Ferill 21. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 21  —  21. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda (afnám verðtryggingar lána til neytenda).

Flm.: Elsa Lára Arnardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson.


I. KAFLI
Breyting á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
1. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er þó að verðtryggja neytendalán og fasteignalán til neytenda.

II. KAFLI
Breyting á lögum um neytendalán, nr. 33/2013.
2. gr.

    1. tölul. 1. mgr. 25. gr. laganna fellur brott.

III. KAFLI
Breyting á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016.
3. gr.

    1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að afnumin verði heimild til að verðtryggja neytendalán og fasteignalán til neytenda frá 1. janúar 2020. Með neytendalánum er átt við lánssamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur, sbr. lög um neytendalán, nr. 33/2013. Með fasteignalánum til neytenda er átt við samninga um fasteignalán sem lánveitandi eða lánamiðlari kynnir eða gerir í atvinnuskyni við neytendur, sbr. lög um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016.
    Einnig er lagt til að felld verði brott skylda lánveitenda og lánamiðlara skv. 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. laga um neytendalán og 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um fasteignalán til neytenda til að veita neytanda upplýsingar um sögulega þróun verðlags og áhrif þróunar verðlags á höfuðstól og greiðslubyrði ef lán er verðtryggt áður en lánssamningur er gerður enda verður slík lánveiting óheimil.
    Frumvarpið er lagt fram m.a. vegna ábendinga í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um tillögu til þingsályktunar um upptöku samræmdrar vísitölu neysluverðs sem lögð var fram á 146. löggjafarþingi (58. mál).