Ferill 116. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 116  —  116. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993 (útflutningsskylda á lambakjöt).

Flm.: Gunnar Bragi Sveinsson, Elsa Lára Arnardóttir, Eygló Harðardóttir, Lilja Alfreðsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir.


1. gr.

    Við 29. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Ráðherra skal skipa þriggja manna nefnd sem geri eigi síðar en 1. ágúst ár hvert tillögu til ráðherra um hvort og þá hversu hátt hlutfall kindakjöts skal flytja á erlenda markaði. Ákvörðun skv. 1. málsl. getur gilt fyrir allt að tólf mánaða framleiðslu- og sölutímabil. Einn nefndarmaður skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar, Bændasamtök Íslands tilnefna einn fulltrúa og Landssamtök sláturleyfishafa tilnefna einn fulltrúa.
    Ef ákveðið er að flytja hluta framleiðslu úr landi skv. 1. mgr. skulu allir sláturleyfishafar leggja til kjöt til útflutnings, semja um skipti á kjöti við sláturleyfishafa með heimild til útflutnings eða gera verktakasamning við útflutningshús um slátrun þess hluta innleggs hússins sem flytja þarf úr landi. Sé þess ekki kostur er sláturleyfishafa skylt að greiða vegna útflutningskvaðar gjald sem landbúnaðarráðherra auglýsir fyrir 1. september ár hvert og skal svara til mismunar á áætluðu heildsöluverði og viðmiðunarverði sem miðast við meðalverð við útflutning á undangengnum tólf mánuðum. Ráðherra skal, að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sláturleyfishafa, setja nánari reglur um skipulag útflutnings svo að erlendir markaðir nýtist sem best.
    Ef ákveðið er að flytja hluta framleiðslu úr landi skv. 1. mgr. skulu allir sauðfjárræktendur taka þátt í útflutningi eða sæta útflutningsuppgjöri vegna útflutningskvaðar fyrir sama hlutfall af framleiðslu sinni að undanskildu því magni sem framleiðandi tekur til eigin nota samkvæmt heimild í reglugerð. Ráðherra er heimilt, að fenginni tillögu Bændasamtaka Íslands, Landssambandi sauðfjárbænda og Landssamtaka sláturleyfishafa, að undanþiggja útflutningsuppgjöri þá framleiðendur sem hafa 0,7 vetrarfóðraðar kindur eða minna á hvert ærgildi greiðslumarks enda liggi fyrir fullnægjandi staðfesting um ásetning. Eru þeir þá skuldbundnir til að leggja aðeins inn afurðir þess fjár. Þetta hlutfall skal taka breytingum í samræmi við breytingar á sölu kindakjöts á innlendum markaði reiknað frá 7.000 tonna árlegri sölu.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast, gera samninga sín á milli um samstarf t.a.m. um verkaskiptingu, og hafa með sér annars konar samstarf. Leggja skal slíka samninga fyrir ráðherra landbúnaðarmála til upplýsingar. Slíkir samningar mega ekki ná til vöru sem fellur undir gildissvið samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er lagt fram í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin í sauðfjárrækt. Flutningsmenn telja brýnt að án tafar verði gripið til raunhæfra og áhrifaríkra aðgerða til að koma til móts við vanda sauðfjárbænda.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að skipuð verði nefnd þriggja manna sem leggi til við ráðherra hvort flytja eigi út kindakjöt á erlenda markaði. Er með þessu ætlunin að koma á sveiflujöfnun og því verði aðeins flutt út kindakjöt ef umframmagn er til staðar en ekki ef talið er að framleiðslan hæfi innanlandsmarkaði eða ef það er skortur.
    Innanlandsmarkaður neytir um 6.500 tonna af lambakjöti árlega og eðlilegur útflutningur á ársgrundvelli er áætlaður um 1.500 tonn. Aukin framleiðsla hefur þegar leitt til offramboðs á innlendum mörkuðum með tilheyrandi verðlækkunum í verslunum þó svo að aukaframboðið sé aðeins brot af öllu umframmagninu. Rekstur sláturhúsa hefur gengið brösuglega á undanförnum árum og kemur verðhrunið illa við sláturleyfishafa.
    Verðlækkun til sauðfjárbænda á árinu 2016 var um það bil 10% og nú á árinu 2017 var allt að 35% verðlækkun.
    Fram hefur komið hjá bændum að þeir eru byrjaðir að bæta við sig aukavinnu til þess að ná endum saman og hefur bændaforystan þungar áhyggjur af þeim yngstu og skuldsettustu. Staðan hafi áður verið þröng en þessi mikla tekjuskerðing gæti verið dropinn sem fyllir mælinn hjá mörgum.
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt til aðgerðir sem er ætlað að draga úr framleiðslu um 20%, mæta kjaraskerðingu bænda, styðja við sauðfjárbúskap á jaðarsvæðum og taka út birgðir sauðfjárafurða og afurðastöðvakerfið. 1
    Til að leysa aðsteðjandi bráðavanda er sem áður segir lagt til í frumvarpi þessu að metið verði árlega hvort til staðar sé magn sem teljist hæfilegt fyrir innanlandsmarkað eða hvort flytja þurfi út umframbirgðir. Ýmis markaðstækifæri eru til staðar, svo sem á mörkuðum á Spáni, Bretlandi, Svíþjóð, Japan, Bandaríkjunum og jafnvel Rússlandi. Með útflutningsskyldunni yrði öllum gert að flytja jafnt hlutfall út.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði heimild svipuð þeirri sem gildir um afurðastöðvar í mjólkuriðnaði. Lagt er til að lögfest verði ákvæði til bráðabirgða í þá veru að afurðastöðvar í kjötiðnaði geti haft með sér samstarf og sameinast og er ætlunin að auka hagkvæmni og e.t.v. greiða fyrir hagræðingu sem kallað hefur verið eftir.

1     www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2017/09/04/Tillogur-stjornvalda-vegna-erfidleika-i-saudfjarraekt/