Ferill 18. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 18  —  18. mál.




Beiðni um skýrslu


frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um þolmörk í ferðaþjónustu.


Frá Ara Trausta Guðmundssyni, Steinunni Þóru Árnadóttur, Andrési Inga Jónssyni, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Rósu Björk Brynjólfsdóttur, Kolbeini Óttarssyni Proppé, Katrínu Jakobsdóttur, Steingrími J. Sigfússyni, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur og Svandísi Svavarsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra flytji Alþingi skýrslu um þolmörk í ferðaþjónustu þar sem m.a. verði fjallað um:
     a.      þróunarhorfur með tilliti til umfangs ferðaþjónustunnar og fjölda ferðamanna,
     b.      hugtakið þolmörk í samhengi við viðmiðanir um sjálfbærni og sjálfbærnimarkmið ferðaþjónustunnar,
     c.      helstu álagsstaði og tegundir álags á umhverfi, samfélag, innviði og upplifun,
     d.      helstu áhrif og afleiðingar vaxtar ferðaþjónustunnar á atvinnu- og efnahagsmál,
     e.      leiðir og aðferðir til að stýra fjölda, aðgengi og dreifingu ferðamanna,
     f.      fýsileika þess að gerð verði áætlun á landsvísu – landnýtingaráætlun – um þróun ferðaþjónustu og ferðamennsku á landsvísu með tilliti til þolmarka og sjónarmiða um sjálfbæra ferðaþjónustu.

Greinargerð.

    Þessari skýrslubeiðni var beint til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á 146. löggjafarþingi (420. mál). Þar sem skýrsla barst ekki þá er beiðnin lögð fram að nýju af sömu flutningsmönnum.
    Ekki þarf að orðlengja um það hve mjög ferðamönnum hefur fjölgað hér á landi á undanförnum árum. Breytingin var snögg og afgerandi, sem sjá má af því að árið 2011 voru brottfarir farþega frá Keflavíkurflugvelli 540.824 en árið 2016 urðu þær 1.767.726 samkvæmt upplýsingum á vefsvæði Ferðamálastofu. Vöxturinn á þessu fimm ára tímabili er 227% sem hlýtur í öllu tilliti að teljast ærið mikið.
    Hagræn áhrif hins mikla og öra vaxtar ferðaþjónustunnar hafa að sjálfsögðu verið víðtæk og gætir þeirra víðast hvar í samfélaginu með beinum eða óbeinum hætti. Ferðamálastofa tekur saman ítarlegar upplýsingar um fjölmargt sem varðar ferðaþjónustuna í árlegu riti, Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum, sem er aðgengilegt á vefsvæði Ferðamálastofu 1 og er þar að finna ágæta vitneskju og vísbendingar um margt sem varðar ferðaþjónustuna og áhrif hennar á íslenskt samfélag.
    Ætla má að allgóð vitneskja liggi fyrir um hagræn áhrif ferðaþjónustunnar og þýðingu hennar fyrir hagkerfið og afkomu Íslendinga en hið sama verður ekki sagt um áhrif ferðaþjónustunnar á náttúru landsins almennt og eftirsóttustu ferðamannastaðina sérstaklega. Skýtur þar allverulega skökku við þar sem enginn vafi leikur á því að íslensk náttúra er meginástæða fyrir hingaðkomu flestra hinna erlendu ferðamanna sem sækja landið heim. Þetta sýna niðurstöður kannana sem Ferðamálastofa hefur gert meðal erlendra ferðamanna á undanförnum árum ótvírætt. Enn fremur er margt ókannað þegar kemur að samfélagslegum áhrifum ferðaþjónustunnar vítt og breitt um landið.
    Stjórnmálaflokkar á Alþingi hafa ekki allir mótað sér sérstaka stefnu í málefnum ferðaþjónustunnar þótt hér sé um að ræða stærstu útflutningsgrein landsins. Það hefur Vinstrihreyfingin – grænt framboð þó gert og segir í upphafsorðum þeirra stefnu að „… ferðaþjónustuna verður að skipuleggja og reka í anda sjálfbærrar þróunar og út frá viðmiðum þolmarkarannsókna á náttúru, samfélagi og innviðum og með hliðsjón af hættum og mögulegum hamförum. Með öflugum rannsóknum getur „græn ferðaþjónusta“ af því tagi orðið að blómlegri atvinnugrein til frambúðar án þess að náttúra og samfélag hljóti skaða af“.
    Mikilvægt er að Alþingi leggi skýrar línur um framtíð ferðaþjónustunnar og byggi þær á bestu mögulegu gögnum og rannsóknum. Þessi skýrslubeiðni, sem hér er lögð fram, er innlegg í þá vinnu og stafar af því að fjöldi dómbærra aðila hefur lýst áhyggjum af því að tilteknir vinsælir ferðamannastaðir kunni að vera í hættu vegna of mikils átroðnings eða ófullnægjandi viðbúnaðar og aðstöðu til að taka á móti ferðafólki og að sjónarmið um sjálfbæra ferðaþjónustu séu fyrir borð borin. Þá er einnig tekið að bera á óþoli heimamanna vegna álags af völdum ferðaþjónustu og erfitt getur reynst að manna ýmis störf sem fyrir eru. Ástæða er til að ætla að sums staðar sé þolmörkum þegar náð í ferðaþjónustu og ásóknin í vinsæla ferðamannastaði jafnvel orðin meiri en þeir geta borið. Sjálfbærni er þá ekki fyrir að fara, hvorki í náttúrufarslegum né samfélagslegum skilningi. Mikilvægt er að aflað verði upplýsinga um þetta þar sem þær kann að vanta og unnið úr þeirri vitneskju sem þegar liggur fyrir þannig að unnt verði að meta þörfina fyrir aðgerðir og skipuleggja þær. Þannig ætti skýrslubeiðnin að verða til þess að kalla fram úttekt á málefni sem brýnt er af mörgum ástæðum að verði tekið til athugunar og skapa grundvöll fyrir haldbærum og markvissum aðgerðum af hálfu stjórnvalda til úrbóta þar sem þeirra er þörf.

1     www.ferdamalastofa.is/is/tolur-og-utgafur/ferdtjonusta-i-tolum