Ferill 132. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 132  —  132. mál.




Frumvarp til laga


um ærumeiðingar.

Flm.: Birgitta Jónsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir, Björn Leví Gunnarsson, Einar Brynjólfsson, Eva Pandora Baldursdóttir, Gunnar Hrafn Jónsson, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.


    Hver sem af ásetningi eða gáleysi meiðir æru annars manns með móðgun eða aðdróttun skal greiða bætur fyrir miska með hliðsjón af sök, eðli ummæla og aðstæðum að öðru leyti auk bóta fyrir fjárhagslegt tjón ef því er að skipta.
    Ekki kemur þó til bótaábyrgðar ef tjáning telst lögmæt vegna þess að:
     a.      um er að ræða gildisdóm settan fram í góðri trú sem á stoð í fyrirliggjandi staðreyndum,
     b.      sýnt hefur verið fram á að ummæli séu sannleikanum samkvæm,
     c.      þótt ekki hafi verið færðar sönnur á ummæli, þá hafi viðkomandi verið í góðri trú, haft nægilega ríkar ástæður til að láta þau falla og auðsýnt tilhlýðilega aðgát eða
     d.      tilefni ærumeiðingar var ótilhlýðilegt hátterni þess manns, sem telur sér misboðið eða hann hefur goldið líku líkt.
    Sá sem tekur þátt í útbreiðslu ærumeiðandi ummæla sem stafa frá öðrum sætir ábyrgð eftir sömu reglum og greinir í 1. mgr. og 1.–3. tölul. 2. mgr. nema annað leiði af lögum eða aðrar lögmætar ástæður mæli með því að undanþiggja hann ábyrgð.

2. gr.


    Heimilt er, að kröfu þess sem fyrir verður, að dæma ómerk ærumeiðandi ummæli sem ekki hafa verið sönnuð, enda sé ekki um gildisdóm að ræða.

3. gr.


    Frestur til að höfða mál samkvæmt 1. og 2. gr. er sex mánuðir frá því að ummæli féllu. Hafi ummæli verið birt endurtekið opinberlega byrjar sex mánaða frestur til málshöfðunar að líða þegar ummæli eru fyrst birt opinberlega.

4. gr.


    Beinist ærumeiðing að látnum manni er maka, sambúðarmaka, foreldrum, börnum, kjörbörnum, barnabörnum eða systkinum hins látna heimilt að krefjast ómerkingar með sömu skilmálum og fram koma í 2. gr.

5. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

6. gr.


    Við gildistöku laga þessara falla brott 95. gr., 234.–241. gr. og b- og c-liður 2. tölul. 242. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Greinargerð.

Inngangur.
    Frumvarp þetta er byggt á frumvarpi sem samið var af stýrihópi sem var falið að vinna að framgangi þingsályktunar um að Ísland skapaði sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis sem samþykkt var á Alþingi 16. júní 2010. Frumvarpið birtist á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis 9. september 2016 og var almenningi þá gefinn kostur á að senda athugasemdir við frumvarpið og þrjú önnur frumvörp sem einnig byggðust á vinnu stýrihópsins. Í stýrihópnum sátu Hörður Helgi Helgason hdl., formaður, Elfa Ýr Gylfadóttir, Páll Þórhallsson, Aðalheiður Ámundadóttir (til febrúar 2016), Þröstur Þór Gylfason (frá febrúar 2016), Aðalheiður Þorsteinsdóttir, Sigríður Hallgrímsdóttir og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir. Starfsmaður stýrihópsins var Elísabet Pétursdóttir, lögfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneyti. Hér á eftir fer greinargerð stýrihópsins með frumvarpinu, stytt.

