Ferill 5. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 5  —  5. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um stefnu í efnahags- og félagsmálum.


Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Þóra Árnadóttir, Svandís Svavarsdóttir.


    Með tilliti til mikillar þenslu á vinnumarkaði, neyðarástands á húsnæðismarkaði, óljósra áforma um sölu ríkisbanka án þess að framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið liggi fyrir, vaxandi ójöfnuðar og bresta í velferðarkerfinu ályktar Alþingi að fela stjórnvöldum að grípa til eftirtalinna aðgerða til að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.
     a.      Endurskoðun skattkerfisins. Boðað verði til samráðs stjórnvalda, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar um endurskoðun skattkerfisins með það að markmiði að treysta tekjugrunn ríkis og sveitarfélaga og stuðla að beitingu skattkerfisins í þágu jöfnuðar og efnahagslegs stöðugleika. Þannig verði tekjugrunnur velferðarkerfisins treystur, leitað sátta um tekjudreifingu og dregið úr þenslu. Á sama vettvangi verði unnið að endurskipulagningu vaxta- og barnabóta með það fyrir augum að fleiri njóti þeirra en nú og hlutverk þeirra við tekjujöfnun verði styrkt.
     b.      Samráð á vinnumarkaði. Efnt verði til víðtæks samráðs hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins í því skyni að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði, hindra að launaþróun á almennum og opinberum vinnumarkaði auki ójöfnuð og tryggja að réttindi launafólks séu hvarvetna virt.
     c.      Endurmótun fjármálakerfisins. Komið verði á fót þverpólítískum samstarfsvettvangi um framtíð fjármálakerfisins og endurmótun þess í þeim anda sem þegar er hafin með tillögum um aðskilnað starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka þar sem m.a. verði gefinn gaumur að frekari reglusetningu varðandi eignarhald á fjármálafyrirtækjum, umfangi fjármálakerfisins, áhrifum tæknibreytinga á starfsemi og hlutverk fjármálastofnana, aflandsfélögum og þætti þeirra í skattsvikum, og stefnumörkun um hlut og ábyrgð ríkisins í fjármálakerfinu.
     d.      Húsnæðismál og húsnæðisstuðningur. Gerð verði úttekt á stöðu og horfum í húsnæðismálum og sérstaklega þætti opinberra stuðningskerfa á þeim vettvangi. Metið verði hvernig til hefur tekist með nýskipan í byggingu félagslegs húsnæðis og hugað að því hvernig efla megi þann þátt húsnæðismarkaðarins. Stjórnvöld viðurkenni að sómasamlegt húsnæði teljist til mannréttinda og móti stefnu samkvæmt því. Sérstaklega verði hugað að þætti húsnæðiskostnaðar í vísitölu neysluverðs og hvort rétt sé að taka húsnæðiskostnað út úr þeirri vísitölu.
     e.      Endurskoðun laga um opinber fjármál. Hafin verði endurskoðun laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, einkanlega 7. gr. laganna, þar sem sett eru tiltekin hagstjórnarleg skilyrði fyrir fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem dregur mjög úr möguleikum ríkisins til sveiflujöfnunar. Enn fremur þarf að tryggja í lögunum nauðsynleg tækifæri Alþingis til að beita stjórnarskrárbundnu fjárstjórnarvaldi sínu.
     f.      Gerð þjóðhagsáætlana og rýni á stefnu stjórnvalda. Sett verði á laggirnar sjálfstæð stofnun – Þjóðhagsstofnun – sem afli þjóðhagslegra upplýsinga, láti þær í té og rýni stefnumótun hins opinbera. Tryggt verði að verkalýðshreyfingin eigi sæti í þjóðhagsráði og að ráðið fjalli bæði um efnahagslegan og félagslegan stöðugleika í álitsgerðum sínum.

Greinargerð.

