Ferill 129. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 165  —  129. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um eftirfylgni við þingsályktun nr. 28/145, um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.


     1.      Er von á lagabreytingu fyrir lok þessa árs um skyldur ríkis og sveitarfélaga til að sinna samþættri þjónustu við einstaklinga með geðraskanir, sbr. lið A1 í þingsályktun nr. 28/145?
    Ekki er von á lagabreytingu fyrir lok ársins 2017 varðandi þennan tölulið fyrirspurnarinnar.

     2.      Hafa geðheilsuteymi tekið til starfa í einhverjum landshlutum? Hefur geðheilsuteymi fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta tekið til starfa, líkt og átti að gerast á árinu 2017? Ef svo er ekki, er fyrirsjáanlegt að það taki til starfa fyrir lok árs, sbr. lið A2?
    1. mars 2017 fluttist Geðheilsustöð Breiðholts frá velferðarsviði Reykjavíkur til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Samráðshópur hefur lagt fram tillögur að undirbúningi þess að stofna tvö teymi til viðbótar, annað fyrir vesturhluta borgarinnar og hitt fyrir Kópavog, Hafnarfjörð og Garðabæ. Áætlað er að geðteymið í vesturborginni hefji starfsemi á fyrstu mánuðum ársins 2018 og hitt ekki síðar en í ársbyrjun 2019. Stefnt er að því stofna teymi utan höfuðborgarsvæðisins árið 2020. Markmiðið er að eitt af teymunum sérhæfi sig jafnframt í þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta einstaklinga sem reiða sig á íslenskt táknmál til samskipta og glíma við geðröskun, sú sérhæfing er ekki hafin.

     3.      Hvað líður því markmiði að aðgengi að gagnreyndri meðferð sálfræðinga verði á 50% heilsugæslustöðva í árslok 2017, sbr. lið A3? Hvert er hlutfallið nú? Svar óskast sundurliðað eftir landshlutum.
    Vinna við þessa aðgerð er á áætlun og búið er að fjölga stöðum sálfræðinga víða á landinu. Áfram verður aukið við þennan lið á næstu tveimur árum og mælanlegu markmiði verður náð árið 2019.
    Hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er aðgengi að gagnreyndri meðferð sálfræðinga á öllum heilsugæslustöðvum. Heilbrigðisstofnun Norðurlands hefur sex heilsugæslustöðvar og í ágúst voru fimm þeirra mannaðar sálfræðingum og stefnt var að því að í haust yrðu allar sex heilsugæslustöðvarnar mannaðar sálfræðingum. Heilbrigðisstofnun Vesturlands réði yfirsálfræðing í 100% stöðugildi í september og er verið að ganga frá ráðningu í 80% stöðugildi sálfræðings á næstunni. Þessir sálfræðingar veita öllum heilsugæslustöðvum í umdæminu þjónustu. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða réði á þessu ári sálfræðing í 100% stöðugildi og verið er að skipuleggja þjónustuna. Heilbrigðisstofnun Austurlands réði tvo sálfræðinga í tvær 100% stöður í ágúst sem veita öllum heilsugæslustöðvum í umdæminu þjónustu. Hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands starfa fimm sálfræðingar í samanlagt tveimur og hálfu stöðugildi og þjónusta allar heilsugæslustöðvar í umdæminu. Hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja starfa níu sálfræðingar í 7,3 stöðugildum sem þjónusta allar heilsugæslustöðvar í umdæminu.

     4.      Hefur fleira sérhæft starfsfólk verið ráðið á göngudeild BUGL í því skyni að ná markmiði um að í lok árs 2019 verði engir biðlistar eftir þjónustu deildarinnar, sbr. lið A6?
    Frá lokum ársins 2015 hefur 4,4 stöðugildum meðferðaraðila verið bætt við hóp starfsfólks BUGL. Einnig hefur fjármagn verið nýtt til þjálfunar og handleiðslu starfsfólks og ný gagnreynd meðferðartilboð verið innleidd. Fræðsluefni fyrir foreldra, börn og nærumhverfi hefur verið útbúið. Þá hefur BUGL verið í vaxandi samráði við þverfagleg teymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og úti á landi en þar kemur BUGL að málum um 600 barna í formi ráðgjafar og handleiðslu og hefur líkast til haft áhrif á að færri tilvísanir berast nú göngudeild BUGL. Þrátt fyrir þetta hefur biðtími, sem tekist hafði að stytta, vaxið undanfarið. Það má rekja til langtímaveikinda nokkurra starfsmanna sem stafa af mygluskemmdum í húsnæði deildarinnar og framkvæmdum við húsnæði sem hefur takmarkað meðferðarhúsnæði verulega undanfarið.

