Ferill 128. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 154  —  128. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um innstæðutryggingar.


     1.      Hver er innstæðutrygging á Íslandi fyrir sparifé einstaklinga í evrum og krónum talið?
    Tryggingavernd innstæðna á Íslandi byggir á Evróputilskipun 94/19/EB um innlánatryggingakerfi sem innleidd var í landsrétt með lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
    Innstæðutrygging á sparifé einstaklinga á Íslandi er lágmarkstrygging. Þannig eru innstæður einstaklinga tryggðar að lágmarki að fjárhæð 1,7 millj. kr., sbr. 10. gr. laga nr. 98/1999. Sú fjárhæð er bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 5. janúar 1999. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) er fjárhæð lágmarkstryggingar á Íslandi að jafngildi 20.887 EUR. Í ákvörðun um útgreiðslur í kjölfar efnahagshrunsins var, samkvæmt upplýsingum frá TIF, miðað við kaupgengi Seðlabanka Íslands í lok þess dags þegar greiðsluskylda TIF stofnaðist. Vegna þessarar fyrirspurnar verður því notast við kaupgengi Seðlabanka Íslands þegar lágmarkstryggingavernd er uppreiknuð til 2. október 2017. Nánar tiltekið er útreikningurinn á lágmarkstryggingu fyrir sparifé einstaklinga í íslenskum krónum eftirfarandi: 20.887 EUR x 124,5 kr./EUR = 2.600.432 kr.
    Framangreint ákvæði laga nr. 98/1999 er innleiðing á 7. gr. tilskipunar 94/19/EB. Ekkert hámark er hins vegar á innstæðutryggingunni samkvæmt íslenskum lögum. Lög nr. 98/1999 mæla fyrir um að lágmarkstrygging skuli greidd, en allt umfram það verði bætt hlutfallslega eftir því sem eignir innlánsdeildar hrökkva til. Hámark innstæðutryggingar fer því eftir stöðu TIF hverju sinni.
    Hvað varðar tryggingavernd er miðað við samtölu innstæðna einstaklinga hjá hverri lánastofnun fyrir sig.

     2.      Hver er innstæðutrygging í ríkjum Evrópusambandsins fyrir sparifé einstaklinga í evrum og krónum talið?
    Evrópusambandið (ESB) samþykkti á árinu 2009 breytingar á fyrri tilskipun um innlánatryggingakerfi með tilskipun 2009/14/EB. Þá var tilskipunin um innlánatryggingakerfi endurútgefin ásamt frekari breytingum árið 2014, sem tilskipun 2014/49/ESB um innstæðutryggingakerfi (DGS III-tilskipunin). Það er því síðastnefnda tilskipun sem aðildarríkjum ESB er skylt að hafa innleitt í landsrétt í dag.
    Í DGS III-tilskipuninni er mælt fyrir um innstæðutryggingu sem er bæði lágmarks- og hámarkstrygging. Samkvæmt þeirri tilskipun er vernd innstæðna vegna sparifjár á hvern einstakling 100.000 EUR. (Jafngildi 12.450.000 kr. miðað við kaupgengi Seðlabanka Íslands 2. október 2017.) Aðildarríkjum er heimilt að kveða á um verndina í annarri mynt og að kveða á um endurgreiðslumynt í öðrum gjaldmiðlum. Í DGS III-tilskipuninni kemur einnig fram að í ákveðnum tilvikum er aðildarríkjum heimilt að ákveða að hámarksvernd innstæðna einstaklinga verði hækkuð tímabundið (að hámarki í 12 mánuði), svo sem vegna innstæðna sem tengjast greiðslum vegna kaupa á húsnæði til einkanota, skilnaðar, andláts o.fl.
    Tryggingaverndin miðast við innstæður einstaklinga hjá hverri lánastofnun fyrir sig.

     3.      Hvaða lönd innan Evrópska efnahagssvæðisins hafa ekki innleitt tilskipun frá Evrópusambandinu um innstæðutryggingar nr. 49/2014 og hver er skýringin á því að Ísland hefur ekki innleitt tilskipunina?
    Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu framkvæmdastjórnar ESB, hafa öll aðildarríki ESB nú innleitt DGS III-tilskipunina.
    Þegar reglur sem taldar eru falla undir gildissvið EES-samningsins hafa verið samþykktar á vettvangi ESB tekur við tvíþætt ferli. Fyrst ber að taka Evrópugerðina upp í EES-samninginn, og er það hlutverk sameiginlegu EES-nefndarinnar að taka ákvörðun um það eftir undirbúning í samstarfi við EES/EFTA-ríkin og ESB (upptaka). Ef lagabreytingar að landsrétti eru nauðsynlegar vegna Evrópugerðarinnar er upptakan framkvæmd með stjórnskipulegum fyrirvara. Ísland hefur í þeim tilvikum sex mánaða frest frá upptöku til að afgreiða málið og senda tilkynningu um að hinum stjórnskipulega fyrirvara hafi verið aflétt. Að upptökunni frágenginni er EES/EFTA-ríkjum, þar á meðal Íslandi, skylt að innleiða viðkomandi Evrópugerð í landsrétt (innleiðing).
    DGS III-tilskipunin 2014/49/ESB um innstæðutryggingakerfi hefur enn sem komið er ekki verið tekin upp í EES-samninginn en undirbúningur að upptöku hennar stendur yfir hjá EES/EFTA-ríkjunum ásamt miklum fjölda annarra Evrópugerða á fjármálamarkaði. DGS III-tilskipunin hefur ekki verið innleidd í landsrétt í EES/EFTA-ríkjunum, þ.e. Íslandi, Noregi og Liechtenstein.