    Meginmarkmið þessarar tillögu er að stjórnvöld efni til samráðs og móti aðgerðir til að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og félagslegum stöðugleika en hvor um sig er forsenda hins. Íslenskt efnahagslíf hefur einkennst og mótast af miklum sveiflum, m.a. sökum þess hve krónan hefur reynst óstöðugur gjaldmiðill og einnig vegna innri togstreitu í efnahagskerfinu sem birtist í misræmi milli markmiða ríkisfjármálastefnu og peningastefnu.
    Óstöðugleikinn og hinar miklu sveiflur hafa haft óheillavænleg áhrif á lífskjör almennings, ekki síst á kjör lágtekjufólks, en landsmenn hafa þurft að bera þungar byrðar sökum hárra vaxta, verðbólgu og tíðra gengissveiflna á síðustu áratugum. Áhrif framangreindra vankanta íslensks efnahagslífs hafa jafnvel orðið enn meiri en ella sökum þess að oft hefur verið brugðist við þeim með skammtímalausnum og lítt ígrunduðum áhlaupsaðgerðum í stað þess að fylgja langtímamarkmiðum. Þá hefur óstöðugleikinn leitt til höfrungahlaups í launaþróun sem viðheldur honum og eykur.
    Pólitísk átök um fyrirkomulag skattamála og reglulegar breytingar á skattastefnunni hafa orðið til þess að ríki og sveitarfélög skortir tekjur til að standa undir starfsemi sinni og byggja grunnstoðir samfélagsins upp til framtíðar. Óþörf ólga og óvissa fyrir atvinnulífið hefur og fylgt hinum öru stefnubreytingum og sama gegnir um einstaklinga og heimili.
    Átakalínur í stjórnmálum síðustu ára og áratuga hafa legið þar sem ágreiningur er mestur um skattlagningu og ráðstöfun á skattfé. Veikleikar skattastefnunnar sem fylgt var fyrir fjármálahrunið 2008 birtust skýrt í því að þegar á þurfti að halda hafði skattkerfið ekki burði til að takast á við tekjufallið sem varð við hrunið. Lágt skatthlutfall, flatir skattar og skattleysi fjármagns, auðs og nýtingar sameiginlegra auðlinda reyndist þjóðinni illa þegar á móti blés. Við því var brugðist og einhverjar umfangsmestu lagfæringar á skattkerfinu sem gerðar hafa verið hér á landi voru meðal endurreisnarverkefna ríkisstjórnarinnar sem tók við þrotabúi frjálshyggjunnar eftir hrunið. Breytingarnar miðuðust einkum við tvennt: að afla nauðsynlegra tekna og auka jöfnuð. Önnur markmið þeirra fólust í skattlagningu í þágu umhverfismála, m.a. með álögum á mengandi starfsemi, jarðefnaeldsneyti o.fl. Því miður hafa margar þessara ráðstafana verið teknar til baka með þeim afleiðingum að aftur hefur dregið úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins.
    Miklar verðsveiflur á íbúðarhúsnæði auk fyrirkomulags lána og verðtryggingar hefur ýmist gert það að verkum að eignarhlutur fólks í íbúðarhúsnæði sínu hefur rýrnað stórlega í sviptingum óstöðugleika og verðbólgu eða þá að húsnæðisverð hefur rokið upp með þeim afleiðingum að það hefur orðið utan seilingar fyrir ungt fólk og tekjulágt að festa kaup á íbúðarhúsnæði. Þannig er staðan nú eftir að 80 milljörðum kr. hefur verið varið af opinberu fé til að færa niður verðtryggð fasteignalán og gefinn er kostur á að nýta skattfrjálsan séreignarsparnað til kaupa á fyrstu fasteign. Hvort tveggja er dæmi um opinbera ráðstöfun í þágu hinna betur megandi og á sama tíma er í nýlega samþykktri fjármálaáætlun gert ráð fyrir minnkandi húsnæðisstuðningi hins opinbera og vaxtabætur hafa verið skertar svo um munar á undanförnum árum.
    Ljóst er að ærin þörf er fyrir breytt vinnubrögð, aukið samráð og þverpólitíska sýn til að koma á og tryggja þann efnahagslega og félagslega stöðugleika sem íslenskt samfélag þarf svo sannarlega á að halda.

