Ferill 75. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 75  —  75. mál.
Fyrirspurn


til dómsmálaráðherra um viðurlög við því að hylma yfir kynferðisafbrot.

Frá Jóni Þór Ólafssyni.


     1.      Hvaða lög eða reglur brýtur biskup ef hann fylgir fyrirmælum Vatíkansins varðandi kynferðisafbrot presta kirkjunnar, m.a. gagnvart börnum, og hvaða lög hefur kaþólska kirkjan brotið með því að gefa slík fyrirmæli og hóta brottvísun úr starfi sé þeim ekki fylgt?
     2.      Eru fyrirmæli Vatíkansins næg ástæða fyrir lögreglu eða saksóknara til að rannsaka málið frekar og ákæra? Ef ekki, hvað hyggst ráðherra gera til að rannsakaður sé sterkur grunur um skipulagða yfirhylmingu kynferðisafbrota gegn börnum?
     3.      Er það brot á lögum eða reglum sem gilda fyrir einstaklinga að hylma yfir kynferðisafbrot? Eru undanþágur frá þeim ákvæðum og ef svo er, hverjar?
     4.      Er það brot á lögum eða reglum sem gilda um trúfélög, félagasamtök, fyrirtæki eða stofnanir að fyrirskipa félagsmönnum sínum eða starfsmönnum að hylma yfir kynferðisafbrot? Ef ekki, hvað ef þeim fyrirskipunum fylgir hótun um mögulega brottvísun úr starfi? Ef ekki, hvað hyggst ráðherra gera til að koma í veg fyrir slík fyrirmæli og hótanir?
     5.      Hver eru viðurlög við áðurnefndum brotum á lögum og reglum og hver finnst ráðherra að réttmæt viðurlög ættu að vera?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.

    Breska dagblaðið The Guardian ljóstraði árið 2003 upp að Vatíkanið hefði fyrirskipað biskupum kaþólsku kirkjunnar um heim allan að hylma yfir kynferðisafbrot eða eiga ella á hættu að vera vísað úr kirkjunni. Leiðarvísir Vatíkansins til biskupanna sem fylgir frétt The Guardian er opinber, aðgengilegur og viðurkenndur á vefsíðu Vatíkansins á slóðinni:
www.vatican.va/resources/resources_crimen-sollicitationis-1962_en.html