Ferill 54. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 151  —  54. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um aðgang að heilbrigðisgáttinni Heilsuveru.


     1.      Hvaða ástæður eru fyrir því að krafist er rafrænna skilríkja til að fá aðgang að Heilsuveru?
    Inn á mínum síðum á vefsvæði Heilsuveru getur notandi átt í samskiptum við heilbrigðisþjónustuna og nálgast eigin sjúkragögn. Þá hafa notendur aðgang í gegnum gáttina að lyfseðlalista, lyfjaúttektum, bólusetningaupplýsingum og upplýsingum um skráðan heimilislækni eða heilsugæslu. Með hliðsjón af því að um er að ræða aðgang að viðkvæmum heilsufarsupplýsingum einstaklinga er mikilvægt að sú auðkenningarleið sem notuð er sé örugg.
    Þegar auðkenningarleiðir að Heilsuveru voru skoðaðar var notuð stöðluð aðferðafræði þar sem gert var áhættumat fyrir veitingu aðgangs að þeim heilsufarsgögnum sem þar eru aðgengileg. Niðurstaða þeirrar vinnu var að nauðsynlegt væri að notast við auðkenningarleið af styrkleika 4 samkvæmt svokölluðu STORK QAA-matskerfi. Til samanburðar flokkast auðkenningarleið með íslykli undir styrkleika 2 sem þykir ekki nægjanlega örugg auðkenningarleið fyrir þau viðkvæmu gögn sem hægt er að nálgast í Heilsuveru.
    Öruggasta rafræna auðkenningin, sem í boði er hér á landi núna til að vernda svo viðkvæmar persónuupplýsingar sem heilbrigðisupplýsingar eru, er notkun rafrænna skilríkja. Af þeirri ástæðu er rafrænna skilríkja krafist til að fá aðgang að Heilsuveru.

     2.      Hvernig telur ráðherra það samræmast markmiðum laga um heilbrigðisþjónustu að gera kröfu um að einstaklingar séu í viðskiptum við einkaaðila til að fá aðgang að Heilsuveru?
    Með Heilsuveru er leitast við að auka aðgengi almennings að upplýsingum um sín mál innan heilbrigðisþjónustunnar, m.a. með því að veita almenningi rafrænan og öruggan aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum. Af þeirri ástæðu var á sínum tíma valin sú auðkenningarleið sem öruggust er samkvæmt tilteknu matskerfi eins og áður segir. Aðrar auðkenningarleiðir stóðu ekki til boða og standa ekki enn til boða. Því hefur ekki verið talin ástæða til að ráðast í breytingar á fyrirkomulagi á aðgangi að Heilsuveru.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að hið opinbera sjái almenningi fyrir rafrænum skilríkjum sem ekki krefjast þess að viðkomandi sé í viðskiptum við einkaaðila?
    Ekki eru uppi áform um að gera slíkt. Þess ber að geta að almenningur hefur hingað til haft aðgang að Heilsuveru með rafrænum skilríkjum, honum að kostnaðarlausu. Ekki er fyrirhugað að breyta því.