Ferill 129. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 129  —  129. mál.
Fyrirspurn


til heilbrigðisráðherra um eftirfylgni við þingsályktun nr. 28/145, um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

Frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur.


     1.      Er von á lagabreytingu fyrir lok þessa árs um skyldur ríkis og sveitarfélaga til að sinna samþættri þjónustu við einstaklinga með geðraskanir, sbr. lið A1 í þingsályktun nr. 28/145?
     2.      Hafa geðheilsuteymi tekið til starfa í einhverjum landshlutum? Hefur geðheilsuteymi fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta tekið til starfa, líkt og átti að gerast á árinu 2017? Ef svo er ekki, er fyrirsjáanlegt að það taki til starfa fyrir lok árs, sbr. lið A2?
     3.      Hvað líður því markmiði að aðgengi að gagnreyndri meðferð sálfræðinga verði á 50% heilsugæslustöðva í árslok 2017, sbr. lið A3? Hvert er hlutfallið nú? Svar óskast sundurliðað eftir landshlutum.
     4.      Hefur fleira sérhæft starfsfólk verið ráðið á göngudeild BUGL í því skyni að ná markmiði um að í lok árs 2019 verði engir biðlistar eftir þjónustu deildarinnar, sbr. lið A6?
     5.      Tókst að mæta uppsafnaðri þörf geðfatlaðs fólks fyrir viðeigandi húsnæði og þjónustu fyrir árslok 2016, sbr. lið A9? Ef svo er ekki, hversu margir geðfatlaðir einstaklingar dvelja nú á Landspítalanum vegna skorts á búsetuþjónustu?
     6.      Er von á niðurstöðum starfshóps sem gera á tillögur um geðræktarstarf á öllum skólastigum fyrir árslok, sbr. lið B2?
     7.      Er hafið starf við að skima fyrir kvíða, depurð, þunglyndi og áhrifum áfalla meðal barna, sbr. lið B3? Hafa fleiri börn fengið meðferð við kvíða eða þunglyndi vegna þessara skimana á árinu 2017 en fyrri ár?
     8.      Munu tillögur starfshóps um forvarnir gegn sjálfsvígum ungmenna ásamt kostnaðar- og innleiðingaráætlun liggja fyrir í árslok 2017, sbr. lið B4?
     9.      Hefur starfshópur skilað áætlun um hvernig unnið skuli gegn fordómum í garð geðfatlaðra, sbr. lið C1?
     10.      Hafa verið settar fram leiðbeiningar fyrir fjölmiðla um leiðir til þess að fjalla um geðheilbrigðismál án þess að ala á fordómum, sbr. lið C2?
     11.      Hversu margir opinberir vinnustaðir taka þátt í tilraunaverkefnum sem miða að því að ráða fólk til starfa sem hefur lent utan vinnumarkaðar vegna langvinnra geðraskana og draga þannig úr fordómum og mismunun, sbr. lið C3? Svar óskast sundurliðað eftir landshlutum.
     12.      Hvað líður markmiði um að innleiða skimun fyrir geðheilsuvanda í þá heilsufarsskoðun sem fram fer við komu hælisleitenda til landsins, sbr. lið C4?
     13.      Hefur skiptum þar sem túlkaþjónusta er nýtt í geðheilbrigðisþjónustu fjölgað á árinu 2017 miðað við fyrri ár, sbr. markmið í lið C5 um aukna þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á réttindum fólks til túlkaþjónustu?


Skriflegt svar óskast.