     4.      Hefur Ísland fengið athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA fyrir að hafa ekki innleitt tilskipunina um innstæðutryggingar?
    Eins og fram kemur í svari við 3. tölul. fyrirspurnarinnar hér fyrr hefur DGS III-tilskipunin 2014/49/ESB um innstæðutryggingakerfi ekki verið tekin upp í EES-samninginn. Af þeim sökum hefur Ísland ekki fengið athugasemdir vegna þessa frá Eftirlitsstofnun EFTA.

     5.      Hefur verið lagt mat á það hvaða líkur séu á því að reyna muni á innstæðutryggingar hér á landi miðað við stöðu bankanna og spár um þróun efnahagsmála næstu misserin?
    Fjölmargt hefur breyst í umgjörð fjármálamarkaða hér á landi frá fjármálaáfallinu haustið 2008. Sumar þessara breytinga fela í sér að opinberir aðilar eru nú sífellt að leggja mat á stöðu viðskiptabankanna. Hér á eftir verða í stuttu máli rakin þau lagaákvæði og reglur sem mestu skipta í þessu samhengi.

Auknar eiginfjárkröfur og takmarkanir á skuldsetningu fjármálafyrirtækja.

    Lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, kveða nú á um að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt, að undangengnum tilmælum frá fjármálastöðugleikaráði, að leggja á fjármálafyrirtæki sérstaka eiginfjárauka vegna kerfisáhættu til sveiflujöfnunar og vegna kerfislegs mikilvægis viðkomandi fjármálafyrirtækis. Eiginfjáraukar fela í sér hærri kröfu um að viðhalda nægjanlegu eigin fé hjá fjármálafyrirtæki. Ákvarðanir um beitingu þessara þriggja eiginfjárauka eru byggðar á reglulegu mati eftirlitsstofnana og ítarlegum greiningum á fjármálafyrirtækjunum, efnahagslífinu og stöðu fjármálamarkaða. Þá skulu ákveðin fjármálafyrirtæki, þ.m.t. allar lánastofnanir (bankar), viðhalda enn öðrum eiginfjárauka, svonefndum verndunarauka.
    Kröfur um eiginfjárauka eru til viðbótar við grunnkröfu laga um fjármálafyrirtæki um eigið fé fjármálafyrirtækja og viðbótarkröfu um eigið fé í kjölfar könnunar- og matsferlis (e. SREP) Fjármálaeftirlitsins. Í því ferli getur eftirlitsaðili gert sérstakar kröfur til fjármálafyrirtækja, þar á meðal sérstakar eiginfjárkröfur. Þá er jafnframt hægt að setja starfsemi fjármálafyrirtækis í öðru ríki innan EES ákveðin skilyrði, svo sem gera kröfu um að innlánssöfnun í öðru ríki fari fram í gegnum sérstakt félag en ekki útibú
    Í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, er nú einnig kveðið á um lágmark vogunarhlutfalls, þ.e. að hve miklu marki fjármálafyrirtækjum er heimilt að skuldsetja sig.
    Markmiðið með auknum eiginfjárkröfum og takmörkunum á skuldsetningu fjármálafyrirtækja er að hluthafar beri meiri áhættu af rekstrinum. Þannig dragi úr áhættusækni og freistnivanda í rekstri fyrirtækjanna sem minnkar líkur á áföllum og eykur trú innstæðueigenda á fjárhagslegum styrk fyrirtækjanna. Sterkari eiginfjárstaða dregur jafnframt úr þeim neikvæðu áhrifum sem áföll kynnu að hafa á aðra en eigendur bankanna.

