Ferill 98. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 166  —  98. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um hlunnindamat vegna notkunar þingmanna á bílaleigubílum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Sendir skrifstofa Alþingis launamiða til ríkisskattstjóra vegna hlunnindamats þingmanna vegna einkanota á bílaleigubílum sem þeir hafa til umráða? Sé svo, hvert var árlegt hlunnindamat sl. fjögur ár og hvert var árlegt meðalhlunnindamat þeirra sem hlunnindanna nutu?
     2.      Hverjar eru matsreglur skrifstofu Alþingis í þessu sambandi?
     3.      Er einhver munur á uppgjörsreglum skrifstofu Alþingis og árlegum reglum sem ríkisskattstjóri gefur út um skattmat vegna bifreiðahlunninda? Ef svo er, í hverju felst munurinn?


    Ekkert hlunnindamat hefur farið fram á bílaleigu í þágu þingmanna. Akstur með bílaleigubílum í þágu þingmanna er vaxandi og hefur skrifstofan hvatt til þess í hagræðingarskyni. Forsætisnefnd hefur breytt ferðareglum til samræmis við það. Um ferðakostnað innan lands gilda annars ákvæði 7. gr. laga um þingfararkaup og þingfararkostnað, nr. 88/1995. Þau er svo nánar útfærð í reglum forsætisnefndar um þingfararkostnað, aðallega í 3.–6. gr. Meginreglan er sú að alþingismaður skal fá endurgreiddan kostnað við ferðir sem hann þarf að fara í tengslum við störf sín.
    Um skattalega meðferð ferðakostnaðar gilda ákvæði 17. gr. laganna nr. 88/1995 (framtalsskyldur en ekki skattskyldur). Það fyrirkomulag að taka bifreið á leigu til að uppfylla þær skyldur sem á Alþingi eru lagðar með 2. mgr. 6. gr., og að nokkru 2. mgr. 7. gr., laga nr. 88/1995 til að kosta ferðir milli heimilis og vinnustaðar alþingismanns er ekki talið skipta máli um það hvort um skattskyldar tekjur er að ræða eða ekki. Slíkar greiðslur eru ekki skattskyldar eins og áður segir og því verður ekki séð að form eða fyrirkomulag skipti þar sköpum.
    Ef alþingismaður nýtir bílaleigubíl í einkaerindi utan þessa aksturs sem lögbundið er að Alþingi kosti þá ætti að hann halda skrá yfir þann akstur því þá væri um skattskyld bifreiðahlunnindi að ræða.
    Bílaleigukostnaður er aðallega þrenns konar:
     a. Fundarferðir.
    Þingmenn fá endurgreiddan kostnað við bílaleigubíla við ferð á tilgreinda fundi til og frá aðsetri eða flugvelli.
     b. Þingmenn með tvö heimili.
    Þingmenn, sem halda tvö heimili hafa heimild til að leigja bíaleigubíl meðan þeir dveljast í Reykjavík (á þingstað). Þetta á sérstaklega við um þingmenn sem búa á Vestfjörðum, Norðausturlandi og Austfjörðum. Þannig nota alþingismenn flugferðir til og frá heimili um helgar fremur en bíla sem væri mun dýrari ferðamáti.
    c. Þingmenn sem stunda heimanakstur m.a.
    Ef þingmenn utan Reykjavíkur og Suðvesturkjördæmis (höfuðborgarsvæðis) velja að aka daglega milli heimilis og Reykjavíkur nota þeir bílaleigubíl á vegum Alþingis ef fyrirsjáanlegt er að árlegur akstur verði meiri, og er þá miðað við um 15 þús. km á ári. Þingmenn halda skrá yfir akstur til og frá Reykjavík og allar fundaferðir.
    Allur er þessi akstur tengdur starfi þingmanna. Að jafnaði er leitast er við að leysa úr málum á sem hagkvæmasta hátt hverju sinni.