Réttarstaða hér á landi og þróun í öðrum ríkjum.
    Æra manna hefur notið verndar að lögum frá fornu fari. Í XXV. kafla almennra hegningarlaga eru ákvæði um ærumeiðingar. Þau hafa ekki tekið neinum efnislegum breytingum frá því að lögin voru sett árið 1940. Í 234. gr. laganna er fjallað um móðganir en þar er átt við niðrandi ummæli, sem falla ekki undir aðdróttanir og geta lækkað mann í áliti og sært sjálfsvirðingu hans. Frá miðju ári 1995 þegar umfangsmiklar breytingar voru gerðar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar hafa fallið liðlega 30 dómar í Hæstarétti þar sem tekin hefur verið afstaða til þess hvort um móðganir sé að ræða. Í helmingi málanna var krafist refsingar en aldrei fallist á þær.
    Um aðdróttanir er fjallað í 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga. Aðdróttun er ummæli sem eru til þess fallin að lækka þann sem hún beinist að í áliti annarra. Aðdróttanir eru almennt taldar alvarlegri en móðganir og undir þær falla m.a. ásakanir um refsiverð afbrot. Í liðlega 40 málum frá 1995 hefur Hæstiréttur þurft að taka afstöðu til þess hvort um aðdróttun væri að ræða. Einungis einu sinni hefur Hæstiréttur dæmt refsingu, sjá dóm frá 11. febrúar 2010 (424/2009) þar sem dæmd var 100.000 kr. sekt.
    Í 241. gr. almennra hegningarlaga segir að dæma megi óviðurkvæmileg ummæli ómerk, ef sá krefst þess, sem misgert var við. Ómerking ummæla hefur verið álitin vægast þeirra úrræða sem standa til boða þegar ummæli hafa verið talin ærumeiðandi. Þannig hafa þau ekki verið talin til refsingar þótt úrræðið sé að finna í XXV. kafla almennra hegningarlaga. Úrræðið þekktist lengi vel einungis í Danmörku og Noregi utan Íslands. Nú hefur það verið fellt úr norskum lögum. Skyld úrræði eru þó til víðar, þess eðlis t.d. að réttur lýsi því yfir að ummæli séu ósönnuð. Ómerking ummæla hefur verið skilgreind sem uppreisn fyrir hinn meiðyrta mann og staðfesting á að ummæli skuli teljast marklaus.

Tilefni og markmið lagasetningar.
    Megintilefni þess að ráðist var í að endurskoða ákvæði almennra hegningarlaga um ærumeiðingar er að á undanförnum árum hafa gengið fjölmargir dómar hér á landi og hjá Mannréttindadómstól Evrópu sem sýna að orðalag ákvæðanna í núgildandi lögum er mjög fjarri hinu raunverulega réttarástandi. Því var talið æskilegt að lögin væru í betra samræmi við það sem telja má gildandi rétt. Einnig væri þá tilefni til að taka á álitamálum sem uppi hafa verið um skýringu laganna.
    Markmið lagabreytingarinnar er að löggjöf um ærumeiðingar endurspegli betur réttarástand á þessu sviði og réttarþróun hér á landi og í Evrópu sem orðið hefur m.a. fyrir tilstilli Mannréttindadómstóls Evrópu og starfs Evrópuráðsins. Þær spurningar sem einkum þurfti að taka afstöðu til við samningu frumvarpsins voru eftirfarandi.
     1.      Á að afnema refsingar við ærumeiðingum? Ef svo er, á þá að færa ákvæði um ærumeiðingar úr hegningarlögum í sérlög eða eftir atvikum í skaðabótalög?
     2.      Á að afnema ómerkingu ummæla sem úrræði?
     3.      Á að færa efnisleg skilyrði þess að ærumeiðing teljist vera fyrir hendi nær þeim viðmiðum sem komið hafa fram í dómaframkvæmd?
     4.      Eiga látnir áfram að njóta æruverndar með sama hætti og verið hefur?
     5.      Á að kveða á um að fyrningarfrestur vegna brota hefjist þegar ummæli eru fyrst látin falla?
     6.      Á að gera breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga um friðhelgi einkalífs samhliða?
     7.      Á að kveða á um breytingar á ákvæðum sem varða ærumeiðingar í garð erlendra aðila?
    Til að ná markmiði lagabreytingarnar þótti vænlegast að fara þá leið að semja frumvarp til nýrra sérlaga um ærumeiðingar þar sem efnisleg skilyrði væru sett fram með eins nákvæmum hætti og unnt er.