Nýjar reglur Seðlabanka Íslands um laust fé lánastofnana og fjármögnunarhlutfall.
    Í árslok 2014 tók Seðlabanki Íslands upp nýjar reglur um laust fé lánastofnana, nr. 1031/2014. Markmið þeirra er að draga úr skaðlegum áhrifum áfalla á fjármálamarkaði sem birtast í lausafjárþrengingum einnar eða fleiri lánastofnana. Reglurnar eiga að draga úr lausafjáráhættu þeirra og fjármálakerfisins í heild með því að stuðla að því að lánastofnanir eigi ávallt nægt laust fé til að mæta fyrirsjáanlegum og hugsanlegum greiðsluskuldbindingum á tilteknu tímabili. Með nýjum reglum um laust fé lánastofnana eru einnig stigin skref í þá átt að draga úr lausafjáráhættu í erlendum gjaldmiðlum (gjaldmiðlamisræmi) sem reyndist vera einn af stærstu áhættuþáttunum í aðdraganda bankahrunsins árið 2008. Jafnframt eru gerðar meiri kröfur til gæða lausafjáreigna en áður, innlán flokkuð nánar og þeim gefið vægi með tilliti til áhættu, auk þess sem nú er tekið meira tillit til áhættu vegna liða utan efnahags.
    Þá setti Seðlabanki Íslands reglur nr. 1032/2014 um fjármögnunarhlutfall í erlendum gjaldmiðlum árið 2014. Fjármögnunarhlutfallinu er ætlað að tryggja lágmark stöðugrar fjármögnunar, m.a. í erlendum gjaldmiðlum, til eins árs og takmarkar því að hve miklu leyti viðskiptabankar geta reitt sig á óstöðuga skammtímafjármögnun, líkt og innstæður, til þess að fjármagna langtímaútlán. Reglur um fjármögnunarhlutföll draga úr svokölluðu gjalddagamisræmi og því að hve miklu leyti bankar reiða sig á óstöðuga skammtímafjármögnun til að fjármagna langtímaeignir sem geta verið torseljanlegar.
    Þær lausafjárreglur sem eru í gildi í dag hafa verið efldar mjög frá því sem var fyrir fjármálaáfallið og reglur um fjármögnunarhlutfall eru ný tegund af reglum sem ekki voru við lýði þá. Á grundvelli þessara reglna hefur Seðlabanki Íslands nánast stöðugt eftirlit með lausafjár- og fjármögnunarstöðu lánastofnana og getur gripið til úrræða ef þurfa þykir.

Fjármálastöðugleikaráð.
    Með lögum nr. 66/2014 var fjármálastöðugleikaráði, formlegum samráðsvettvangi stjórnvalda um fjármálastöðugleika, komið á fót. Í ráðinu sitja fjármála- og efnahagsráðherra, seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Reglulegir fundir ráðsins eru fjórir á hverju ári og á þeim fundum er farið yfir þróun í fjármála- og hagkerfinu, áhættan metin og skoðað hvort tilefni sé til að senda stjórnvöldum tilmæli um að beita þeim stjórntækjum sem þau hafa yfir að ráða. Áhættugreiningar fyrir ráðið eru framkvæmdar af kerfisáhættunefnd og byggjast á sérfræðiþekkingu starfsmanna Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Á fundum fjármálastöðugleikaráðs og kerfisáhættunefndar er farið yfir mat á lausafjárstöðu, fjármögnun, eiginfjárstöðu bankanna og niðurstöður könnunar- og matsferlis Fjármálaeftirlitsins. Yfirsýn yfir fjármálakerfið er betri en fyrir fjármálaáfallið og eftirlit hér á landi hefur í auknum mæli endurspeglað aukna áherslu erlendis á þjóðhagsvarúðareftirlit, eftirlit með fjármálakerfinu sem heild og samspili aðila í því, samhliða eindarvarúðareftirliti þar sem einblínt er á stöðu hvers fyrirtækis.

Viðbúnaðaráætlanir og skilameðferð fjármálafyrirtækja.
    Til viðbótar við það sem fyrr er rakið er í þessu samhengi rétt að geta þess að undanfarin ár hefur verið unnið að upptöku og innleiðingu á tilskipun 2014/59/ESB um viðbúnað og skilameðferð fjármálafyrirtækja (BRRD-tilskipunin).
    Markmið BRRD-tilskipunarinnar er að koma í veg fyrir erfiðleika eða áföll fjármálafyrirtækja og vernda fjármálalegan og efnahagslegan stöðugleika. Komi til slíkra erfiðleika er markmið reglnanna að lágmarka neikvæðar afleiðingar, tryggja áframhaldandi kerfislega mikilvæga starfsemi og vernda innstæðueigendur, en um leið takmarka hættu á að kallað verði eftir framlögum úr ríkissjóði. Í þessu skyni mælir BRRD annars vegar fyrir um fyrirbyggjandi aðgerðir og hins vegar víðtækar heimildir eftirlitsaðila fjármálafyrirtækja og nýs stjórnvalds (svonefnds skilavalds sem fer með undirbúning og framkvæmd skilameðferðar) til að grípa til aðgerða vegna erfiðleika fjármálafyrirtækis.