Ferill 32. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 168  —  32. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Eygló Harðardóttur um byggingu íbúða.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað áætlar ráðherra að margar íbúðir verði annars vegar í byggingu og hins vegar fullbúnar árlega á næstu fimm árum? Svar óskast sundurliðað eftir kjördæmum.

    Upplýsingar um áætlaða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis flokkaða eftir kjördæmum eru því miður hvergi aðgengilegar en engin miðlæg upplýsingagátt er til staðar sem heldur utan um slíkar upplýsingar. Það stendur hins vegar til bóta og Mannvirkjastofnun kynnti byggingargátt sína á húsnæðisþingi Íbúðalánasjóðs 16. október síðastliðinn.
    Í byggingargátt Mannvirkjastofnunar verður hægt að fylgjast með því hvaða húsnæði er í uppbyggingu hverju sinni í öllum sveitarfélögum (byggist á því að byggingarfulltrúar allra sveitarfélaga nýti gáttina) og á hvaða stigi byggingin er. Því ætti einnig að vera mögulegt að sjá hvenær áætlað er að nýbyggingar verði fullbúnar og komi á markað.
    Með húsnæðisáætlunum sveitarfélaga verður mögulegt að sjá hvað er áætlað að bætist við af nýju íbúðarhúsnæði og hvers konar húsnæði á næstu fjórum árum annars vegar og næstu átta árum hins vegar. Til þess að þetta megi verða er mikilvægt að öll sveitarfélög geri ítarlega húsnæðisáætlun og vinnur Íbúðalánasjóður að því að öll sveitarfélög verði komin vel af stað og/eða búin að gera húsnæðisáætlun í byrjun árs 2018. Nú þegar hafa þrjú sveitarfélög birt húsnæðisáætlun opinberlega en það eru Reykjavíkurborg, Sandgerði og Rangárþing ytra.