Ferill 108. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 108  —  108. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (skattaívilnanir félagasamtaka).

Flm.: Eygló Harðardóttir, Gunnar Hrafn Jónsson, Lilja Alfreðsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson.

1. gr.

    Við 28. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Eignaauki vegna arftöku, fyrirframgreiðslu arfs og dánargjafa til skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga, viðurkenndrar mannúðar-, heilbrigðis- og líknarstarfsemi, menningarmála og vísindalegra rannsóknarstarfa, sjúklingafélaga og stofnana þeirra. Ráðherra ákveður með reglugerð hvaða málaflokkar og stofnanir falla undir þennan tölulið.

2. gr.

    Við A-lið 30. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Einstakar gjafir til skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga, viðurkenndrar mannúðar-, heilbrigðis- og líknarstarfsemi, menningarmála og vísindalegra rannsóknarstarfa, sjúklingafélaga og stofnana þeirra enda sé gjöfin ekki undir 50.000 kr. Ráðherra ákveður með reglugerð hvaða málaflokkar og stofnanir falla undir þennan tölulið.

3. gr.

Lögin öðlast þegar gildi. 1. gr. kemur til framkvæmda við álagningu árið 2018 vegna tekjuársins 2017. 2. gr. skal eiga við um skipti á dánarbúum þeirra sem andast 1. janúar 2018 eða síðar.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var fyrst lagt fram á 139. löggjafarþingi. Málinu var þó ekki vísað til nefndar þar sem ekki tókst að mæla fyrir því. Frumvarpið var endurflutt á 140. löggjafarþingi (107. mál) og vísað til efnahags- og viðskiptanefndar sem sendi það til umsagnar. Síðast var málið lagt fram á 141. löggjafarþingi (592. mál) en var ekki vísað til nefndar.
    Með frumvarpinu eru lagðar til skattaívilnanir sem hugsaðar eru í þágu frjálsra félagasamtaka á sviði menningarmála, vísindalegra rannsóknarstarfa, viðurkenndrar líknarstarfsemi, skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga og sjúklingafélaga og samtaka þeirra. Er lagt til að einstaklingi verði heimilt að draga gjafir til slíkra félagasamtaka frá skatti.
    Við skýringu á ákvæðum frumvarpsins er rétt að hafa til hliðsjónar reglugerð nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sbr. 15.–18. gr. reglugerðarinnar og 2. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga.
    Við efnismeðferð málsins hjá efnahags- og viðskiptanefnd á 140. löggjafarþingi bárust umsagnir um það frá Alþýðusambandi Íslands, Blindrafélaginu, Félagi nýrnasjúkra, Kvenfélagasambandi Íslands, Landspítala, Neytendasamtökunum, ríkisskattstjóra, SÁÁ, SÍBS og umboðsmanni barna. Voru umsagnaraðilar ánægðir með frumvarpið og allir á einu máli um að ákvæði þess væru mikilvæg fyrir starfsemi frjálsra félagasamtaka, auk þess að vera mikilvægur hvati fyrir aðila til að styrkja slík samtök. Nokkrar efnislegar ábendingar komu fram og hefur verið tekið tillit til þeirra.
    Frjáls félagasamtök sinna fræðslu almennings, efla menningar- og listalíf, inna af hendi margs konar samfélagsþjónustu og halda á lofti málstað einstakra þjóðfélagshópa. Félagasamtök eru jafnfjölbreytt og þau eru mörg, en sem dæmi um frjáls félagasamtök sem snerta líf flestra Íslendinga má nefna Landsbjörg, Heimili og skóla, Kvenfélagasamband Íslands og Rauða kross Íslands. Frjáls félagasamtök inna af hendi mikilvægt starf í formi margs konar samfélagsþjónustu og til þess að þau geti notið undanþága, svo sem skattaívilnana sem eru til þess fallnar að styrkja starfsemi þeirra og eru um leið viðurkenning á mikilvægi þeirra, er nauðsynlegt að sett verði sérstök lög um félög af þessu tagi þar sem slík félög verði skilgreind sérstaklega og þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá skattaívilnanir og aðrar undanþágur sem kunna að standa slíkum félögum til boða. Í því samhengi er vert að geta þess að frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla var lagt fram á 145. löggjafarþingi (779. mál) og gekk til efnahags- og viðskiptanefndar en var ekki afgreitt frá nefndinni.
    Á grundvelli þess mikilvæga samfélagslega hlutverks sem frjáls félagasamtök gegna hafa þau lengi fengið ýmsar undanþágur frá skattgreiðslum, sérstaklega frá greiðslu tekjuskatts og eignarskatts, enda má gera ráð fyrir að opinberir aðilar þyrftu sjálfir að sinna verkefnum þeirra ef félagasamtökin gerðu það ekki.
    Íslensk félagasamtök njóta þó ekki sömu skattaívilnana og algengt er í þeim löndum sem við berum okkur saman við, t.d. undanþágu frá greiðslu fjármagnstekjuskatts, erfðafjárskatts og endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðföngum. Stærsti munurinn felst þó í því að einstaklingum hér á landi er ekki leyfilegt að draga gjafir til góðgerðafélaga frá skattskyldum tekjum sínum líkt og almennt er heimilt í löndum Evrópu og Norður-Ameríku.
    Á undanförnum áratugum hafa skattaívilnanir stjórnvalda fyrst og fremst beinst að fyrirtækjum sem eru á markaði í hagnaðarskyni. Sífellt hefur hallað á starfsemi sem rekin er á grundvelli ákveðinna hugsjóna, svo sem frjáls félagasamtök og samvinnufélög. Má þar nefna afnám ákvæða um frádrátt frá skattskyldum tekjum einstaklinga vegna gjafa til góðgerðafélaga árið 1979, ákvörðun um að félagasamtök skyldu greiða fjármagnstekjuskatt árið 1996 og álagningu erfðafjárskatts á gjafir til líknarfélaga vorið 2004.
    Flutningsmenn telja það ekki rétt skilaboð til samfélagsins að hagkvæmara sé að græða sjálfur en að gefa náunganum, að auðdýrkun og fésýsla sé metin meira en vinnan, þekkingin, framtakið og maðurinn sjálfur. Framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum drógust saman í kreppunni eftir hrun fjármálakerfisins, auk þess sem hið opinbera gat minna stutt við starfsemi þeirra með beinum styrkjum. Á sama tíma jókst álag og eftirspurn eftir þjónustu frjálsra félagasamtaka.
    Með breyttum skattareglum, sérstaklega hvað varðar góðgerða- og líknarfélög, er hægt að bæta starfsumhverfi frjálsra félagasamtaka umtalsvert. Starfsemin eflist og þau verða betur í stakk búin að hlaupa undir bagga með ríki og sveitarfélögum til að mynda við erfiðar efnahagsaðstæður.