Ferill 42. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 42  —  42. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um hagvísa menningar og skapandi greina.


Flm.: Katrín Jakobsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að gera áætlun um gerð hagvísa menningar og skapandi greina og hrinda henni í framkvæmd eigi síðar en 1. desember 2018.

Greinargerð.

    Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að hafin verði gerð og útgáfa hagvísa fyrir menningu og skapandi greinar. Slíkt talnaefni er tekið saman og birt mjög víða erlendis, þar á meðal í nágrannalöndunum, til að svara þörf fyrir upplýsingar um umfang menningar og skapandi greina í samfélaginu, efnahagslegt gildi slíkrar starfsemi og þýðingu hennar fyrir þjóðarhag.
    Menning, listir og sköpun hafa að sjálfsögðu gildi í sjálfu sér og gera að verkum að einstaklingar og samfélög leggja rækt við menningarstarfsemi, njóta hennar og nýta á ýmsan hátt sem ekki verður mældur, veginn eða metinn til fjár. Hagvísum fyrir menningu og skapandi greinar er hvorki ætlað að mæla eða vega þann óefnislega auð sem felst í menningu, menntun og listfengi Íslendinga né unað og lífsfyllingu sem listir og listsköpun veita þeim sem njóta þeirra. Menning og skapandi greinar hafa einnig mikla efnahagslega þýðingu sem nýtur sífellt meiri athygli og viðurkenningar og það er á þessu sviði sem gildi hagvísa, sem gerðir eru samkvæmt viðurkenndum aðferðum lýsandi tölfræði, er mikið og ótvírætt.
    Verkefnið sem hér er lagt til að verði ráðist í felst í grófum dráttum í því að skapa sérstakan vettvang fyrir birtingu hagvísa um menningu og skapandi greinar, þróa aðferðir við söfnun og framsetningu þess háttar upplýsinga og leggja drög að samfellu í miðlun þeirra þannig að hagvísarnir verði uppfærðir eins og tilefni eru til. Áreiðanleg og samanburðarhæf talnagögn eru mikilvæg forsenda málefnalegrar umfjöllunar um hlut menningarstarfsemi og skapandi greina í efnahagslífinu, við mótun menningarstefnu og ýmsa aðra stefnumörkun og ákvarðanatöku, svo sem um fjárfestingu og úthlutun opinbers fjár, skattastefnu, atvinnustefnu og atvinnustarfsemi, auk margs annars.
    Notagildi hagvísa fyrir menningu og skapandi greinar er fjölþætt og þeir kæmu mörgum ólíkum aðilum innan opinbera geirans og einkageirans að notum.
    Efnahagsleg þýðing skapandi greina hefur notið vaxandi athygli hér á landi á síðustu árum og jafnframt hefur komið betur í ljós að tölulegum upplýsingum um þennan mikilvæga þátt þjóðlífsins er áfátt. Árið 2011 kom út skýrslan Kortlagning á hagrænum áhrifum skapandi greina sem unnin hafði verið á vegum Samráðsvettvangs skapandi greina, Íslandsstofu og fimm ráðuneyta. Þar komu fram þær upplýsingar, byggðar á veltutölum, að efnahagslegt umfang skapandi greina væri mun meira en áður hafði verið talið og bent var á að mikilvægt væri að efla og styrkja hagtölugerð á þessu sviði. Ráðherraskipaður starfshópur, með það verkefni að kanna möguleika á að bæta starfsumhverfi skapandi greina, efla rannsóknir, menntun og stefnumótun og styðja við útflutningsstarfsemi, skilaði haustið 2012 skýrslu sem ber heitið Skapandi greinar – sýn til framtíðar þar sem lagt var að stjórnvöldum að gera betur í söfnun tölulegra upplýsinga um skapandi greinar og vakin athygli á ýmsu er varðar aðferðir við öflun og birtingu slíks efnis. Þá er það meðal tilgreindra markmiða í þingsályktun um menningarstefnu, nr. 16/141, sem Alþingi samþykkti 6. mars 2013, að „þjóðhagslegt vægi lista og menningar verði hluti af reglubundinni skráningu hagtalna“.
    Þörfin fyrir íslenska hagvísa menningar og skapandi greina er ljós og ekki er ástæða til að ætla annað en að kunnátta og færni til að afla þeirra upplýsinga sem til þarf og birta þær á þann hátt sem að gagni kemur sé fyrirliggjandi.
    Þar sem gerð og birting hagvísa um menningarstarfsemi og skapandi greinar er víða fastur þáttur í starfsemi þeirra stofnana sem gegna sama eða sambærilegu hlutverki og Hagstofa Íslands rækir gagnvart íslensku samfélagi hafa þegar verið mótaðar aðferðir við söfnun og úrvinnslu gagna sem liggja að baki slíkum hagvísum. Nefna má regluramma Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna um hagvísa menningar frá árinu 2009 The 2009 UNESCO Framework for Cultural Statistics (FCS) og lokaskýrslu starfshóps Evrópusambandsins um gerð hagvísa menningar frá árinu 2012 ESSnet-CULTURE. European Statistical System Network on Culture. Final Report.
    Hagstofa Evrópusambandsins – Eurostat – birtir árlega hagvísa menningar og skapandi greina í löndum Evrópusambandsins í ritinu Culture Statistics. Þar er einnig umfjöllun um ýmis þeirra sjónarmiða sem ráða för við gerð hagvísanna og miða að því að notagildi þeirra verði sem mest og upplýsingarnar samanburðarhæfar milli tímabila.
    Hagvísar menningar og skapandi greina eru gefnir út á Norðurlöndum. Í Danmörku kemur sérritið Kultur út hjá dönsku hagstofunni – Danmarks Statistik – og hefur gert frá 2015. Þar er byggt á aðferðafræði UNESCO sem hefur verið löguð að dönskum aðstæðum. Í Svíþjóð annast sérstök stofnun – Myndigheten för kulturanalys – útgáfu talnaefnis um menningarmál. Síðasta rit þessa efnis ber heitið Kulturen i siffror 2017. Í Noregi kemur út ritið Kulturstatistikk á vegum norsku hagstofunnar – Statistisk sentralbyrå.
    Ekki er ástæða til að ætla annað en að hér á landi sé unnt að beita sömu eða áþekkum aðferðum og þróaðar hafa verði erlendis við gerð og birtingu hagvísa menningar og skapandi greina með þeirri aðlögun sem þörf kann að vera fyrir vegna aðstæðna og staðhátta hér. Ýmsir fulltrúar menningar og skapandi greina hafa um nokkurt árabil kallað eftir hagvísum á borð við þá sem hér er lagt til að verði gerðir og notagildi þeirra er slíkt að það er í þágu allra hlutaðeigandi að þetta verkefni komist í framkvæmd eins fljótt og unnt er. Af þeim sökum er þetta þingmál flutt.