Ferill 125. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 162  —  125. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur um kröfur um menntun starfsmanna barnaverndar sem fara með valdheimildir, stjórnsýsluaðgerðir og löggæslu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða kröfur eru gerðar um fræðslustig og menntun starfsmanna barnaverndar sem fara með valdheimildir, stjórnsýsluaðgerðir og löggæslu?

    Í 4. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er fjallað um meginreglur barnaverndarstarfs og segir þar að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu. Þá segir þar jafnframt að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi. Skv. 14. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd ráða sérhæft starfslið eða tryggja sér aðgang að viðeigandi sérþekkingu með öðrum hætti. Skal við það miðað að hægt sé að veita foreldrum, stofnunum og öðrum er annast uppeldi viðhlítandi ráðgjöf, fræðslu og leiðbeiningar. Jafnframt skal miðað við að möguleikar séu til faglegra rannsókna á félagslegum og sálrænum högum barna er með þurfa vegna könnunar og meðferðar einstakra barnaverndarmála. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögunum segir að með sérhæfðu starfsfólki sé átt við fólk sem hefur sérmenntað sig á þeim sviðum sem helst reynir á í barnaverndarstarfi, þ.e. lækna (geðlækna), sálfræðinga, félagsráðgjafa, sérmenntaða kennara og uppeldisfræðinga. Þá kemur einnig fram í 14. gr. barnaverndarlaga að barnaverndarnefnd sé heimilt að semja við stofnanir, svo sem á sviði félags-, skóla- og heilbrigðisþjónustu, um sameiginlegt starfsmannahald og sérfræðiþjónustu. Í 4. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd segir að barnaverndarnefnd skuli setja skriflegar reglur um verkaskiptingu milli nefndarinnar og starfsmanna sem hún felur að sinna lögboðnum verkefnum nefndarinnar. Í reglunum skal tilgreina að hvaða marki barnaverndarnefnd framselur til einstakra starfsmanna vald til að taka ákvarðanir eins og um könnun og meðferð einstakra mála. Þá segir þar jafnframt að ef barnaverndarnefnd fær aðra stofnun eða ræður starfsmann til þess að sinna tilteknum verkefnum eða einstökum málum skuli gera um það skriflegan samning þar sem skýrt er kveðið á um verkefni og umboð stofnunarinnar eða starfsmannsins. Áréttað skal að starfsmenn barnaverndarnefnda sinna ekki almennum löggæsluverkefnum í skilningi ákvæða lögreglulaga, nr. 90/1996.
    Barnaverndarstofa hefur það hlutverk með höndum að veita barnaverndarnefndum í landinu fræðslu og ráðgjöf skv. 7. gr. barnaverndarlaga. Fræðslan er veitt af starfsmönnum ráðgjafar- og fræðslusviðs stofunnar sem og öðrum starfsmönnum hennar. Barnaverndarstofa hefur einnig gefið út handbók um vinnslu barnaverndarmála fyrir starfsfólk barnaverndarnefnda sem uppfærð er reglulega. Þá heldur Barnaverndarstofa reglulega ýmis námskeið fyrir starfsfólk barnaverndarnefnda, svo sem um ýmsa þætti barnaverndarstarfs og réttindi barna og foreldra.