Um a-lið, endurskoðun skattkerfisins.
    Þótt vissulega sé því svo farið að um fá málefni sé meiri ágreiningur en skattamál og því fari víðs fjarri að sátt ríki um þær skattkerfisbreytingar sem gerðar hafa verið á undanförnum árum telja flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu það þó tilraunarinnar virði að stefna saman fulltrúum ólíkra stjórnmálaafla og aðila vinnumarkaðarins til þess að freista þess að ná saman um meginþætti skattkerfisbreytinga og skattastefnu sem hefði það að markmiði að auka jöfnuð, tryggja nægjanlegar tekjur og draga úr þenslu. Að mati margra fræðimanna er skattkerfið einmitt langáhrifamesta tæki samfélagsins til að auka jöfnuð í samfélaginu og því er afar mikilvægt að því sé beitt á markvissan og skilvirkan hátt.
    Í nýrri skýrslu hagdeildar ASÍ, Skattbyrði launafólks 1998–2016, er að finna greinargóða lýsingu á því hvernig dregið hefur verið úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins á því tímabili sem skýrslan tekur til. Enn fremur er sýnt fram á að skattbyrði lágtekjufólks hefur aukist mest á tímabilinu og dregið hefur verið úr áhrifum vaxtabótakerfisins og barnabótakerfisins til tekjujöfnunar og stuðnings við efnaminni fjölskyldur.
    „Íslenska barnabótakerfið er veikt“ segir á bls. 3 í umræddri skýrslu hagdeildar ASÍ. Þessi einfalda en vel rökstudda niðurstaða lýsir bágbornu ástandi mikilvægs þáttar velferðarkerfisins og hlýtur að vekja fólk til umhugsunar um stöðu þess í heild og þá stefnu sem hefur valdið því að hlutskipti fátækra barna í íslensku samfélagi er svo bágt sem raun ber vitni.
    Jöfnuður er ekki aðeins réttlætismál heldur og mikilvægt hagstjórnarmarkmið. Í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar frá því í desember 2014 er vitnað til rannsókna sem sýna að aukinn ójöfnuður dregur úr hagvexti. Efnahagsstefna sem dregur úr ójöfnuði leiðir því ekki einungis til réttlátara þjóðfélags heldur verða þjóðfélögin einnig auðugri af efnalegum gæðum. Á vegum Cambridge-háskóla hafa einnig birst rannsóknir sem sýna m.a. að breska hagkerfið hefur vaxið hlutfallslega minna en það hefði ella gert vegna hagstjórnarstefnu nýfrjálshyggjunnar. Í stuttu máli sagt sýna þessar rannsóknir að meiri jöfnuður leiðir til sanngjarnari þjóðfélaga og styrkir hagkerfin.
    Á árunum fyrir efnahagshrunið jókst ójöfnuður í þjóðfélaginu en minnkaði í hruninu, bæði vegna þess að mikill auður tapaðist í hruninu en einnig vegna þess að aðgerðir síðustu ríkisstjórnar beindust að því að vernda þá sem lægri höfðu tekjurnar. Óháður sérfræðingur mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sem gerði úttekt á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun, OECD og fleiri aðilar hafa reyndar lofað það hvernig tókst að dreifa byrðum hrunsins með sanngjörnum hætti á Íslandi. Nú hefur sama þróun og var fyrir efnahagshrunið hins vegar hafist aftur og aðgerðir ríkisstjórnarinnar ýta undir þennan ójöfnuð.
    Mikill ójöfnuður kemur í ljós þegar hugað er að eignastöðu, en efnamestu tíu prósentin eiga um þrjá fjórðu af öllum eignum landsins. Þannig má segja að jöfnuðurinn sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka hafa hrósað sér af nái ekki til eignaskiptingarinnar, hvorki á Íslandi né annars staðar á Vesturlöndum og í hverju er hann þá eiginlega fólginn? Í þessu samhengi hefur verið bent á mikilvægi auðlegðarskatts og þrepaskipts fjármagnstekjuskatts til að lagfæra þá stöðu sem uppi er.
    Slíkar aðgerðir auka að sjálfsögðu jöfnuð en eru líka mikilvæg tekjuöflun til að styrkja innviði samfélagsins. Til að þessi uppbygging geti farið fram með efnahagslega ábyrgum hætti er mikilvægt að styrkja tekjustofna ríkisins til frambúðar. Réttlátasta leiðin til þess er að skattleggja fjármagnið þar sem það er að finna.
    Slík skattlagning dregur enn fremur úr peningamagni í umferð og getur þar með nýst til að slá á þenslu sem er orðin verulegt áhyggjuefni. Það væri í samræmi við ráðleggingar Seðlabankans sem hefur ítrekað bent á að ríkisfjármálastefnan þurfi að styðja við peningamálastefnuna. Skattalækkanir hafa þar verið nefndar sérstaklega sem aðgerð sem þjónar öfugum tilgangi, þ.e. eykur þenslu fremur en hitt.
    Þá þarf samhliða þessari vinnu að fara yfir kerfi vaxtabóta og barnabóta og tryggja að þessi stuðningur hins opinbera við fjölskyldurnar í landinu nýtist fleirum en nú er, bæði lág- og millitekjuhópum.
    Að lokum þarf að skoða hvernig þróa á skatta með önnur samfélagsleg markmið að leiðarljósi en aukinn jöfnuð. Þar ber fyrst að nefna græna skatta sem þjóna yfirlýstum markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum. Kolefnisgjald var innleitt eftir hrun en það þarf að hækka verulega svo að það hafi raunveruleg áhrif til að draga úr losun. Sama má segja um ýmsa aðra græna skatta. Þá liggur fyrir að svokallaðir lýðheilsuskattar geta haft raunveruleg forvarnaáhrif og þar þarf að móta stefnu til framtíðar.

