Ferill 119. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 119  —  119. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, með síðari breytingum (skuldir vegna húsnæðismála).

Flm.: Eygló Harðardóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Lilja Alfreðsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Að ósk viðkomandi sveitarfélags er eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og ráðherra sveitarstjórnarmála skylt við útreikning á afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélagsins skv. 64. gr. að undanskilja tekjur, útgjöld, eignir, skuldir og skuldbindingar vegna húsnæðis til að uppfylla lagalegar skuldbindingar sveitarfélagsins samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. 39., 43. og 45.–47. gr. þeirra laga. Ákvæði þetta skal endurskoðað eigi síðar en 1. janúar 2023 og skal þá litið til fjölda umsækjenda á biðlistum sveitarfélaga eftir félagslegu leiguhúsnæði og mats sveitarfélaganna á því hvort skortur sé á leiguíbúðum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Sveitarfélög hafa ríkar skyldur gagnvart fólki í húsnæðisvanda. Samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, skulu sveitarfélög m.a. leitast við að tryggja framboð á hentugu húsnæði fyrir aldraða og fatlað fólk, sbr. 39. og 43. gr. laganna, sem og tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna, sbr. 1. mgr. 45. gr. sömu laga.
    Þrátt fyrir þessa skýru lagaskyldu sveitarfélaganna eru biðlistar langir, biðtíminn langur og íbúðum hefur fjölgað lítið á milli ára. Í könnun varasjóðs húsnæðismála á leiguíbúðum sveitarfélaga frá 2016 kom fram að leiguíbúðir í eigu sveitarfélaga voru alls 5.089 og hafði fjölgað um 1,9% frá fyrra ári. Þrjátíu sveitarfélög töldu sig búa við skort eða nokkurn skort á leiguíbúðum. Fjöldi umsækjenda á biðlistum sveitarfélaganna eftir félagslegu leiguhúsnæði var samtals 1.613 sem er svipuð tala og árin 2015 og 2014. Til að komast á biðlista sveitarfélaganna þurfa umsækjendur að uppfylla ákveðin skilyrði en hvert sveitarfélag setur sér nánari reglur um skilyrði fyrir úthlutun félagslegra íbúða og rekstur þeirra. Langflestir umsækjendur eru einstæðir foreldrar og nær 70% umsækjenda var að finna á höfuðborgarsvæðinu. Lengsti biðtíminn var hjá Hafnarfjarðarkaupstað eða 48 mánuðir, þá 36 mánuðir hjá Reykjavíkurborg og Hveragerðisbæ og 30 mánuðir hjá Akureyrarkaupstað. Meðalbiðtíminn í Kraganum var 33 mánuðir. Ekki voru mikil áform um fjölgun félagslegra íbúða þrátt fyrir erfiða stöðu en aðeins 11 sveitarfélög höfðu í hyggju að fjölga þeim um samtals 85 íbúðir.
    Í viðtölum við forsvarsmenn sveitarfélaga hefur komið fram að þung skuldastaða hefur gert þeim erfitt um vik að fjölga félagslegum íbúðum þrátt fyrir skýra lagaskyldu og fjárstuðning frá ríkisvaldinu í gegnum almenna íbúðakerfið, fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Með frumvarpinu er lagt til að sveitarfélag geti óskað eftir að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og ráðherra sveitarstjórnarmála verði skylt við útreikning á afkomu og fjárhagsstöðu þess skv. 64. gr. laganna að undanskilja tekjur, útgjöld, eignir, skuldir og skuldbindingar vegna húsnæðis til að uppfylla lagalegar skuldbindingar sveitarfélagsins samkvæmt lögum um félagsþjónustu, nr. 40/1991, sbr. 39., 43. og 45.–47. gr. þeirra. Lagt er til að ákvæðið taki þegar gildi og skuli endurskoðað eigi síðar en 1. janúar 2023. Við endurskoðun skuli horft til fjölda umsækjenda á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði og mats sveitarfélaganna á því hvort skortur sé á leiguíbúðum.