu vöru og stjórnvöldum veitt heimild til að mæla vínandamagn áfengrar vöru ef þau telja að upplýsingar á umbúðum hennar séu rangar. Sem fyrr segir má rekja tilefni þessara breytinga á lögunum til niðurstöðu yfirskattanefndar í úrskurði nr. 116/2015. Í úrskurðinum kom fram að miða ætti álagningu áfengisgjalds við upplýsingar um vínandamagn áfengrar vöru sem fram kæmu í vottorðum vörunnar í þeim tilfellum þegar innflytjandi hennar gæti lagt slík vottorð fram, en fram að uppkvaðningu úrskurðarins hafði tollstjóri talið rétt að miða áfengisgjald í öllum tilvikum við upplýsingar á umbúðum vörunnar.
    Þá er fyrirhugað að afnema heimild ríkisstjórnarinnar til að ákveða hvaða aðilar það eru sem njóta áfengiskaupafríðinda. Þau rök sem lágu til grundvallar því að einstakir aðilar ættu að vera undanskildir greiðslu á andvirði áfengisgjalds vegna áfengiskaupa voru fyrst og fremst af fjárhagslegum toga. Sem fyrr segir hefur markvisst verið unnið að því á undanförnum árum að útrýma skattastyrkjum. Meðal röksemda fyrir því er að auka jafnræði, gagnsæi og festu í fjárstjórn auk þess sem skattastyrkir geta falið í sér óæskilegan hvata fyrir þá sem þeirra njóta.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarp þetta var unnið samhliða frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018. Við gerð þess var haft samráð við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ríkisskattstjóra og tollstjóra.

6. Mat á áhrifum.
    Samræming áfengisgjalds á léttvín og bjór er talin auka tekjur ríkissjóðs um 350 millj. kr. árlega. Matið byggist á sölu ársins 2016 og tekur mið af minni eftirspurn eftir léttvíni en ella þar sem gera má ráð fyrir að söluverð á léttvíni hækki um 8-9% við breytinguna. Hækkun áfengisgjalds á léttvín er talin hafa í för með sér 0,04% hækkun á vísitölu neysluverðs. Ráðgert er að samræmingin leiði til einföldunar fyrir söluaðila þar sem eitt og sama gjald yrði lagt á léttvín og bjór. Tillagan samræmist tekjuáætlun frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2018.
    Sú lagabreyting sem lögð er til í frumvarpinu að miða áfengisgjald við þær upplýsingar sem fram koma á umbúðum áfengrar vöru hefur óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs.
    Þá mun sú breyting að afnema heimild ríkisstjórnarinnar til að ákveða hvaða aðilar það eru sem njóta áfengiskaupafríðinda hafa minni háttar áhrif á tekjur ríkissjóðs til hækkunar. Ekki er gert ráð fyrir að tillagan leiði til kostnaðar sem einhverju nemur hjá þeim stofnunum sem málið varðar.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að fjárhæð áfengisgjalds á léttvín verði hækkuð til samræmis við fjárhæð áfengisgjalds á öl. Samræming gjaldsins hækkar áfengisgjald á léttvín um 9,8% og þar við bætist 2,2% verðlagsuppfærsla.
    Þá er lagt til að áfengisgjald verði miðað við þær upplýsingar sem fram koma á umbúðum áfengrar vöru. Er þetta gert til að einfalda álagningu áfengisgjalds og mun slík framkvæmd jafnframt tryggja samræmi í álagningu áfengisgjalds hvað varðar áfengi framleitt hérlendis annars vegar og innflutt áfengi hins vegar, enda ekki algengt að skýrslur um vínandamagn fylgi með sendingargögnum. Þá er slík framkvæmd jafnframt talin auka gagnsæi álagningar. Telji viðkomandi eftirlitsstjórnvald, þ.e. tollstjóri hvað varðar innflutt áfengi eða ríkisskattstjóri hvað varðar áfengi framleitt hérlendis, líklegt að upplýsingar á umbúðum séu rangar er stjórnvaldinu heimilt að mæla vínandamagn eða fela það öðrum viðurkenndum aðila og miðast álagning áfengisgjalds þá við þær mælingar.

Um 2. gr.

    Lagt er til að felld verði brott heimild ríkisstjórnarinnar til að ákveða hvaða aðilar það eru sem við áfengiskaup geta notið undanþágu frá greiðslu á andvirði áfengisgjalds sem lagt hefur verið á áfengar vörur.

Um 3. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.