Um b-lið, samráð á vinnumarkaði.
    Lagt er til að efnt verði til víðtæks samráðs hins opinbera við aðila vinnumarkaðarins og aðra aðila, sem efni standa til, um málefni vinnumarkaðarins og hvernig tryggja megi stöðugleika á vinnumarkaði, eðlilegt launabil á opinberum og almennum vinnumarkaði og eðlilegt samspil milli launa á vinnumarkaði og þeirra tekna sem öryrkjar, aldraðir, stúdentar og fólk á atvinnuleysisbótum hefur úr að spila.
    Sömuleiðis þarf að stefna að pólitískri sátt um það hvaða þjónustu íslenskur almenningur eigi að fá fyrir skattana sína á sviði menntunar, heilbrigðisþjónustu og almennra velferðarmála. Sátt um uppbyggingu velferðarsamfélagsins þarf að vera í samræmi við sátt um það hvernig eigi að ákvarða laun til framtíðar. Sú sátt hlýtur líka að byggjast á aðgerðum varðandi bætt kjör launafólks á Íslandi þegar kemur að aðbúnaði og umgjörð vinnumarkaðarins. M.a. þarf að ráðast í markvissar aðgerðir til að efla bæði skattaeftirlit og vinnueftirlit. Þannig yrði spornað gegn launastuldi og markvisst barist gegn mansali og þrælahaldi sem er svartur blettur á íslenskum vinnumarkaði. Enn fremur er ástæða til að ráðast í aðgerðir til að bæta öryggi á íslenskum vinnustöðum. Efla þarf þær stofnanir sem sinna þessum þáttum. Taka þarf á félagslegum undirboðum í samráði við stéttarfélög. Innleiða þarf keðjuábyrgð í öllum atvinnugreinum og innleiða raunverulega samfélagslega ábyrgð í opinberum innkaupum. Skilgreina þarf ásættanlegan launamun í samfélaginu og innan hvers vinnustaðar og skilgreina ákveðna grunnframfærslu sem sé eðlilegt viðmið fyrir þá hópa sem ekki geta tekið þátt á vinnumarkaði, t.d. aldraða og öryrkja. Þá er eðlilegt að grunnframfærsla stúdenta og atvinnulausra taki mið af slíkri skilgreiningu. Skoða þarf hvort unnt sé að skylda fyrirtæki til að upplýsa um launabil innan hvers fyrirtækis í ársreikningum. Slíkar aðgerðir, ásamt skýrri framtíðarsýn um skattkerfið og velferðarsamfélagið, eru grundvöllur þess að unnt verði að ná stöðugleika á vinnumarkaði og skapa almenna sátt um eðlilega launaþróun í landinu.

Um c-lið, endurmótun fjármálakerfisins.
    Mjög hefur verið kallað eftir þverpólitískri faglegri vinnu að framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið áður en teknar verði frekari ákvarðanir um sölu ríkisbanka. Fjármála- og efnahagsráðherra brást við því ákalli að hluta með því að skipa sérfræðingahóp sem á að fjalla um starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Mun umfangsmeiri vinnu er þó þörf. Fjalla þarf um umfang bankakerfisins og hvort setja eigi reglur um aðskilnað innlendrar og erlendrar starfsemi bankanna.
    Setja þarf eðlilegar reglur um eignarhald og skoða t.d. hvernig sé hægt að tryggja að íslensk fjármálafyrirtæki séu ekki í eigu aflandsfélaga í skattaskjólum. Fjalla þarf um hvort reglur um eiginfjárhlutfall dugi til á íslenskum markaði og marka stefnu um hvernig eigi að bregðast við aukinni skuggabankastarfsemi á íslenskum fjármálamarkaði. Ræða þarf hver eigi að vera hlutur og þátttaka ríkisins á fjármálamarkaði þar sem eðlilegt er að ríkið fari með eignarhald á einhverjum hluta bankakerfisins. Setja þarf lagaumgjörð um starfsemi samfélagsbanka.