     5.      Tókst að mæta uppsafnaðri þörf geðfatlaðs fólks fyrir viðeigandi húsnæði og þjónustu fyrir árslok 2016, sbr. lið A9? Ef svo er ekki, hversu margir geðfatlaðir einstaklingar dvelja nú á Landspítalanum vegna skorts á búsetuþjónustu?
    Ekki tókst að mæta uppsafnaðri þörf geðfatlaðs fólks fyrir viðeigandi húsnæði og þjónustu fyrir árslok 2016. Á geðsviði Landspítalans var staðan sú í byrjun ágúst 2017 að sex innlagðir sjúklingar biðu eftir búsetuúrræði í Reykjavík.

     6.      Er von á niðurstöðum starfshóps sem gera á tillögur um geðræktarstarf á öllum skólastigum fyrir árslok, sbr. lið B2?
    Embætti landlæknis hefur verið falið að skipa í þennan starfshóp og skilar starfshópurinn niðurstöðum árið 2018.

     7.      Er hafið starf við að skima fyrir kvíða, depurð, þunglyndi og áhrifum áfalla meðal barna, sbr. lið B3? Hafa fleiri börn fengið meðferð við kvíða eða þunglyndi vegna þessara skimana á árinu 2017 en fyrri ár?
    Skimunin er ekki hafin á landsvísu þar sem í ljós hefur komið að leysa þarf ákveðin atriði varðandi skráningu og meðferð upplýsinga úr skimunum. Unnið er að því að greiða úr þessu og fyrirhugað er að skimanir í Reykjavík hefjist bráðlega að nýju.

     8.      Munu tillögur starfshóps um forvarnir gegn sjálfsvígum ungmenna ásamt kostnaðar- og innleiðingaráætlun liggja fyrir í árslok 2017, sbr. lið B4?
    Embætti landlæknis hefur verið falið að skipa þennan hóp og áætlað er að tillögur liggi fyrir í febrúar 2018.

     9.      Hefur starfshópur skilað áætlun um hvernig unnið skuli gegn fordómum í garð geðfatlaðra, sbr. lið C1?
    Verið er að undirbúa skipan starfshóps.

     10.      Hafa verið settar fram leiðbeiningar fyrir fjölmiðla um leiðir til þess að fjalla um geðheilbrigðismál án þess að ala á fordómum, sbr. lið C2?
    Leiðbeiningar hafa ekki verið settar fram.


     11.      Hversu margir opinberir vinnustaðir taka þátt í tilraunaverkefnum sem miða að því að ráða fólk til starfa sem hefur lent utan vinnumarkaðar vegna langvinnra geðraskana og draga þannig úr fordómum og mismunun, sbr. lið C3? Svar óskast sundurliðað eftir landshlutum.
    Verkefnið er ekki komið til framkvæmda.

     12.      Hvað líður markmiði um að innleiða skimun fyrir geðheilsuvanda í þá heilsufarsskoðun sem fram fer við komu hælisleitenda til landsins, sbr. lið C4?
    Þessu markmiði hefur verið náð.

     13.      Hefur skiptum þar sem túlkaþjónusta er nýtt í geðheilbrigðisþjónustu fjölgað á árinu 2017 miðað við fyrri ár, sbr. markmið í lið C5 um aukna þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á réttindum fólks til túlkaþjónustu?

    Tölur um notkun túlkaþjónustu vegna geðheilbrigðisvanda liggja ekki fyrir og ekki er að fullu ljóst á þessari stundu hvort unnt verður að einangra notkun túlkaþjónustu vegna geðheilbrigðisvanda frá annarri túlkun í heilbrigðisþjónustu.