Ferill 49. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 49  —  49. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um skiptingu útsvarstekna milli sveitarfélaga.


Flm.: Þórunn Egilsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Einar Brynjólfsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem kanni hvort unnt sé að skipta útsvarstekjum milli tveggja sveitarfélaga. Ráðherra kynni niðurstöður starfshópsins eigi síðar en 1. mars 2018.
    Ráðherra hafi samráð við ráðherra sem fer með sveitarstjórnarmál og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 146. þingi (270. mál) en náði ekki fram að ganga. Hún er nú endurflutt óbreytt að efni til.
    Með þingsályktunartillögu þessari er fjármála- og efnahagsráðherra falið að skipa starfshóp sem kanni möguleikann á skiptingu útsvarstekna milli tveggja sveitarfélaga.
    Nokkuð er um að einstaklingar eigi frístundahús eða jörð, án þess að þar sé stundaður búskapur, í öðru sveitarfélagi en lögheimili er. Útsvarstekjur einstaklings renna til þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili og þar með renna engar útsvarstekjur til sveitarfélagsins þar sem frístundahús eða jörð viðkomandi er staðsett. Jafnvel getur verið um það að ræða að dvalið sé drjúgan hluta ársins á viðkomandi jörð eða í frístundahúsi og þá myndast oft krafa eða vænting um tiltekna þjónustu frá því sveitarfélagi þar sem jörð eða frístundahús er staðsett. Sem dæmi má nefna óskir um snjómokstur og ýmsa aðra þjónustu.
    Flutningsmenn telja brýnt að kanna hvort unnt sé að leita leiða til að bregðast við framangreindri áskorun.