Ferill 83. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 176  —  83. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um jarðvanga.


     1.      Hyggst ráðherra breyta því að Reykjanes jarðvangur er sá eini af um 100 jarðvöngum sem eru aðilar að alþjóðlegum samtökum jarðvanga, Global Geoparks Network sem starfa undir verndarvæng Unesco, sem nýtur ekki framlaga á fjárlögum viðkomandi ríkis?
    Ráðherra beitti sér fyrir því að undirritaður var samstarfssamningur milli ríkisins og Kötlu jarðvangs vorið 2017 þar sem ríkið leggur fram 20 millj. kr. árlega í fimm ár til skilgreindra verkefna jarðvangsins. Jafnframt beitti ráðherra sér fyrir því að Reykjanes jarðvangur fengi fjárhagslegan stuðning úr ríkissjóði til eflingar landvörslu árið 2017. Í framhaldi af þessum ákvörðunum telur ráðherra rétt að skoðað verði hvort og þá hvernig ríkið geti stutt við starfsemi Reykjaness jarðvangs.

     2.      Hver er framtíðarsýn ráðherra um uppbyggingu jarðvanganna Reykjaness og Kötlu og aðkomu ríkisvaldsins að henni?
    Ráðherra telur að með stofnun jarðvanganna Reykjaness og Kötlu hafi verið tekin jákvæð skref til verndunar náttúru viðkomandi svæða og til utanumhalds ferðamannastaða sem ekki eru í eigu eða umsjón opinberra aðila. Með því að gera samstarfssamning við Kötlu jarðvang hefur verið komið á samstarfi ríkis og sveitarfélaga um framgang verkefnisins. Reynist það fyrirkomulag vel er eðlilegt að skoðað verði hvort henti að leita samstarfs um slíkan samning við Reykjanes jarðvang og eftir atvikum aðra jarðvanga sem stofnaðir verða.