Ferill 15. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 15  —  15. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um viðbrögð við nýrri tæknibyltingu.


Flm.: Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Guðjón S. Brjánsson.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að stofna starfshóp skipaðan fulltrúum þingflokka, háskólasamfélagsins, atvinnulífsins og stéttarfélaga. Starfshópurinn meti heildræn áhrif á íslenskt samfélag vegna komandi samfélagsbreytinga af völdum tæknibyltingar, sjálfvirknivæðingar, gervigreindar og fyrirsjáanlegrar fækkunar starfa og breytinga á þeim. Starfshópurinn vinni skýrslu og leggi þar drög að viðbragðsáætlun vegna þessa. Forsætisráðherra skili Alþingi skýrslu um niðurstöður starfshópsins eigi síðar en við upphaf 148. löggjafarþings.

Greinargerð.

    Samfélag okkar stendur frammi fyrir gríðarlegri tæknibyltingu sem mun gjörbreyta þjóðfélaginu. Áætlað er að innan 20 ára sjálfvirknivæðist t.d. um helmingur allra starfsgreina í Bandaríkjunum. Gera má ráð fyrir að þróunin verði svipuð á Íslandi. Þessi þróun er ný iðnbylting sem hefur ófyrirséðar afleiðingar á samfélagið.
    Með iðnbyltingunni á 19. öld urðu gríðarlegar breytingar. Fram á sjónarsviðið komu vélar sem leystu vöðvaaflið af hólmi. Mörg störf hurfu og ný urðu til, mestmegnis í borgum sem ýtti undir gríðarlegan vöxt þeirra. Í Bandaríkjunum voru t.d. árið 1900 um 42% allra starfa í sveitum en nú eru þau einungis 2%. Samfélag þess tíma brást við þessum breytingum með margvíslegum hætti. Þær leiddu til almennari menntunar, fyrst á grunnskólastigi en síðar á efri stigum menntakerfisins.
    Nýja iðnbyltingin er að því leyti frábrugðin að nú kemur tæknin ekki eingöngu í stað vöðvaafls heldur líka hugarafls að einhverju marki. Gervigreindin gefur vélum t.d. áður óþekkta hæfni. Skýrt dæmi eru sjálfkeyrandi bílar. Nýja iðnbyltingin verður öðruvísi vegna þess að vélar eru farnar að hlusta, tala og skilja. Vélarnar þurfa enga stjórn frá mönnum til að leysa flókin og margbreytileg verkefni og störf sem bæði háskólamenntaðir og ómenntaðir sinna í dag. Þótt tæknin hafi verið í stöðugri þróun er ýmislegt sem bendir til þess að í hinum stafræna, vel tengda heimi verði þessar breytingar á ógnarhraða og umfangsmeiri en áður þekkist. Jafnframt má gera ráð fyrir að innan fárra áratuga verði þátttaka mannsins í samfélaginu allt öðruvísi en þekkst hefur hingað til.

Tækifæri.
    Mikil tækifæri felast í sjálfvirknivæðingu og gervigreind. Framleiðni getur aukist gríðarlega en það er nauðsynlegt til að takast á við áskoranir tengdar breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og hærri lífaldri. Þessi nýi veruleiki gefur okkur líka tækifæri til meiri samskipta við vini og fjölskyldu og auknar frístundir og í honum felast líka möguleikar til vistvænnar framleiðslu og viðbragða við loftlagsvánni sem við stöndum frammi fyrir.

