Ferill 53. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 169  —  53. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um mansalsmál.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvað telur ráðherra að skýri það, að í árlegri skýrslu bandarískra stjórnvalda um mansalsmál, Trafficking in persons report, sem birtist í júní 2017, fellur Ísland niður í annan flokk með tilliti til aðgerða gegn mansali og sker sig frá öðrum löndum Vestur-Evrópu hvað þetta snertir? Lítur ráðherra svo á að gefin sé rétt mynd af ástandi mansalsmála hér á landi í skýrslunni? Telur ráðherra að farið sé rangt með staðreyndir í skýrslunni og þá hverjar?
    Í skýrslu bandarískra stjórnvalda um mansalsmál kemur m.a. fram að ýmislegt hafi verið vel gert og áunnist á úttektartímabilinu, hins vegar vanti upp á ákærur, saksókn og sakfellingar. Þá hafi rannsóknum mansalsmála fækkað milli ára. Ráðherra telur varhugavert að líta á það sem sérstakan mælikvarða um árangur hversu margar ákærur, saksóknir og sakfellingar hafi átt sér stað á tímabilinu. Margir aðrir þættir geta spilað þar inn í. Rétt er að benda á að skýrslan er ekki afrakstur hefðbundins alþjóðlegs samstarfs, heldur felur í sér einhliða mat yfirvalda í einu ríki. Upplýsingar í skýrslunni virðast ekki bera með sér að saksótt sé í verulega fleiri málum í Bandaríkjunum en á Íslandi, þegar tekið er mið af fólksfjölda. Líkt og kemur fram í skýrslunni telja bandarísk stjórnvöld að margt sé vel gert og hafi áunnist á tímabilinu og hvetja til þess að stjórnvöld haldi áfram á sömu braut.

     2.      Hversu mörg mansalsmál voru rannsökuð af lögreglu 2013–2016? Svarið óskast sundurliðað eftir árum.
    Eftirfarandi upplýsingar bárust frá lögreglu.
    Fjöldi mála sem þar sem mansal var skráð (sbr. 227. gr. a í almennum hegningarlögum) og mál rannsökuð sem slík, árin 2013–2016.

Ár 2013 2014 2015 2016
Mansal, fjöldi skráðra brota 5 2 6 6

    Gögnin byggjast á upplýsingum úr málaskrárkerfi lögreglu 16. október 2017. Miðað er við ártal sem mansal er skráð í mál.
    Um er að ræða fjölda mála þar sem mansal er skráð sem brot. Ekki er um að ræða brot þar sem á einhverjum tímapunkti var grunur um mansal, hafi það ekki verið skráð eða rannsakað sem slíkt.


     3.      Hversu margir starfsmenn lögreglunnar sinna mansalsmálum og hversu mörg eru stöðugildin?

    Eftirfarandi upplýsingar bárust frá lögreglu.
    Hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru þrjú stöðugildi og þrír starfsmenn sem sinna mansalsmálum.
    Hjá embætti lögreglunnar á Austurlandi er einn lögreglumaður sem sinnir mansalsmálum þegar þau koma upp ásamt öðrum störfum, u.þ.b. 25% stöðugildi.
    Enginn tiltekinn starfsmaður sinnir mansalsmálum í öðrum lögregluembættunum á landsbyggðinni heldur sinna lögreglumenn eða rannsóknarlögreglumenn þeim málum jafnt og öðrum málum þegar þau koma upp. 1 Rétt er að geta þess að fyrir liggja verklagsreglur ríkislögreglustjóra varðandi mansalsbrot.

Frá lögregluembættunum.
    Lögreglan á Austurlandi: Einn lögreglumaður sinnir mansalsmálum hjá embætti lögreglunnar á Austurlandi ásamt öðrum störfum, u.þ.b. 25% stöðugildi.
    Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu: Hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru þrjú stöðugildi og þrír starfsmenn sem sinna mansalsmálum.
    Lögreglan á Norðurlandi eystra: Ekkert stöðugildi er sérstaklega vegna mansalsrannsókna en rannsóknarlögreglumenn sinna þessu ef upp kemur, svo og lögreglumenn á vakt.
    Lögreglan á Norðurlandi vestra: Ekkert stöðugildi er sérstaklega vegna mansalsrannsókna.
    Lögreglan á Suðurlandi: Lögreglan á Suðurlandi sinnir ábendingum og upplýsingum er varða hugsanlegt mansal með áþekkum hætti og við á um önnur alvarleg hegningalagabrot og nýtir til þess þann mannafla sem tiltækur er hverju sinni eftir eðli og umfangi mála.
    Í rannsóknardeild embættisins eru fjórir rannsóknarlögreglumenn auk lögreglufulltrúa og yfirlögregluþjóns, samtals sex stöðugildi. Rannsóknardeildin sinnir meðal annars rannsóknum mansalsmála sem upp koma í umdæminu.
    Lögreglan á Suðurnesjum: Ekki er sérstakt stöðugildi vegna mansalsrannsókna við embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum. En með gríðarlegri aukningu umsvifa Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, sem á sér engin fordæmi, þyrfti eitt stöðugildi til rannsókna á mansali.
    Lögreglan á Vestfjörðum: Þessi mál eru unnin hjá rannsóknardeild embættisins. Það er enginn einn tiltekinn starfsmaður sem sinnir þessum málaflokki.
    Lögreglan á Vesturlandi: Ekkert stöðugildi er sérstaklega tengt mansalsmálum. Kæmi slíkt mál upp yrði því sinnt af starfsmönnum rannsóknardeildar.


1    Ekki bárust svör frá lögreglunni í Vestmannaeyjum fyrir skilafrest fyrirspurnar.