Ferill 41. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 41  —  41. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um endurskoðun á beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar.


Flm.: Andrés Ingi Jónsson.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að endurskoða beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar þannig að tryggt sé að umsækjendur um alþjóðlega vernd séu aldrei sendir til baka til Evrópuríkja sem eru ófær um að veita þeim sanngjarna efnismeðferð, m.a. með því að setja reglugerð um framkvæmd 36. gr. laga um útlendinga. Þar til niðurstaða þessarar vinnu liggur fyrir gefi ráðherra stofnunum sínum fyrirmæli um að ekki verði beitt endursendingum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Greinargerð.

    Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að dómsmálaráðherra endurskoði verkferla um meðferð umsókna einstaklinga um alþjóðlega vernd. Allt of oft berast fréttir af málefnum einstaklinga í viðkvæmri stöðu sem hafa ekki einungis hrakist á flótta frá heimalandi sínu heldur og þurft að flýja óviðunandi og jafnvel ómanneskjulegar aðstæður í þeim ríkjum þar sem þeir hafa leitað hælis.
    Þó að Dyflinnarreglugerðin feli einungis í sér heimild til endursendingar á hælisleitendum en ekki skyldu, þá virðist framkvæmdin ekki endurspegla það. Hugtök eins og „örugg upprunaríki“ og „tilhæfulausar umsóknir“ eru í meira lagi vafasöm og byggjast oft ekki á traustum grunni, sérstaklega þegar kemur að málefnum ýmissa minnihlutahópa í þeim löndum sem um ræðir. Hætt er við að skírskotun til slíkra hugtaka sé notuð til að senda fólk af landi brott án viðhlítandi málsmeðferðar.