Mætum ógnunum með menntun og sanngjarnri skiptingu ábatans.
    Tækifærunum fylgja líka ógnir ef ekki er rétt haldið á spilunum. Um leið og mörg hefðbundin störf tapast verða önnur ný til. OECD áætlar að 10% allra starfa tapist á næstu árum og önnur 25% breytist mikið. 1 Samkvæmt rannsóknum sem Oxford háskóli birtir tapast allt að helmingur allra starfa. 2 Stjórnvöld verða að bregðast við þessum veruleika. Skoða þarf sérstaklega þátt menntunar í undirbúningi þessarar framtíðar. Freista verður þess að spá fyrir um hvernig störf eru líkleg til að úreldast, hvers konar störf verða áfram unnin af mönnum og hvaða tegund nýrra starfa skapast, svo og hvernig hægt er að gera menntakerfinu kleift að fást við þetta mikilvæga viðfangsefni. Ef við viljum að á Íslandi sé áfram mikil atvinnuþátttaka felst lausnin tæplega í því að viðhalda störfum 20. aldarinnar heldur miklu fremur að fjárfesta í menntastefnu sem styðji við þennan nýja veruleika. Þar þarf að huga sérstaklega að undirbúningi fyrir störf sem eru líkleg til að verða áfram unnin af mönnum. Þar má nefna störf sem krefjast góðrar samskiptahæfni, svo sem í þjónustu, umönnun og kennslu. Þá þarf að leggja áherslu á að auka tölvufærni og tækninám, örva skapandi hugsun og efla hefðbundið listnám. Þróa þarf virkari símenntunarúrræði til að mæta þeim sem þegar hafa menntað sig en þurfa að horfast í augu við breytingar á stöðu sinni vegna nýrra atvinnuhátta. Leggja þarf áherslu á að hið opinbera safni upplýsingum og meti í samstarfi við hagsmunaaðila á vinnumarkaði hvaða færni er mikilvæg fyrir þróun atvinnulífsins til þess að það geti boðið fólki vellaunaða vinnu. Þróun menntakerfis verður að taka mið af þessari vinnu.
    Nýja iðnbyltingin getur leitt til þess að valdið færist frá vinnuaflinu til fjármagnsins, að ágóðinn af tækniþróuninni verði eftir hjá fyrirtækjunum og að kjör og aðstæður almennings batni ekki í sama mæli. Aukin velmegun og völd fyrirtækja mega ekki draga úr möguleikum stjórnvalda til að tryggja bæði efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Þó að mjög langt sé í það að vélar leysi öll störf mannsins af hólmi þarf að skoða vel leiðir til þess að tryggja lífsafkomu einstaklinga ef vinnuframlag þeirra minnkar til muna. Fara þarf vel yfir allar hugmyndir, t.d. breytingar á núverandi velferðar- og skattkerfi, styttingu vinnuvikunnar, borgaralaun og margar fleiri.
    Í hinum nýja veruleika er öruggt að starfsvettvangur margra fyrirtækja verður með allt öðru sniði en hefur verið algengast. Þar verða störf ekki endilega tengd stað eða stund og víst að viðskipti milli landa aukast samhliða. Því er mikilvægt að nefndin skoði sérstaklega hvers konar viðskiptasamningar, peninga- og gjaldmiðlastefna nýtast Íslandi best til þess að takast á við nýjan veruleika.

Efnahagsumhverfi og alþjóðastjórnmál.
    Ísland þarf að vera tilbúið til þess að beita sér á alþjóðlegum vettvangi til þess að tryggja að stjórnvöld um allan heim verði tilbúin til þess að mæta þeim áskorunum sem bíða. Skoða þarf sérstaklega tækifærin sem felast í því að vinna í samstarfi við önnur ríki Norðurlanda til að ágóða tæknibreytinganna verði skipt með sanngjörnum hætti. Minnug þess að áhersla þeirra á jöfnuð og öflugt atvinnulíf hefur gert þau að 11. stærsta hagkerfi heims þótt íbúarnir séu aðeins 27 milljónir eða sem samsvarar því að vera 49. fjölmennasta land í heimi.
    Norðurlöndin hafa strax hafið undirbúning. Svokallað framtíðarráð starfaði á vegum sænsku ríkisstjórnarinnar sem var ætlað að huga að langtímastefnumörkun til að fást við framtíðaráskoranir. Í því sátu ráðherrar og fulltrúar félagasamtaka. Í Noregi hefur ríkisstjórnin gefið út hvítbók um iðnstefnu í fyrsta sinn síðan árið 1981. Þar eru rædd viðbrögð við aukinni sjálfvæðingu í iðnaði og atvinnulífinu og hvaða áhrif hún hafi á störf.
    Alþingismenn og ríkisstjórnir í hinum vestræna heimi hafa látið þessi mál sig varða á síðustu árum. Í Bretlandi er þingmannanefnd að störfum um 4. iðnbyltinguna. Í Kanada samþykkti þingið nú í sumar áætlun um nýsköpun og færni. Áætlunin fjallar um áhrif tæknibreytinga á einstaklinga og hvernig stjórnvöld hyggjast gera Kanada að leiðandi afli í nýsköpun (þ.m.t. gervigreind) og á sama tíma fjárfesta í menntun með það að markmiði að skapa störf sem leiði til stækkunar millistéttarinnar.
    Í forsetatíð Obama í Bandaríkjunum gaf Hvíta húsið út skýrslu árið 2016 um gervigreind, sjálfvæðingu og efnahagslífið. Viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Trump sagði að gervigreind hefði ekki mikil áhrif á störf næstu 50–100 árin. Nú í vor stofnuðu þingmenn á Bandaríkjaþingi þverpólitískan þingmannahóp til þess að fjalla um málefni tengd gervigreind.
    Nú er tímbært að íslenskir stjórnmálamenn láti sig þessi mál meira varða og stofni formlegan vettvang til að ræða þessa hröðu þróun sem á eftir að hafa víðtækar samfélagsbreytingar í för með sér.
1     www.oecd.org/els/emp/Policy%20brief%20-%20Automation%20and%20Independent%20Work%20in%20a%20Digital%20Economy.pdf
2     www.oxfordmartin.ox.ac.uk/downloads/academic/The_Future_of_Employment.pdf