Ferill 30. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 148  —  30. mál.
Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Eygló Harðardóttur um stuðning við námsmannaíbúðir.
    


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver er stefna og sýn ráðherra varðandi stuðning hins opinbera við námsmannaíbúðir?

    Mikilvægur þáttur í að búa vel að námsmönnum er að tryggja stuðning við byggingu húsnæðis fyrir námsmenn sem sé á viðráðanlegu verði miðað við þá framfærslu sem námsmönnum er tryggð. Þá er einnig mikilvægt að tryggja viðunandi fjölda námsmannaíbúða þar sem mikil umframeftirspurn eftir slíkum íbúðum getur valdið óþarfa þrýstingi á leigumarkaðinn á þeim svæðum þar sem háskólar eru.
    Stuðningur hins opinbera við námsmannaíbúðir hefur hingað til fyrst og fremst verið í formi lána hjá Íbúðalánasjóði til langs tíma á hagstæðum vaxtakjörum, í samræmi við ákvæði VIII. kafla laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III í lögum um almennar íbúðir, nr. 52/2016, er heimilt að veita slík lán áfram til 1. janúar 2018 en eftir þann tíma var hugmyndin að ákvæði laga um almennar íbúðir um stofnframlög ríkis og sveitafélaga tækju við sem stuðningur hins opinbera til byggingar námsmannaíbúða sem og annarra íbúða sem undir lögin falla.
    Síðan lögin voru samþykkt hefur Íbúðalánasjóður úthlutað stofnframlögum þrisvar sinnum. Þar hafa námsmannaíbúðir verið tiltölulega fyrirferðamiklar og hefur komið ósk frá eigendum námsmannaíbúða um að haldið verði áfram opinni heimild til Íbúðalánasjóðs til veitingu langtímalána á lágum vöxtum. Þeirri beiðni hefur verið vel tekið og er nú til skoðunar innan ráðuneytisins hvort og með hvaða hætti hægt verði að bjóða upp á slíka fjármögnun fyrir þau námsmannaíbúðafélög sem það kjósa.