Ferill 25. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 25  —  25. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum (réttur barna til dvalarleyfis).

Flm.: Pawel Bartoszek.


1. gr.


    1. mgr. 71. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að veita barni yngra en 18 ára dvalarleyfi ef foreldri þess hefur dvalarleyfi á grundvelli 58., 61.–63., 65.–67., 70., 73.–76. eða 78. gr.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2018.

Greinargerð.

    Markmiðið með frumvarpi þessu er að styrkja rétt barna sem eiga foreldra frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins til að fylgja foreldrum sínum til Íslands.
    Samkvæmt gildandi lögum um útlendinga, nr. 80/2016, er heimilt að gefa út dvalarleyfi fyrir börn ef foreldrar hafa dvalarleyfi á grundvelli eftirfarandi lagagreina: 58. gr. (ótímabundið leyfi), 61. gr. (sérfræðingar), 63. gr. (íþróttafólk), 70. gr. (hjúskapur eða sambúð), 73. gr. (alþjóðleg vernd), 74. gr. (mannúðarsjónarmið) og 78. gr. (sérstök tengsl við landið).
    Inn í upptalninguna vantar nokkra flokka dvalarleyfa sem gjarnan eru undanfari lengri dvalar sem að mati flutningsmanns ættu að veita rétt til fjölskyldusameiningar þegar um ólögráða börn er að ræða.
    Í fyrsta lagi er lagt til að dvalarleyfi vegna tímabundins skorts á starfsfólki (62. gr.) veiti framvegis rétt til að taka börn með sér til landsins. Rétt er að geta þess að umrætt dvalarleyfi getur nú, frá árinu 2016, verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis en er eina slíka leyfið sem ekki veitir börnum foreldra með slík leyfi rétt til að búa í landinu.
    Í öðru lagi er lagt til að dvalarleyfi vegna náms (65. gr.) veiti umræddan rétt einnig, án undantekninga. Í dag takmarkast sá réttur við börn námsmanna í framhaldsnámi. Það verður ekki séð hvers vegna nauðsynlegt sé að meina námsmönnum í grunnnámi að koma með börn sín til landsins og láta foreldra þá velja milli þess að sleppa því að koma eða skilja þau eftir í umsjá annarra.
    Í þriðja lagi þykja svipuð rök hníga að því að leyfa barni að fylgja foreldri þegar um er að ræða dvalarleyfi á grundvelli samnings við önnur ríki (66. gr.). Hér er um að ræða dvalarleyfi sem veitt eru ungu fólki á aldrinum 18–26 ára til að koma til Íslands og kynnast landi og menningu. Afleiðing gildandi laga er að ungir foreldrar og t.d. einstæðir foreldrar geta ekki nýtt sér umræddan dvalarleyfisflokk.
    Loks er lagt til að dvalarleyfi vegna trúboða og sjálfboðaliða (67. gr.) veiti einnig rétt samkvæmt framangreindu sem og dvalarleyfi fyrir hugsanleg fórnarlömb mansals (75. gr.) og dvalarleyfi fyrir fórnarlömb mansals (76. gr.).
    Verði frumvarpið að lögum er áfram gert ráð fyrir að dvalarleyfi útsendra starfsmanna, dvalarleyfi vegna vistráðningar sem og dvalarleyfi vegna sérstaks og lögmæts tilgangs eða bráðabirgðarleyfi veiti börnum foreldra með slík leyfi ekki rétt til að fylgja foreldrum sínum til landsins. Þar er í flestum tilfellum um að ræða leyfi sem sannarlega eru ætluð til tímabundinnar dvalar. Vel má þó vera að þau rök sem lúta að réttindum barna eigi einnig við í þeim tilfellum, hins vegar þykja þær breytingar sem hér eru lagðar til ganga hæfilega langt.