Um d-lið, húsnæðismál og húsnæðisstuðning.
    Bregðast verður við því neyðarástandi sem skapast hefur á húsnæðismarkaði þar sem framboð hefur ekki fylgt eftirspurn. Þessa verður mjög vart á höfuðborgarsvæðinu, en ekki síður víða annars staðar á landinu þar sem byggingarkostnaður hefur reynst íþyngjandi miðað við möguleika á lánsfé. Skoða þarf til hlítar hvort rétt er að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs þannig að húsnæðisverð og þróun þess hafi ekki ráðandi áhrif á verðbólgumælingar. Tryggja þarf að alþjóðasamningum þar sem húsnæði er skilgreint sem mannréttindi verði framfylgt og innleidd verði í lög kæruleið til að fylgja því eftir að þessar skuldbindingar séu virtar.
    Fara þarf heildstætt yfir húsnæðisstuðningskerfi hins opinbera sem eru mörg og ólík og meta hvert eigi að stefna til framtíðar þannig að húsnæðisstuðningur hins opinbera verði efldur og nýtist fyrst og fremst lág- og meðaltekjuhópum.

Um e-lið, endurskoðun laga um opinber fjármál.
    Frá því að lög um opinber fjármál voru samþykkt árið 2015 hefur það verið gagnrýnt bæði á vettvangi Alþingis og af ýmsum sérfræðingum að svigrúmi við beitingu ríkisfjármála til skynsamlegrar hagstjórnar og sveiflujöfnunar séu settar of þröngar skorður. Eðlilegra væri að setja þess í stað ákvæði um að hver ríkisstjórn skuli í upphafi starfstíma síns setja fram markmið í þessum efnum í fjármálaáætlun.
    Hagstjórnarreglur núverandi laga um opinber fjármál ganga í raun lengra en svokölluð Maastricht-viðmið og fyrir þeim eru ekki haldbær rök. Þannig getur of hröð og mikil niðurgreiðsla skulda verið beinlínis skaðleg fyrir mikilvæga samfélagsinnviði, svo sem heilbrigðis- og menntakerfi. Krafan um hallalaust fimm ára tímabil getur einnig hindrað virka efnahagsstjórn og tryggir ekki jafnvægi og getur jafnvel verið til hindrunar því að jafnvægi náist. Á samdráttarskeiði getur reglan til að mynda hindrað virka beitingu ríkisfjármála til að örva atvinnulíf. Fimm ára viðmið er of stuttur tími þar sem hagsveiflan getur verið mun lengri og samdráttarskeið kann enn að vera til staðar þótt fjármálareglan krefjist aðhaldsaðgerða sem gangi gegn ríkjandi ástandi og auki því samdráttinn. Þá er árlegt 2,5% hallamark órökstutt.
    Í heild hefur verið bent á að fjármálareglur laga um opinber fjármál leggi ekkert til stjórnar efnahagsmála á þenslutíma eða í aðdraganda ójafnvægis, en geti verið til óþurftar við að vinna á afleiðingum á samdráttartíma sem fylgi í kjölfarið. Þá hefur við innleiðingu laga um opinber fjármál komið á daginn að stöðu Alþingis þarf að styrkja eigi þingið að geta staðið við stjórnarskrárbundið hlutverk sitt hvað varðar fjárstjórnarvaldið. Margar ákvarðanir koma nú lengur ekki til atkvæða á Alþingi heldur eru þær afgreiddar inni í ráðuneytum og birtast eingöngu á Alþingi sem orðinn hlutur í fylgiskjali. Þetta er óviðunandi og andlýðræðislegt.

Um f-lið, gerð þjóðhagsáætlana og rýni á stefnu stjórnvalda.
    Ljóst má vera að stefnumótun hins opinbera líður oft og iðulega fyrir að greiningar skortir. Því er lagt til að sett verði á laggirnar sjálfstæð þjóðhagsstofnun sem annist slíkar greiningar og tryggt verði að verkalýðshreyfingin eigi sæti í þjóðhagsráði sem fjalli bæði um efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.

Að lokum.
    Hvað eftir annað hefur verið bent á það í framanrituðu að þeir þættir íslenskrar samfélagsskipunar sem stuðla að jöfnuði meðal landsmanna og velferð þeirra hafa verið illa ræktir með þeim afleiðingum að ójöfnuður hefur aukist og álögur þyngst á þá landsmenn sem lakast eru settir í efnalegu tilliti. Mikilvægt er að þessari öfugþróun verði snúið við. Til þess að svo megi verða er þörf fyrir víðtæka samvinnu og hreinskiptna umræðu um markmið og gildi.