Meginefni frumvarpsins og helstu breytingar frá gildandi lögum.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný stofnlög um ærumeiðingar þar sem mælt verði fyrir um einkaréttarleg úrræði til að bregðast við ærumeiðingum. Samhliða verði ákvæði almennra hegningarlega um ærumeiðingar felld úr gildi. Ekki er lögð til breyting á 26. gr. skaðabótalaga sem lýtur að miskabótum fyrir ærumeiðingar. Það ákvæði hefur víðtækara gildissvið og getur tekið til ærumeiðinga með athöfn eða athafnaleysi, t.d. þegar starfsmanni er vikið úr starfi. Verði frumvarpið að lögum er því gert ráð fyrir að það eigi við þegar ærumeiðing felst í tjáningu sem er einkum í formi ummæla. 26 gr. skaðabótalaga eigi hins vegar varðandi annars konar ærumeiðingar.
    Lagt er til að sá sem verður fyrir ærumeiðingu, hvort sem það er móðgun eða aðdróttun, eigi einkaréttarlega kröfu á miskabótum eða skaðabótum fyrir fjárhagslegt tjón. Skilyrði er að ærumeiðandi ummæli séu látin falla af ásetningi eða gáleysi. Fram kemur að miskabætur skuli ákveðnar með hliðsjón af sök, eðli ummæla og aðstæðum að öðru leyti.
    Ekki kemur samkvæmt frumvarpinu til bótaábyrgðar fyrir ærumeiðandi ummæli í tilteknum tilfellum. Í fyrsta lagi njóta gildisdómar verndar, enda séu þeir settir fram í góðri trú og ekki úr lausu lofti gripnir. Í öðru lagi eru ummæli lögmæt ef þau eru sannleikanum samkvæm. Í þriðja lagi geta ummæli talist lögmæt, jafnvel þótt ósönnuð séu, ef viðkomandi hefur verið í góðri trú, haft nægilega ríka ástæðu til að láta þau falla og auðsýnt tilhlýðilega aðgát.
    Þá er áfram gert ráð fyrir heimild til ómerkingar ummæla en þó með þrengri skilmálum en samkvæmt gildandi lögum.
    Ekki er í frumvarpinu lögð til nein breyting á reglum um það hver beri hina lagalegu ábyrgð á ummælum hverju sinni. Ræðst það af fjölmiðlalögum og öðrum almennum reglum.
    Helstu breytingar frá gildandi lögum sem í framangreindu felast eru þær að ekki verður lengur heimilt að dæma refsingu fyrir ærumeiðingar. Þá eru þær meginreglur sem mótast hafa í dómaframkvæmd hér á landi og með hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu orðaðar í lagatextanum sjálfum.
    Jafnframt eru felld brott ýmis ákvæði sem telja má úrelt eins og um brigslyrði, heimild til að höfða opinber mál vegna meiðyrða í garð opinberra starfsmanna og heimild til að dæma fjárhæð til birtingar dóms. Þá er lagt til að ákvæði 95. gr. almennra hegningarlaga um sérstaka æruvernd erlendra ríkja, þjóðhöfðingja þeirra og alþjóðasamtaka verði felld brott.
    Hins vegar eru ekki lagðar til breytingar á ákvæðum sem lýsa alvarlegri tjáningarbrot refsiverð eins og ummæli sem endurspegla kynþáttafordóma, sbr. 233. gr. a almennra hegningarlaga, og móðganir og smánanir í garð fjölskyldu sinnar, sbr. 233. gr. b. Þótt það sé ekki tekið sérstaklega fram ber að sjálfsögðu að skýra ákvæði laga á þessu sviði í samræmi við kröfur stjórnarskrár og alþjóðasáttmála sem íslenska ríkið er bundið af.
    Í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins kemur fram meginreglan um að sá sem verður fyrir ærumeiðingu eigi rétt á bótum fyrir miska og eftir atvikum fjárhagslegt tjón. Með ærumeiðingu er átt við bæði móðganir og aðdróttanir, sbr. 234. og 235. gr almennra hegningarlaga. Tekið er fram í ákvæðinu að brot framið af ásetningi eða gáleysi geti leitt til bótaskyldu. Gáleysismælikvarðinn er svo áréttaður frekar í 2. mgr. greinarinnar þar sem mælt fyrir um undantekningar frá meginreglunni um að ærumeiðandi ummæli séu ólögmæt. Notað er víðtækt hugtak, þ.e. tjáning, enda geta ærumeiðingar eins og áður segir komið fram bæði í orðum og myndmáli eða annars konar tjáningu. Í 3. mgr. kemur fram sú meginregla að sá sem breiðir út ærumeiðandi ummæli er ábyrgur með sama hætti og sá sem ber ábyrgð á frumærumeiðingunni. Öll sömu skilyrði eiga þannig við um ábyrgðina, að frátöldum möguleikanum á orðhefnd. Sérstaklega getur reynt á hvort sök sé fyrir hendi, t.d. hvort sá sem tekur þátt í að breiða út ærumeiðingu hefur í raun vitneskju um ummælin og eðli þeirra. Frá þessari meginreglu eru þó undantekningar sem ýmist eru lögbundnar undanþágur eða vegna annarra lögmætra ástæðna.
    Í 2. gr. er mælt fyrir um heimild til að ómerkja ærumeiðandi ummæli. Af skilyrðum ákvæðisins leiðir að það eru einungis aðdróttanir sem hægt er að ómerkja og þá einungis þær sem ekki eru jafnframt gildisdómar. Ómerking er því samkvæmt frumvarpinu nokkurs konar yfirlýsing um að ærumeiðandi ummæli hafi ekki verið sönnuð.
    Ákvæði 3. gr. felur í sér annars vegar sömu reglu og gilt hefur samkvæmt almennum hegningarlögum að ekki mega líða meira en sex mánuðir frá því að ærumeiðandi ummæli falla uns mál er höfðað. Þykir það eðlileg regla á þessu sviði og er því ekki farið að dæmi skaðabótalaga þar sem er fyrningarfrestur er 10 ár. Sambærilega reglu og er að finna í ákvæði 4. gr. um að aðstandendur látins manns geti höfðað meiðyrðamál fyrir hans hönd er einnig að finna í almennum hegningarlögum.