Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 146, 147. löggjafarþing 113. mál: útlendingar (málsmeðferðartími).
Lög nr. 81 28. september 2017.

Lög um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (málsmeðferðartími).


1. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (I.)
     Þrátt fyrir 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. skal miða við 9 mánuði í stað 12 mánaða ef um barn er að ræða og umsókn þess um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum fyrir gildistöku laga þessara, enda hafi umsækjandi ekki þegar yfirgefið landið.
     Umsækjandi sem öðlast rétt samkvæmt ákvæði þessu getur innan fjórtán daga frá gildistöku laga þessara farið fram á endurupptöku á úrskurði kærunefndar útlendingamála um að umsókn skuli ekki tekin til efnismeðferðar. Fari umsækjandi ekki fram á endurupptöku innan þess frests skal úrskurðurinn standa. Umsækjanda skal ekki gert að yfirgefa landið innan þess frests eða á meðan á meðferð endurupptökumáls stendur.
     
     b. (II.)
     Þrátt fyrir 1. málsl. 2. mgr. 74. gr. skal miða við 15 mánuði í stað 18 mánaða ef um barn er að ræða og umsókn þess um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum fyrir gildistöku laga þessara, enda hafi umsækjandi ekki þegar yfirgefið landið.
     Umsækjandi sem öðlast rétt samkvæmt ákvæði þessu getur innan fjórtán daga frá gildistöku laga þessara farið fram á endurupptöku á úrskurði kærunefndar útlendingamála um að umsókn skuli synjað. Fari umsækjandi ekki fram á endurupptöku innan þess frests skal úrskurðurinn standa. Umsækjanda skal ekki gert að yfirgefa landið innan þess frests eða á meðan á meðferð endurupptökumáls stendur.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 27. september 2017.