Ferill 7. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 7  —  7. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, nr. 111/2016 (tímabundin rýmkun gildissviðs).

Flm.: Elsa Lára Arnardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þórunn Egilsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Lilja Alfreðsdóttir.


1. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ákvæði laga þessara skulu til ársloka 2020 gilda, eftir því sem við getur átt, um kaup á fyrstu íbúð sem rétthafi eignast eftir 6. október 2008 hafi hann átt íbúð 6. október 2008 en misst hana vegna fullnustugerðar eða annars þvingunarúrræðis eða sannanlega þurft að selja hana til að standa í fullum skilum á greiðslu skulda.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

     Þann 16. maí 2014 voru samþykkt lög um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, nr. 40/2014. Þau veittu tímabundna heimild til að ráðstafa séreignarsparnaði inn á lán sem tekin voru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota og til kaupa á íbúð til eigin nota. Lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, nr. 111/2016, festu í sessi rétt fólks til að nýta séreignarsparnað til að greiða niður lán með veði í fyrstu íbúð eða til kaupa á fyrstu íbúð. Úrræðin hafa nýst vel og sérstaklega auðveldað ungu fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis.
    Margt fólk sem missti íbúðir sínar í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 hefur enn ekki getað aflað sér nýs húsnæðis og síðan þurft að leigja sér íbúð. Bent hefur verið á að auðvelda mætti hluta þess hóps að eignast eigið húsnæði að nýju með tímabundinni rýmkun á gildissviði laga nr. 111/2016. Brugðist var við þeim sjónarmiðum að nokkru leyti í nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um 553. mál á 146. löggjafarþingi. Þar var því beint til fjármála- og efnahagsráðherra að taka til nánari skoðunar hugmyndir um að láta lögin ná til kaupa einstaklinga sem misst hefðu fasteign við nauðungarsölu vegna bankahrunsins á nýrri fasteign og leggja frumvarp um það efni fyrir Alþingi fyrir árslok 2017.
    Frumvarp þetta er nokkuð víðtækara. Gert er ráð fyrir að lögin taki ekki aðeins til þeirra sem misst hafa íbúð sína við nauðungarsölu heldur einnig við annars konar fullnustugerðir og þvingunarúrræði og þeirra sem hafa sannanlega þurft að selja íbúð sína til
að standa í fullum skilum á greiðslu skulda. Það ætti t.d. við um þá sem hafa selt íbúð sína til samræmis við tilmæli umsjónarmanns við greiðsluaðlögun á grundvelli 13. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010. Rétthafi gæti þó einnig sýnt með öðrum hætti að hann hafi þurft að selja íbúð sína til að standa í skilum, t.d. með framlagningu fjárhagsupplýsinga sem sýna að tekjur hans hefðu ekki dugað til að standa undir greiðslu skulda. Ætla má að með þessu móti megi auðvelda nokkuð stærri hópi fólks að eignast eigið húsnæði að nýju.